Hoppa yfir valmynd
18. júlí 2000 Dómsmálaráðuneytið

Ræða dómsmálaráðherra á blaðamannafundi til kynningar umferðarátaki í flugskýli LHG

Ræða dómsmálaráðherra á blaðamannafundi til kynningar umferðarátaki í flugskýli LHG 18.07.2000


Góðir gestir

Ég vil byrja á því að bjóða þá sem hingað eru komnir velkomna bæði fjölmiðlafólk og aðra gesti. Við erum hér stödd á mikilvægum vettvangi í öryggismálum þjóðarinnar. Héðan leggja menn upp í björgunarleiðangra á erfiðum stundum og þegar alvarleg slys hafa átt sér stað. Við vitum að sú tækni sem við ráðum yfir gerir okkur sífellt betur í stakk búin til þess að takast á við þau vandamál sem ber að höndum, bæði til að fyrirbyggja slys og bregðast við þeim. Hér gefur að líta tæki og búnað sem viðbragðsaðilar og löggæslan hafa yfir að ráða, og við vitum hversu vel þetta fólk stendur sig þegar vá ber að höndum og alvarleg slys.

Þrátt fyrir það og allar þessar framfarir og tækninýjungar hefur okkur ekki tekist að afstýra þeim hörmungum sem ríða yfir á hverju ári í umferðinni. Á síðustu 5 árum hafa yfir hundrað menn og konur látið lífið og mörg hundruð orðið fyrir óbætanlegu tjóni. Þetta er óþolandi ástand og fullkomlega tilgangslausar fórnir.

Síðastliðið vor stóð dómsmálaráðuneytið fyrir ráðstefnu undir yfirskriftinni "Bætt umferðarmenning – burt með mannfórnir". Þar var farið yfir þann vanda sem blasir við í umferðarmálum þjóðarnnar og rætt um aðgerðir til þess að bæta úr ástandinu. Þar voru jafnframt lögð fram ný áhersluatriði umferðaröryggisáætlunar.

Þar lýsti ég því m.a. yfir að blásið yrði til sóknar gegn slysum í umferðinni og sjónum yrði beint sérstaklega að yngstu ökumönnunum sem er stærsti áhættuhópurinn í umferðinni. Þessi fundur er boðaður til þess að kynna slíkt átak, sem bæði felst í fræðslu og aðgerðum yfirvalda.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem blásið hefur verið til átaks um gott mál. En við hugsum í stærra samhengi en svo að þetta verði flugeldasýning sem skíni skært en standi stutt. Til þessa átaks er blásið til að hafa varanleg áhrif, bæði með langtíma-stefnumótun og með eflingu löggæslu, en ekki síst með því að hafa áhrif á ökuvenjur landsmanna.

Sú staða sem uppi er í umferðarmálum krefst aðgerða og viðhorfsbreytingar og ábyrgðin liggur ekki aðeins hjá yfirvöldum, heldur hjá þjóðinni allri, fyrirtækjum og félögum, og síðast en ekki síst ökumönnum sjálfum. Þetta er okkur öllum orðið ljóst.

Breið samstaða er nauðsynleg til þess að ná viðvarandi árangri í umferðarmálum. Að þessu átaki stendur því stór hópur og skora ég á alla þá sem vettlingi geta valdið að leggja okkur lið. Opinberar stofnanir sem sinna umferðaröryggismálum, lögreglan, umferðarráð og vegagerðin standa að átakinu ásamt dómsmálaráðuneytinu. Allnokkrir fjölmiðlar hafa ákveðið fjalla af krafti umferðaröryggi og vonandi munu fleiri fylgja því fordæmi. Fjölmörg fyrirtæki hafa gerst stuðningsaðilar. Á næstunni verður leitað eftir stuðningi enn fleiri aðila.

Það er sérstök ánægja að sjá fulltrúa atvinnulífsins hér. Það veitir okkur góð fyrirheit en undirstrikar um leið skilning manna á alvöru málsins. Þegar hafa mörg fyrirtæki gengið til liðs við átakið, s.s. tryggingafélög, bílaumboð, olíufélög, og fleiri. En ekki aðeins fyrirtæki sem tengjast umferðarmálum beint, heldur hafa jafnvel sjávarútvegsfyrirtæki, símafyrirtæki o.fl. heitið stuðningi. Þetta kristallar þá staðreynd að umferðarmál varða alla landsmenn og öll viljum við snúa þeirri óheillaþróun sem felst stóraukningu tjóna.

Fjölmiðlar gegna ákaflega mikilvægu hlutverki á sviði umferðarmála. Þeir koma upplýsingum á framfæri og eru vettvangur umræðu um þennan stóra og mikilvæga málaflokk. Tölur um slys og óhöpp í umferðinni sýna að yngstu ökumennirnir eru í sérstökum áhættuhópi. Í átakinu verður því reynt að vekja unga ökumenn sérstaklega til umhugsunar um umferðina og hvernig megi bæta hana. Ætlunin er að höfða til skynsemi ungs fólks og hvetja það til að muna eftir beltunum, draga úr hraðanum og ekki síst minna á að áfengi og akstur fara aldrei saman. Til að skilaboðin verði sem áhrifaríkust hefur þekkt ungt fólk gengið í lið með aðstandendum átaksins til þess að leiðbeina jafnöldrum sínum um hvernig á að hegða sér undir stýri, hvort sem er úti á vegum eða í þéttbýli. Hér er um að ræða ungt sjónvarps- og útvarpsfólk sem ætlar að tala beint til ungra ökumanna og hvetja þá til þess að láta skynsemina ráða í akstri. Skilaboðum átaksins verður komið á framfæri á jákvæðan og skemmtilegan hátt með líflegri framsetningu.

Snar þáttur átaksins er að auka umferðareftirlit og gera lögregluna sýnilegri. Ríkislögreglustjóri og lögregluembættin í landinu taka þátt í átakinu og hafa nú þegar skipulagt öflugra umferðareftirlit. Í hverjum landshluta munu lögregluliðin taka sig saman um að forgangsraða með markvissum hætti með það að markmiði að menn og tæki nýtist sem best til að draga úr umferðarslysum. Ætlunin er að fylgjast sérstaklega með hraðakstri, beltanotkun ökumanna og ölvunarakstri. Þá verða lögreglubifreiðar með hraðamyndavélum og öndunarsýnamælum á ferð um landið.

Vegaeftirlit verður eflt með samstarfi Vegagerðarinnar og Ríkislögreglustjóra. Embættin munu í sameiningu gera út fjóra nýja bíla fyrir eftirlit með umferð á þjóðvegum. Auglýstar verða þrjár nýjar stöður hjá umferðardeild Ríkislögreglustjóra, en 1 bifreið mun gerð út frá Akureyri með samkomulagi við lögreglustjórann þar. Bílarnir verða merktir Vegagerð og lögreglu og búnir forgangsljósum. Í bílunum verður einn lögreglumaður auk starfsmanns frá Vegagerðinni. Viðkomandi lögreglumaður getur tekið á hvers kyns lögbrotum svo sem hraðakstri, ölvunarakstri, akstri án bílbelta o.sfrv. Auk þess verður fylgst grannt með upplýsingum sem skráðar eru í ökurita um hvíldartíma atvinnubílstjóra o.fl. Hagræði felst í því að aðeins einn lögreglumann þarf í hverja bifreið þar sem starfsmenn vegagerðarinnar verða vitni í öllum lögregluaðgerðum. Með þessu fyrirkomulagi stóreflist löggæsla á þjóðvegunum og eftirlit með ástandi ökutækja verður einnig mun meira eftir þessar breytingar sem er auðvitað ákaflega mikilvægt.
.
Vegagerðin, umferðarráð, og lögreglan munu koma að átakinu með ákveðnum hætti, m.a. með nýjum merkingum á hættulegum stöðum á þjóðvegunum. Verður leitast við koma upplýsingum á framfæri með reglubundnum og markvissum hætti, bæði frá lögreglu, umferðarráði og vegagerð. Þar á meðal um hættur sem liggja í umferðinni og þróun umferðarmála. Það er brýnt að umræðunni sé sífellt haldið vakandi og að mörgu leyti hafa fjölmiðlar staðið sig vel í því að undanförnu. En þurfum stöðugt áreiti, stöðugar áminningar um að umferðin getur verið hættuspil.

Ég legg áherslu á það að á þessu átakstímabili sen stendur fram á haust verði komið á framfæri reglulegum upplýsingum, t.d. á 10 daga fresti, um fjölda umferðarlagabrota úr öllum umdæmum landsins, upplýsingum um hraðamælingar, breytingar þar á o.s.frv. Þannig viðhöldum við áhuga almennings á málinu. Síðan tel ég nauðsynlegt að leggja mat á árangurinn, hverju átakið hafi skilað og til hvað aðgerða sé rétt að grípa í framhaldinu.

Ýmislegt fleira er í farvatninu. Ég hyggst skipa starfshóp, sem stýrt verður af Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, alþingismanni og formanni alsherjarnefndar, sem fara mun yfir umferðarlöggjöfina, og gera tillögur að breytingum til þess að auka öryggi og bæta umferðina. Sú vinna fer strax af stað.

Starfshópurinn mun starfa náið með Umferðaröryggisnefnd sem vinnur fyrir hönd ráðuneytisins að áætlun um aðgerðir í þágu umferðaröryggis. Skýrsla nefndarinnar fyrir árið í ár hefur komið fullbúin út og er dreift til fundarmanna.

Þá er ljóst að kanna verður gaumgæfilega hvort gera verði róttækar breytingar, ekki síst í ljósi alvarlegra slysa að undanförnu. Má þar nefna hækkun ökuleyfisaldurs, endurskoðun sekta og fleira.

Þá verður vitaskuld haldið áfram að vinna að því að koma upp svokölluðu ökugerði þar sem ökunemar geta þjálfast við aðstæður sem þeir hafa að öðrum kosti ekki möguleika á að kynnast í náminu. Það er nokkuð viðamikið mál, t.d. hvað snertir það að finna heppileg svæði

Nýja umferðaröryggisáætlun þarf að semja fyrir næstu fjögur ár. Einnig þarf að gera áætlun til lengri tíma, til 12 ára í samræmi og með hliðsjón af vegaáætlun. Hún verður að fela í sér bæði markmiðssetningu og framkvæmdaáætlun. Verkefnum verður forgangsraðað á grundvelli mats á því hvernig fjármunir nýtist best til að sporna gegn umferðarslysum. Ég ætla að setja af stað vinnu við gerð þessara áætlana og miða við að þær komist til umræðu og afgreiðslu á Alþingi í upphafi nýs árs. Við verðum að byggja alla okkar vinnu á skýrri framtíðarsýn.

Rannsóknarnefnd umferðarslysa vinnur nú að fjölþjóðlegri samantekt um aðgerðir sem ýmis ríki hafa gripið til í þeim tilgangi að stemma stigu við slysum og umferðarbrotum ungra ökumanna. Miðað er við að sú skýrsla verði lögð fram í október. Slík vinna veitir mikilvæga hjálp við alla stefnumótun.

Hér frammi liggja ýmis gögn. Ég vil sérstaklega benda á tölur sem sýna tíðni banaslysa á síðustu árum og þegar alvarlegt líkamstjón hefur hlotist af. Þær eru til marks um hve alvarlegt vandamál er við að stríða og hve mikið starf er fyrir höndum.

Einnig má sjá tölur um sviptingu réttinda ungra ökumanna á grundvelli punktakerfisins. Þar birtist ljóst vandi yngstu árganganna í umferðinni, þeir lenda ekki aðeins oftast í slysum, heldur brjóta þeir umferðalögin manna oftast. En það verður auðvitað að hafa í huga að margt ungt fólk ekur ágætlega, og þá frekar, að því er virðist, stúlkur en drengir.

Vitaskuld verður að taka mið af því að fyrstu tvö árin þurfa ökumenn færri punkta til þess að vera sviptir ökuleyfi. Upplýsingarnar sem hér eru lagðar fram sýna í reynd að punktakerfið nær þeim tilætlaða árangri að veita ungum ökumönnum sem virða ekki reglurnar mikið aðhald.

Fulltrúar ýmissa aðila sem koma að átakinu eru hér staddir, og munu ásamt mér leitast við að svara öllum þeim spurningum sem kunna að hafa vaknað.

Góðir fundarmenn, ég vil að lokum segja þaðað ég hef þá trú að að færa megi stöðu umferðarmála í heillavænlegra horf. Til þess þurfum við efla eftirlit og löggæslu, breyta löggjöf og auka markvisst samvinnu allra þeirra sem að umferðarmálum koma. Mörg okkar hér inni eiga börn í umferðinni, mörg okkar eiga skyldmenni eða ástvini sem orðið hafa fyrir óhöppum, umferðin varðar okkur öll með beinum hætti. Við berum því öll sameigilega ábyrgð og ber því öllum að leggja eitthvað af mörkum. Samstillt átak allra landsmanna er það sem við þurfum í raun og þess vegna erum við samankomin hér.

Ég vil að lokum þakka ykkur öllum fyrir að sýna þessu mikilvæga málefni áhuga og treysti því að menn sjái sér fært að veita baráttunni liðstyrk.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum