Hoppa yfir valmynd
2. ágúst 2000 Matvælaráðuneytið

Byggðastyrkir á Íslandi

    Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið
    Nr. 16/2000



    Iðnaðarráðuneytið hefur í dag svarað bréfi Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) dags. 12. júlí sl. þar sem stofnunin kynnti íslenskum stjórnvöldum ákvörðun sína um að hefja rannsókn á byggðastyrkjum á Íslandi. Í tilefni af ákvörðun ESA hefur ráðuneytið gripið til eftirfarandi aðgerða:

    1. ESA hefur verið send tillaga að byggðakorti fyrir Ísland.

    2. ESA hefur verið send greinagerð þar sem gerð er ítarlega grein fyrir allri starfsemi Byggðastofnunar m.a lánastarfsemi stofnunarinnar og stuðningi við starfsemi atvinnuþróunarfélaga á landsbyggðinni.

    Í upphafi þessa árs lá fyrir að svokallað byggðakort fyrir Ísland hafði runnið úr gildi. Slíkt kort var í fyrsta sinn ákvarðað af ESA fyrir Ísland þann 28. ágúst 1996 eða tæpum þremur árum eftir að samningurinn um hið evrópska efnahagssvæði kom til framkvæmda. Kortið átti að gilda í 5 ár eða til ársins 2001. Á árinu 1998 ákvað ESA að innkalla byggðakortin fyrir Ísland og Noreg til að samræma gildistíma þeirra byggðakortum sem framkvæmdastjórn ESB gefur út fyrir ríki þess.

    Um síðustu áramót var ljóst að fjárhagsstaða Byggðastofnunar bauð ekki upp á að stofnunin veitti byggðastyrki að neinu marki. Ráðuneytið taldi því einsýnt að ekki skapaðist hætta á að einstakir styrkir gætu numið meira en sem nemur 7,5 millj. kr. en styrki undir þeim mörkum þarf ekki að tilkynna til Eftirlitsstofnunarinnar. Stofnunin hefur tekið ákvörðun um þrjá styrki á þessu ári til atvinnugreina sem falla undir samninginn. Samanlög fjárhæð styrkjanna er 3,5 milljónir kr. en hæsti styrkurinn að fjárhæð 2,5 millj. kr. kemur ekki til greiðslu fyrr en á árinu 2001. Þessir styrkir falla hins vegar allir undir hina svokölluðu minniháttarreglu og eru því ekki tilkynningaskyldir til ESA að mati ráðuneytisins. Þá hefur Byggðastofnun samþykkt 19 aðra styrki til verkefna sem ekki falla undir gildissvið samningins. Vegur þar þyngst styrkur til jarðhitaleitarátaks á köldum svæðum og til stofnunar Byggðarannsóknarstofnunar Íslands við Háskólann á Akureyri.



    Reykjavík, 2. ágúst 2000

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum