Hoppa yfir valmynd
4. september 2000 Dómsmálaráðuneytið

Námskeið um persónueftirlit á landamærum.

Í dag, 4. september 2000, hefst í Keflavík námskeið fyrir alla löggæslumenn í landinu sem sinna landamæraeftirliti. Í september og október verða, á vegum Lögregluskóla ríkisins, haldin fjögur námskeið af þessu tagi. Eru þetta sérhæfð tvískipt námskeið, verkleg og fræðileg, fyrir þá sem vinna við persónueftirlit á landamærum en fyrri hluti námskeiðahalds með almennri fræðslu um efnisatriði Schengen samninginn fór fram í vor. Á námskeiðunum í haust fá u.þ.b. 140 starfsmenn lögreglu, tollgæslu og Landhelgisgæslu Íslands sérstaka verklega þjálfun og fræðslu um persónueftirlit á landamærum.

Undirbúningur hefur nú staðið yfir um alllangt skeið enda er það kappsmál ríkisstjórnar Íslands, sem og annarra aðildarríkja að Schengen samkomulaginu, að búið sé svo um hnúta að hægt verði að uppfylla þær auknu kröfur um öryggi og skilvirkni sem samkomulagið byggir á.

Í ráðherratíð sinni hefur Sólveig Pétursdóttir lagt mikla áherslu á það að löggæsla verði efld eftir fremsta megni, þ.m.t. að menntun og þjálfun lögreglumanna verði bætt, og hefur hún af þeim sökum sýnt starfi Lögregluskóla ríkisins áhuga og stuðning. Með hliðsjón af þeim skyldum sem íslenska ríkið hefur tekist á herðar með aðild að Schengen samkomulaginu hefur ráðherra lagt á það áherslu að íslenskir lögreglumenn og aðrir þeir er koma að landamæravörslu og tengdum málaflokkum, fái þá tilsögn og þjálfun sem unnt er að veita. Hefur ráðherra beitt sér fyrir nánari samvinnu íslenskra og bandarískra lögregluyfirvalda og meðal þeirra verkefna sem Bandaríkjamenn hafa tekið að sér í kjölfarið er kennsla og verkleg þjálfun á fyrri hluta námskeiðsins sem hefst í dag, sem sinnt verður af fjórum sérfræðingum í landamæraeftirliti og fölsuðum skilríkjum frá Innflytjendastofnun Bandaríkjanna (Immigration and Naturalisation Service - INS). Sérfræðingarnir heita: John G. Hughes, immigration attaché, Bo Nimand Larsen investigator, Ann C. Hurst, vice immigration attaché, Timothy J. Goyer, supervisory immgrational officer. Hafi fjölmiðlar áhuga á að fá viðtöl við þessa sérfræðinga má hafa samband við ráðuneytið eða bandaríska sendiráðið á Íslandi.

Nauðsynlegt er að íslenskir landamæraverðir fái, til jafns við starfsbræður þeirra í nágrannalöndunum, markvissa þjálfun sem nýst getur þeim við persónueftirlit á landamærum. Markmiðið er m.ö.o að tryggja það að nauðsynleg þekking sé til staðar á landamærastöðvum á Íslandi svo unnt sé að annast persónueftirlit með þeim hætti sem skylt er samkvæmt Schengen samningnum.


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum