Hoppa yfir valmynd
11. september 2000 Innviðaráðuneytið

Ferð samgönguráðherra til Nýfundnalands og Nova Scotia

Sunnudagskvöldið 20. ágúst 2000 hófst heimsókn Sturlu Böðvarssonar, samgönguráðherra til Nýfundnalands í boði ferðamálaráðherra héraðsstjórnarinnar, Charles J. Furey. Meðfylgjandi er frásögn af ferðinni.


Skömmu eftir komuna var haldið til Port de Grave, sjávarþorps í u.þ.b. 150 km fjarlægð frá St. John}s. Þar var haldin móttaka til heiðurs áhöfninni á ÍSLENDINGI en skipið hafði komið til Port de Grave sama dag eftir mikla frægðarför um allt Nýfundnaland og var höfnin síðasti áfangastaðurinn. Eftir móttökuna var haldið niður á höfn en þar var mikið um dýrðir enda boðið upp á vandaða skemmtidagskrá með helstu listamönnum landsins og gestir margfalt fleiri en íbúafjöldi bæjarins.

Áhöfnin á ÍSLENDINGI var greinilega orðin hörkuvinsæl og litið á meðlimi hennar sem stórstjörnur. Var áhöfnin landi og þjóð til sóma hvar sem hún kom fram. Mæltist vel fyrir að karlmennirnir í áhöfninni klæddust íslenskum hátíðarbúningi og Ellen upphlut. Voru þau sífellt beðin um eiginhandaráritanir, ferðasögur eða að sitja fyrir á myndum. Öllu þessu tóku þau með stóískri ró og þægilegu viðmóti.

Daginn eftir var svo brottfararathöfn í Port de Grave þar sem Brian Tobin, forsætisráðherra Nýfundnalands, John Efford, sjávarútvegsráðherra, Charles J. Furey, ferðamálaráðherra og Sturla Böðvarsson héldu allir stutt ávörp. Hjá þeim öllum kom fram um hversu mikla viðurkenningu á siglingum víkinganna fyrir 1000 árum er hér að ræða. Einnig markar þessi viðburður algjör tímamót í samskiptum þjóðanna tveggja. Var gerður góður rómur að máli ráðherranna en kjördæmi John Efford er í Port de Grave og nágrenni. Allt ætlaði þó um koll að keyra er Gunnar skipstjóri steig í pontu og flutti snjalla og áhrifamikla þakkarræðu. Tuttugu þúsund manns reyndu að halda aftur af tárunum! Nokkrir slepptu sér þó alveg.

Voru síðan leystar landfestar og skipið lagði frá landi. Skipinu fylgdu síðan næstum því hundrað bátar og snekkjur í sól og blíðu. Ferðamálaráðherrar Íslands og Nýfundnalands sigldu í snekkju sjávarútvegsráðherrans á eftir skipinu nokkrar mílur.

Um kvöldið bauð Charles J. Furey til kvöldverðar í St. John}s og var skipst á ávörpum og gjöfum.

Þriðjudaginn 22. ágúst var haldið til L'anse aux Meadows. Ríkti mikil eftirvænting enda er staðurinn orðinn víðfrægur eftir þetta ár og stórmerkilegt að fá að líta hann augum. Fékk samönguráðherra góða leiðsögn um svæðið sem er frábærlega samsett af fræðslu og skemmtun; gestastofu, rústum og síðan tilgátuhúsum þar sem farið er frjálslega með söguna.

Í rústunum sem hafa verið byggðar upp eftir ströngustu kröfum fornleifafræði og sagnfræði voru leikarar sem allir hafa gengið í gegnum þjálfun hjá Parks Canada til að geta veitt nákvæmar upplýsingar um hvaðeina sem fyrir augu ber.

Í gestastofunni er hægt að sjá forngripi úr uppgreftri á staðnum auk korta, sagna af segulbandi o.fl. o.fl. Nutum við góðrar leiðsagnar Debbie Anderson, forstöðumanns.
Í tilgátuþorpinu – Norstead – voru danskir víkingar við leik og störf og lá mikið við þar sem verið var að undirbúa brúðkaup tveggja af leikurunum sem áður eru nefndir.

Það er ljóst að í L'anse auax Meadows hefur á 20 árum tekist að gera úr garði afar sérstakan ferðamannastað þar sem tekst að koma fornri sögu á framfæri á lifandi, nútímalegan og skemmtilegan hátt. Ekki er spurning að þarna hefur orðið til þekking sem við Íslendingar þurfum að notfæra okkur t.d. hvað varðar uppbygginguna á Eiríksstöðum í Haukadal.

Walter Noel, utanríkisráherra Nýfundnalands bauð samgönguráðherra síðan til kvöldverðar í gömlu og fallegu húsi í St. John}s sem nýlega hefur verið breytt í gistihús. Var þar skipst á tónlistargjöfum en Nýfundlendingar eru miklir söngmenn – ekki síður en við Íslendingar.

Miðvikudagurinn 23. ágúst hófst á móttöku á skrifstofu EIMSKIPS í St. John}s. Gestgjafar voru Erlendur Hjaltason, framkvæmdastjóri utanlandssviðs EIMSKIPS og Ólafur Ólafsson, framkvæmdastjóri skrifstofunnar í St. John}s. Einnig var boði fulltrúum frá m.a. Útflutningsráði, Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, NASCO og öðrum viðskiptavinum EIMSKIPS í Nýfundnalandi. Á skrifstofunni starfa 10 manns og fékk samgönguráðherra góða innsýn í þau umsvif sem þarna eru. EIMSKIP er einn af kostunaraðilum víkingahátíðahaldanna í Nýfundnalandi en félagið hefur staðið straum af flutningi fjölda minni víkingaskipa sem voru ÍSLENDINGI til fulltingis við hátíðahöldin í L'anse aux Meadows 28. júlí.

Eftir móttökuna var síðan ekið til Harbour Grace en þar er helsta höfn EIMSKIPS í Nýfundnalandi. Þar fór fram ítarleg kynning á starfsemi EIMSKIPS auk þess sem athafnasvæðið var skoðað. Í Harbour Grace starfa allt að 80 manns og er Pétur Már Helgason framkvæmdastjóri félagsins þar. Það var frá Harbour Grace sem Amelia Earhart lagði upp í flug yfir Atlantshafið snemma á fjórða áratugnum en hún var fyrst kvenna til að fljúga þessa leið. Til Ameliu hefur ekkert spurst síðan árið 1937 en flugvél hennar er talin hafa hrapað í Kyrrahafið rétt sunnan við Hawai.

Þetta var útúrdúr.

Skömmu eftir komuna til St. John}s þennan miðvikudag lauk heimsókn samgönguráðherra Íslands til Nýfundnalands. Kvöddust ráðherrarnir með þeim orðum að nauðsynlegt væri að halda áfram því mikla samstarfi sem sigling ÍSLENDINGS hefur lagt hornsteininn að.

Um kvöldið var flogið til Halifax. Tekið var á móti ráðherra og fylgdarliði á flugvellinum af frú Eleanor Belmore, glæsilegum 84 ára gömlum formanni Icelandic Memorial Society, Marshall Burgess, ritara félagsins og Hans Indriðasyni, sölustjóra Flugleiða í Halifax. Af flugvellinum var haldið á heimili hópsins til næstu nátta, Hótel Delta Halifax. Þar tók á móti ráðherra og fylgdarliði herra Svavar Gestsson, sendiherra í Kanada og kona hans, Guðrún Ágústsdóttir. Stuttlega var farið yfir dagskrá næstu daga þá um kvöldið.

Fimmtudagurinn, 24. ágúst, rann upp bjartur og fagur. Dagskráin hófst með heimsókn til hafnarstjórnarinnar í Halifax. Farið var yfir helstu staðreyndir um höfnina, sem er sú þriðja stærsta í Kanada ef miðað er við fjölda gámaeininga sem um hana fara. Höfnin er alfarið rekin á viðskiptalegum forsendum, og var athyglisvert að fá innsýn í þann umfangsmikla rekstur sem þar fer fram. Þá var að endingu farið í siglingu um höfnina í boði hafnarstjórans.

Hádegisverður var snæddur í boði ferða- og menningarmálaráðherra Nova Scotia, Rodneys MacDonalds, en jafnframt sat samgönguráðherra þeirra, Ron Russell, hádegisverðinn ásamt embættismönnum. Að málsverði loknum funduðu ráðherrarnir um frekari möguleika á samvinnu á sviði ferðamála, og ræddu jafnframt nokkuð um möguleika á frekara flugi á milli landanna og nauðsyn þess að löndin gerðu loftferðasamning sín á milli. Samhliða þessum fundi ræddu embættismennirnir og forsvarsmenn ferðaþjónustunnar um aukið samstarf. Þá um kvöldið var snæddur kvöldverður í boði ferðamálaráðs Nova Scotia.

Nokkur röskun varð á dagskrá föstudagsins, en gert hafði verið ráð fyrir komu ÍSLENDINGS til Halifax þá um morguninn. Sökum veðurs varð sólarhrings seinkun á komu skipsins. Það raskaði þó í engu mikilli fjölmiðlaumfjöllun sem skipulögð hafði verið vegna þessa. T.a.m. var morgunsjónvarpið undirlagt þennan morgun, og hafði reyndar verið með mikla umfjöllun alla vikuna. Mikill áhugi var greinilega fyrir komu skipsins og var mjög góð þátttaka í getraun sem haldin var í sjónvarpinu vegna þessa. Til gamans má geta þess að vinningshafinn í getrauninni heitir Ingibjörg að fornafni, eldri kona utan af landi sem aldrei hefur komið til Íslands. Hún vann ferð með Flugleiðum heim til Íslands. Ætla Flugleiðir að hafa uppá ættingjum hennar og mun kanadíska morgunsjónvarpsfólkið verða með í för og fylgja málinu þannig eftir.

Dagskrá laugardagsins, 25. ágúst, hófst stundvíslega klukkan níu, en þá lagði ÍSLENDINGUR að bryggju í Halifax. Sökum þessarar sólarhrings frestunar á komu skipsins, var ekki formleg móttökuathöfn, en auk ráðherra og fleirri góðra gesta tóku á móti skipinu áhöfn Flugleiðaþotunnar Leifs Eiríkssonar, en Halifax er fyrsti áfangastaður Flugleiða sem ÍSLENDINGUR kemur til. Eftir stutta móttökustund á hafnarbakkanum var haldið af stað til Musquodoboit Valley, á Íslendingaslóðir.

Fyrir 125 árum komu nokkrar íslenskar fjölskyldur til Nova Scotia, og settust þær að, með aðstoð stjórnvalda, í Musquodoboit Valley og í Lockeport. Til minningar um þessa Íslendinga hafði the Icelandic Memorial Society hlutast til um að reisa minnisvarða á báðum þessum stöðum. Á laugardeginum var minnisvarðinn í Musquodoboit Valley afhjúpaður með viðhöfn af samgönguráðherra, Sturlu Böðvarssyni, og ferðamálaráðherra Nova Scotia, Rodney MacDonald. Viðamikil dagskrá var í tengslum við afhjúpunina, þjóðsöngvar beggja landa voru sungnir og ráðherrar, þingmenn og framámenn í sveitinni héldu ræður. Og við þetta tækifæri heiðraði ferðamálaráðherra, Rodney MacDonald, minningu Íslendinganna enn frekar með því að gefa svæði við minnisvarðann nýtt opinbert nafn, Markland, sem mun prýða landakort af svæðinu frá þessum degi. Um kvöldið var hátíð í félagsheimilinu á staðnum er lauk með sýningu á verki Brynju Benediktsdóttur um ferðir Guðríðar.

Sunnudagurinn, 26. ágúst, var að mörgu leyti keimlíkur laugardeginum. Snemma morguns var lagt af stað akandi vestur eftir strönd Nova Scotia í Lockeport, lítið útgerðarþorp með um 1.500 íbúa. ÍSLENDINGUR var væntanlegur þangað um 11.00, og greinilegt að mikil hátíð var í vændum í þessum litla og vinalega bæ. Er skipið lagðist að bryggju, við undirleik lúðrasveitar og móttökunefnd er skartaði helstu fegurðardrottningum svæðisins í fararbroddi, var hið fegursta veður og mikill fjöldi saman kominn á hafnarsvæðinu. Áhöfn ÍSLENDINGS var fagnað vel og innilega, og eftir stutta athöfn var haldið í félagsheimilið á staðnum þar sem snæddur var hádegisverður í boði Íslendingafélagsins. Við það tækifæri færði bæjarstjórinn í Lockeport gestum sínum litlar gjafir til minningar um daginn, en endaði svo með því að koma öllum viðstöddum skemmtilega á óvart með því að sæma samgönguráðherra heiðursborgaranafnbót í Lockeport!

Klukkan 14.00 hófst athöfn við minnisvarða um búsetu Íslendinga á staðnum. Athöfnin var að mörgu leyti sú hin sama og í Musquodoboit Valley daginn áður. Þjóðsöngvar beggja landa voru fluttir, svo og fjöldi ávarpa. Eftir að samgönguráðherra, Sturla Böðvarsson, og ferðamálaráðherra Nova Scotia, Rodney MacDonald, höfðu afhjúpað minnisvarðann, var móttaka undir berum himni fyrir bæjarbúa í boði ferðamálaráðherrans.

Um kvöldið var hátíðarkvöldverður í íþróttahúsinu á staðnum og loks sýning á leikritinu Ferðum Guðríðar.

Þar með var formlegri dagskrá í annasamri og skemmtilegri ferð til Vesturheims lokið. Það var ánægður hópur sem ók til Halifax seint um kvöld, og ekki laust við að farið væri að gæta tilhlökkunar að halda heim á leið daginn eftir.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum