Hoppa yfir valmynd
26. september 2000 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Fyrirkomulag samræmdra prófa í 10. bekk

Til grunnskóla, sveitarstjórna,
skólanefnda og annara hagsmunaaðila



Reglugerð um fyrirkomulag og framkvæmd samræmdra prófa

Meðfylgjandi er reglugerð nr. 414/2000 um fyrirkomulag og framkvæmd samræmdra prófa í 10. bekk í grunnskólum og reglugerð nr. 415/2000 um fyrirkomulag og framkvæmd samræmdra prófa í 4. og 7. bekk. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 516/1996 um fyrirkomulag og framkvæmd samræmdra prófa í grunnskólum.

Í reglugerð nr. 414/2000 um fyrirkomulag og framkvæmd samræmdra prófa í 10. bekk í grunnskólum er sérstaklega vakin athygli á eftirfarandi atriðum:
a) Skv. 2. gr. reglugerðarinnar verða samræmd próf í 10. bekk valfrjáls fyrir nemendur frá og með vori 2001. Nemendur í 9. bekk grunnskóla geta valið að þreyta samræmd lokapróf í einstökum námsgreinum með 10. bekk að uppfylltum ákveðnum skilyrðum sbr. 2. gr. Athygli er vakin á því að ekki er heimilt að þreyta lokapróf tvisvar í sömu námsgrein.
b) Skv. 3. gr. fer skráning nemenda í samræmd lokapróf fram á tímabilinu 1. september til 15. janúar ár hvert. Framkvæmdaaðili prófanna, Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála, mun senda skólum nákvæm fyrirmæli um hvernig að því skuli staðið af hálfu skólanna. Jafnframt skulu skólastjórar sjá til þess að nemendalistar með nöfnum og kennitölum allra nemenda í 10. bekk ásamt bekkjarheiti berist framkvæmdaaðila prófanna eigi síðar en 1. október.
c) Þrátt fyrir ákvæði 2. og 6. gr. verða samræmd lokapróf fjögur í stað sex vorið 2001. Ákvæði um sex samræmd lokapróf kemur til framkvæmda vorið 2002.
d) Samræmd sjúkrapróf munu standa þeim nemendum til boða sem sannanlega eru veikir á prófdegi.

Jafnframt vill menntamálaráðuneytið benda á reglugerð nr. 98/2000 um innritun nemenda í framhaldsskóla þar sem kveðið er á um inntökuskilyrði á hinar ýmsu brautir framhaldsskóla og önnur atriði sem skipta máli við val á námi í framhaldsskóla.

Þá er minnt á að samræmd próf í íslensku og stærðfræði í 4. og 7. bekk verða haldin dagana 19. og 20. október nk. og hefjast prófin kl. 9:30. Að öðru leyti vísast til framkvæmdaheftis um prófin sem Rannsóknarstofnun uppeldis- og menntamála sendir til allra grunnskóla.

Reglugerðirnar má prenta af heimasíðu menntamálaráðuneytisins: www.mrn.stjr.is
(Ágúst 2000)

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum