Hoppa yfir valmynd
26. september 2000 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Lesskimunarpróf í 1. og 2. bekk grunnskóla

Til grunnskóla og ýmissa stofnana og samtaka


Lesskimunarpróf í 1. og 2. bekk grunnskóla

Í skólastefnu menntamálaráðherra sem lögð var til grundvallar við gerð nýrra aðalnámskráa, sem gefnar voru út 1999 var áhersla lögð á að staða nemenda skyldi greind frá upphafi grunnskóla til að unnt væri að koma betur til móts við þarfir hvers og eins. Var þá sett fram það markmið að foreldrum allra sex ára barna yrði boðið að láta þau taka lesskimunarpróf. Með því skyldu hugsanlegir námsörðugleikar nemenda metnir þegar við upphaf skólagöngu og brugðist við, áður en í óefni væri komið.

Í júní sl. var haldið fjölsótt og vel heppnað málþing um lesskimun og lestrarörðugleika á vegum menntamálaráðuneytisins. Hægt er að nálgast ýmis gögn frá málþinginu á heimasíðu ráðuneytisins, www.mrn.stjr.is

Í kjölfar málþingsins ákvað menntamálaráðherra að ganga til samninga við Guðmund B. Kristmundsson og Þóru Kristinsdóttur um að styrkja útgáfu á lesskimunarprófum fyrir 1. og 2. bekk grunnskóla sem þau hafa þýtt og staðfært að norskri fyrirmynd. Námsgagnastofnun var falið að sjá um prentun og útgáfu prófanna og verða þau tilbúin til notkunar í grunnskólum um miðjan október. Um er að ræða þrjú lesskimunarpróf fyrir 1. bekk og tvö fyrir 2. bekk sem hægt er að nota til að meta stöðu nemenda og í kjölfarið laga kennslu að þörfum þeirra eða vísa þeim til frekari greiningar ef þurfa þykir. Einnig fylgja leiðbeiningar um fyrirlögn, eyðublöð til að skrá niðurstöður og ítarlegt hugmyndahefti fyrir kennara sem þeir geta stuðst við þegar niðurstöður prófanna liggja fyrir. Þess er vænst að prófin geti nýst skólum við að skipuleggja markvissa lestrarkennslu og viðeigandi stuðning við þá nemendur sem eiga í erfiðleikum með lestur.

Menntamálaráðherra hefur ákveðið að framangreind lesskimunarpróf standi skólum til boða án sérstaks endurgjalds á þessu skólaári og því næsta til þess að auðvelda skólum aðgang að prófunum. Einnig verður efnt til fræðslufunda fyrir kennara um notkun prófanna í samvinnu við skólaskrifstofur. Grunnskólar eru eindregið hvattir til þess að snúa sér beint til Námsgagnastofnunar og panta viðeigandi fjölda af prófgögnum fyrir 1. og 2. bekk ásamt leiðbeininga- og hugmyndaefni.
(September 2000)

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum