Hoppa yfir valmynd
6. október 2000 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Fréttabréf fyrir stjórnendur ríkisstofnana, 3. október 2000. 3. tbl. 2. árg.

3. tölublað 2. árg. 3. október 2000.


Fréttabréfið á rafrænu formi

Í kjölfar útkomu síðasta tölublaðs fréttabréfsins var 252 forstöðumönnum sendur tölvupóstur þar sem óskað var eftir áliti þeirra á þeim áformum ráðuneytisins að útgáfa blaðsins yrði framvegis aðeins á rafrænu formi. Svör bárust frá 37 forstöðumönnum og voru flestir þeirra fylgjandi rafrænni útgáfu.

Vegna þessara dræmu viðbragða var ákvörðunartöku frestað en sú hugmynd samt sett fram að næsta tölublað komi aðeins út í rafrænu formi til reynslu. Óskað er eftir áliti ykkar á þessu. Vinsamlegast sendið svarið í tölvupósti til: [email protected]

Framkvæmd fjárlaga ársins 2000

Eftir afgreiðslu fjárlaga ársins 2000 ákvað ríkisstjórnin, að tillögu fjármálaráðherra, að leita leiða til að styrkja framkvæmd fjárlaga og festa í sessi viðbrögð við umframgjöldum.

Í því skyni gaf fjármálaráðuneytið, í janúarmánuði, út verklagsreglur um framkvæmd fjárlaga. Reglunum er ætlað að skýra og skerpa á ábyrgð og verkaskiptingu milli ráðuneyta og forstöðumanna. Þá gefa reglurnar forskrift að eftirfylgni ráðuneyta og skilgreina ákveðið aðgerðastig ef umframútgjöld fara yfir 4% af fjárveitingu.

Verklagsreglurnar voru sendar til allra ráðuneyta og forstöðumanna, auk þess sem haldnir voru fundir með forstöðumönnum einstakra ráðuneyta. Þá hefur verið unnið að breytingum á flæði bókhaldsupplýsinga frá stofnunum til Ríkisbókhalds í því skyni að auðvelda ráðuneytum samanburð á útgjöldum og heimildum á rekstrargrunni.

Verkefni fjármálaráðuneytisins

Í verklagsreglunum er boðað að fjármálaráðuneytið taki ársþriðjungslega saman yfirlit um framkvæmd fjárlaga. Ráðuneytið hefur nú þegar gert grein fyrir útgjöldum bæði miðað við lok apríl og eftir fyrri árshelming.

Fjármálaráðuneytinu er einnig ætlað að leggja mat á ófyrirséð útgjöld sem og að uppfæra greiðsluáætlun fjárlaga í samræmi við mat á kjarasamningum og launaúrskurðum. Þá taka fjárheimildir stofnana öðrum breytingum, m.a. vegna millifærslna af safnliðum auk inneignar eða skuldar frá fyrra ári. Af ýmsum ástæðum hefur ekki tekist sem skyldi að koma þessum breytingum að tímanlega og stefnir ráðuneytið að úrbótum í þeim efnum.

Aðgerðir innan ársins

Eins og undanfarin ár hefur fjármálaráðuneytið í upphafi árs greint veikleika í rekstri stofnana í samráði við fjármálastjóra ráðuneyta. Áhersla er lögð á tímanleg viðbrögð í þeim tilfellum þar sem aðgerða er þörf til að bæta rekstrargrundvöll stofnana. Haldnir hafa verið formlegir fundir með ráðuneytum þrisvar á árinu. Þar er farið yfir fjármál viðkomandi ráðuneytis og sérstaklega þeirra stofnana þar sem umframgjöldin eru hærri en viðmiðunarmörk í verklagsreglum.

Þá hefur fjármálaráðuneytið gert ríkisstjórn og fjárlaganefnd Alþingis grein fyrir framvindu ríkisútgjalda innan ársins.

Árangur af starfi ráðuneyta og stofnana

 • Eftirfylgni ráðuneyta byggir á því að í þeim tilfellum þar sem umframgjöld eru veruleg, hafa þau sent stofnunum bréf og óskað skýringa og aðgerða.
 • Algengasta skýring forstöðumanna á umframgjöldum er sú að eingöngu sé um tilfærslu milli mánaða að ræða, þ.e. greiðsludreifing fjárlaga innan ársins sé ekki í samræmi við útgjöldin. Þegar þetta er skrifað hafa þó aðeins um 25 stofnanir óskað eftir endurskoðun á mánaðardreifingu áætlunar.
 • Þá eru dæmi um að samkomulag sé gert milli ráðuneyta og forstöðumanna þess efnis að útgjöld séu færð að heimildum og uppsöfnuðum rekstrarhalla sé náð niður á 2 til 3 árum.
 • Í nokkrum tilfellum hefur rekstrarvandi leitt til breytinga á yfirstjórn stofnana og endurskipulagningar á starfsemi.
 • Loks eru dæmi um stofnanir þar sem tekist hefur að bæta fjárhagsafkomuna án þess að ráðuneyti komi að málum.

Hvað má betur fara

Fjármálaráðuneytið telur að ráðuneytunum beri almennt að nýta sér verklagsreglurnar betur en gert hefur verið hingað til. Nauðsynlegt er að ráðuneytin formfesti betur, t.d. bréflega, hvernig þau kalla eftir aðgerðum til að færa umfang rekstrar að heimildum í stað þess að beita eingöngu óformlegum fundum. Þá virðist misbrestur á því að ráðuneytin taki tímanlega afstöðu til tillagna forstöðumanna um aðgerðir.

Bætt áætlanagerð er lykill að betri fjárhagsafkomu ríkisstofnana og víða eru óleyst verkefni á því sviði. Fjármálaráðuneytið hefur á undanförunum árum aðstoðað ráðuneyti og stofnanir við verkefni um árangursstjórnun en í því felst m.a. að efla langtímaáætlanagerð og tengja betur saman fjárhagsramma og markmið í faglegu starfi stofnana. Í verklagsreglum um framkvæmd fjárlaga voru þessi áform ítrekuð og formfest betur en áður var. Reynslan, það sem af er árinu, sýnir að almennt ber forstöðumönnum að endurbæta áætlanagerð á eftirfarandi sviðum:

 • Færa greiðsludreifingu fjárheimilda innan ársins að rekstraráætlun ársins.
 • Gera ráðuneytum grein fyrir fjárhagsvanda strax í upphafi árs í tengslum við ársáætlun stofnunar.
 • Skýra forgangsröðun verkefna. Ráðuneyti eru oft á tíðum ekki nægjanlega upplýst um hver raunveruleg forgangsröðun verkefna innan stofnana er.

Framvinda ríkisútgjalda á árinu

Eftir fyrstu fjóra mánuði ársins námu rekstrargjöldin 59,3 milljörðum króna og voru 0,7 milljörðum umfram áætlun fjárlaga eða 1,2%. Þar munar mestu umframgjöld vaxtagjalda ríkissjóðs sem námu 1,8 milljörðum króna. Að þeim frátöldum voru gjöldin 1,1 milljarði króna innan heimilda eða 2%. Veruleg umframgjöld voru þó hjá einstaka stofnunum hjá öðrum ráðuneytum.

Eftir hálft árið námu rekstrargjöldin 89,2 milljörðum króna og að frátöldum vaxtagjöldum voru þau 1,1 milljarði innan ramma fjárlaga, heildarfrávikið er innan við 4%. Eins og áður eru þó stærri frávik hjá einstaka stofnunum. Hagræn skipting ríkisútgjaldanna leiðir í ljós að almenn rekstrargjöld stofnana eru 340 m.kr. um fram heimild eða 0,9%. Rekstrartilfærslur, þ.e. framlög almannatrygginga, styrkveitingar o.fl., reyndust 550 m.kr. innan áætlunar eða 1,5%. Loks voru viðhald og stofnkostnaður rúmlega 900 m.kr. innan ramma áætlunar eða sem nemur 11%.

Framvindan, það sem af er árinu, bendir til þess að umframgjöld séu lægri en á sama tíma í fyrra. Engu að síður má lítið út af bera til þess að rekstur stofnana haldist í jafnvægi á síðari hluta ársins.

Það virðist almennt mat fjármálastjóra í ráðuneytunum að setning verklagsreglnanna hafi gefið þeim tæki til þess að styrkja framkvæmd fjárlaga og viðbrögð stofnana benda til þess sama. Í lok ársins er ætlunin að endurskoða reglurnar í ljósi reynslunnar og í tengslum við það verður óskað eftir athugasemdum og hugmyndum fjármáladeilda einstakra ráðuneyta.

Kjarasamningar

Skipan samninganefndar ríkisins, staða samningamála

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum hefur fjármálaráðherra gert nokkrar breytingar á samninganefnd ríkisins. Frá 15. september skipa eftirtaldir nefndina:

Gunnar Björnsson, skrifstofustjóri í fjármálaráðuneytinu, formaður,
Guðmundur H. Guðmundsson, sérfræðingur í fjármálaráðuneytinu, varaformaður,
Arngrímur V. Angantýsson, sérfræðingur hjá Ríkisbókhaldi,
Ásdís Sigurjónsdóttir, fjármálastjóri í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu,
Ásgeir M. Kristinsson, deildarstjóri, Vegagerðinni,
Ásta Lára Leósdóttir, sérfræðingur í fjármálaráðuneytinu,
Gísli Þór Magnússon, deildarstjóri í menntamálaráðuneytinu,
Grétar Guðmundsson, frkv.stj. starfsmannasviðs Heilsugæslunnar í Reykjavík,
Haraldur Sverrisson, rekstrarstjóri í fjármálaráðuneytinu,
Lára G. Hansdóttir, deildarstjóri hjá Ríkisbókhaldi,
Oddur Gunnarsson, lögfræðingur hjá Landspítala - háskólasjúkrahúsi,
Ragnheiður E. Árnadóttir, aðstoðarmaður fjármálaráðherra,
Ragnhildur Arnljótsdóttir, skrifstofustjóri í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu,
Sigurður Gils Björgvinsson, deildarstjóri í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu,
Sturlaugur Tómasson, deildarstjóri í félagsmálaráðuneytinu.

Þar að auki hefur fjármálaráðherra ákveðið að settir verði upp formlegir samráðshópar forstöðumanna tiltekinna rekstrareininga sem hér segir:

Hópur 1 Fræðslumál, framhaldsskólar, sérskólar og háskólar (5 fulltrúar)
Hópur 2 Löggæsla, tollgæsla og fangavarsla (3 fulltrúar)
Hópur 3 Velferðarmál, barna- og unglingaheimili, málefni fatlaðra (3 fulltrúar)
Hópur 4 Menningarmál, söfn og listir (3 fulltrúar)
Hópur 5 Heilbrigðismál, sjúkrahús, heilsugæsla og önnur heilbrigðisstarfsemi (5 fulltrúar)
Hópur 6 Rannsóknastofnanir (3 fulltrúar)
Hópur 7 Almenn stjórnsýsla (5 fulltrúar)

Hlutverk þessara fulltrúa er að vera samninganefnd ríkisins til stuðnings og ráðgjafar þegar eftir því er leitað og miðla upplýsingum til annarra innan viðkomandi sviðs. Þegar þetta er skrifað hefur ekki verið tekin ákvörðun um hverjir verði tilnefndir og þá hvaða hátt ætti að hafa á því.

Um stöðu samningamála er það að segja að nú standa yfir viðræður um svokölluð réttindamál við heildarsamtök opinberra starfsmanna. Af hálfu samninganefndar ríkisins hafa verið lagðar fram tillögur um eftirfarandi atriði:

 1. Að umbreyta núverandi barnsburðarleyfisreglugerð í ákvæði kjarasamnings í ljósi breyttra laga um fæðingarorlof. Þar hefur einkum verið tekist á um hvort ríkið eigi að taka að sér greiðslur til starfsmanns í stað hins nýja fæðingarorlofssjóðs. Eins hefur verið rætt hvort og þá með hvaða hætti bæta eigi þeim konum það sérstaklega sem fá lægri greiðslur en ef reglugerðin héldi gildi sínu.
 2. Að umbreyta núverandi reglugerð um veikindaforföll og samkomulagi um réttindi lausráðinna í ákvæði kjarasamnings. Þar er lagt til að rétturinn til hálfra launa verði lagður niður og í staðinn verði réttur til fullra launa lengdur. Eins verði störf frá öðrum launagreiðendum metin við mat á hversu mikinn rétt viðkomandi hefur áunnið sér. Af hálfu gagnaðilanna hafa verið settar fram kröfur um einhvers konar styrktarsjóð þessu til viðbótar.
 3. Að hækka verulega bætur vegna slysa í starfi en frá þeim dragist bætur sem greiðast úr ökutækjatryggingu þegar um umferðarslys er að ræða.

_______________

Launahugtök

Í ljósi mismunandi notkunar á algengum launahugtökum bæði í almennri umræðu og fyrir dómstólum þykir ástæða til að fjalla nokkuð um merkingu þeirra.

Dagvinnulaun

Dagvinnulaun eru þau laun sem kjarasamningar kveða á um að greiða skuli fyrir dagvinnu, sbr. skilgreiningu á henni í 2. gr. laga nr. 88/1971, um 40 stunda vinnuviku: "...Í hverri viku skulu ekki vera fleiri en 40 dagvinnutímar, sem vinna ber á því dagvinnutímabili á virkum dögum vikunnar, sem aðilar koma sér saman um...." Þá er ýmist um að ræða vikustundir eða 173,33 stundir á mánuði sem greiðast skv. töxtum fyrir tímakaup dagvinnu eða töxtum mánaðarlauna, sjá greinar 1.1.1 um mánaðarlaun og 1.4 um tímakaup í dagvinnu eða sambærilegar greinar í kjarasamningum.

Til dagvinnulauna teljast aftur á móti ekki greiðslur sem fylgt geta vinnuskilum dagvinnu svo sem vaktaálag, uppbætur og þóknanir hvers konar. Slíkar greiðslur nefnast einu nafni önnur laun.

Mánaðarlaun

Ákvæði kjarasamninga um mánaðarlaun, sbr. gr. 1.1.1 og sambærilegar greinar, gera ráð fyrir að full skil dagvinnu í einn mánuð launist með þeim mánaðarlaunum sem þar eru tiltekin, sbr. skilgreiningu dagvinnulauna.

Heildarlaun, full laun

Þegar lagðar eru saman allar greiðslur í mánuði hverjum, eru reiknuð heildarlaun þess mánaðar. Það sama á við um heildarlaun á ári. Stundum er talað um brúttólaun í sömu merkingu. Einnig kemur fyrir að rætt sé um mánaðarlaun í sömu merkingu og heildarlaun og er þá vísað til þeirra greiðslna sem ávallt eru inntar af hendi í mánuði hverjum. Þessu má alls ekki blanda saman við mánaðarlaun skv. skilningi kjarasamninganna.

Föst laun

Hugtakið föst laun er túlkað sem mánaðarlaun, sbr. skilgreiningu á þeim.

 • Biðlaun: Hæstiréttur hefur úrskurðað á grundvelli eldri laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 38/1954 að föst laun skv. 14. gr., sem fjallaði um biðlaun, merki mánaðarlaun auk þeirra föstu aukagreiðslna sem starfinu fylgdu í hverjum mánuði fyrir utan orlofsfé. Sá skilningur verður að teljast bindandi fyrir biðlaunagreiðslur skv. ákvæðum eldri laga, sbr. 5. mgr. bráðabirgðaákvæðis laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, til þeirra sem ráðnir voru fyrir gildistökudag nýju laganna, nr. 70/1996, 1. júlí 1996. Sú túlkun fer einnig saman við biðlaunaákvæði fyrir embættismenn í gildandi lögum.
 • Lausnarlaun: Sama gildir um lausnarlaun, skv. 3. ml. 2. mgr. ákvæðis til bráðabirgða í lögum nr. 70/1996 sbr. 21. gr. l. 38/1954 að því undanskildu að orlofsfé fylgir þeim launum.

Föst laun eru því laun skv. dagvinnutaxta, öðru nafni mánaðarlaun, nema þegar hugtakið er notað um biðlaun eða lausnarlaun. Í þeim tilvikum tekur hugtakið til þeirra föstu launa er starfinu fylgja sem merkir mánaðarlaun auk fastra aukagreiðslna án orlofs ef um biðlaun er að ræða en með orlofi ef um lausnarlaun er að ræða.

Ný kerfi á nýrri öld

Fjárhagskerfi ríkisins endurnýjuð

Launakerfi ríkisins og BÁR, bókhalds- og áætlunarkerfi ríkisins, eru orðin gömul kerfi. Launakerfið er að stofni til frá árinu 1976 en BÁR frá árinu 1986. Bæði kerfin hafa þótt traust og áreiðanleg kerfi en hafa ekki fylgt eftir örri tækniþróun síðustu ára. Jafnframt hefur sú breyting orðið á þessum tíma að komin eru stöðluð kerfi sem ráða við að leysa þarfir ríkisins og stofnana þess. Í núverandi kerfi vantar ýmsa kerfishluta. Mikil þörf er nú á starfsmannakerfi, verkbókhaldi, birgðakerfi, sölukerfi o.s.frv. Reynt hefur verið að tengja slík stöðluð kerfi við núverandi fjárhagskerfi ríkisins en það hefur reynst torsótt.

Því er nú hafinn undirbúningur að því að móta þær kröfur ríkisins og stofnana þess sem gerðar yrðu til nýrra fjárhagskerfa og ganga frá útboðsgögnum.

Þarfir sem liggja til grundvallar

Leysa þarf bæði þarfir einstakra stofnana og ríkisins í heild. Stofnanir þurfa á kerfi að halda sem er nægjanlega sveigjanlegt til að hægt sé að mæta síbreytilegum þörfum. Kerfið þarf að vera sett upp á þann hátt að það hindri ekki framþróun í stjórnskipulagi eða verklagi. Stofnanir hafa mismikla þörf fyrir hliðarkerfi sem taka þarf tillit til.

Ríkissjóður þarf á samstæðuupplýsingum að halda þannig að heildaryfirsýn fáist yfir ríkisreksturinn á hverjum tíma. Mikilvægt er að tryggja að upplýsingar liggi tímanlega fyrir þannig að hægt sé að greina hvert stefnir miðað við áætlanir.

Fjárheimildabókhald þarf að vera til staðar og halda þarf utan um greiðslustöðu stofnana við ríkissjóð sem og hver er staða þeirra miðað við rekstrarheimild.

Kröfur sem gerðar eru til kerfisins

Margvíslegar kröfur verða gerðar til þessa nýja kerfis, s.s.:

 • Skjámyndir og notendaviðmót verði á íslensku
 • Einfaldleiki í notkun, þrátt fyrir flókið kerfi
 • Góðir fyrirspurnarmöguleikar
 • Öflugt öryggiskerfi

Að auki verða væntanlega mótaðar kröfur um að kerfið bjóði upp á margvíslega tæknilega möguleika, s.s.:

 • Tengingu við tölvupóst
 • Rafrænar greiðslur
 • Internettengingu
 • Vöruhús gagna
 • Myndræna framsetningu
 • Skönnunarmöguleika

Framgangur

Frá því á vordögum hefur verið unnið að því að móta þær kröfur sem gerðar verða til nýs kerfis. Það verk hefur verið unnið í vinnuhópum sem skipaðir hafa verið starfsmönnum frá fjölmörgum stofnunum. Að auki hafa komið að verki ráðgjafar frá KPMG og PWC.

Stefnt er að því að bjóða verkið út nú í haust og gert ráð fyrir því að samningum við birgja verði lokið fyrir áramót. Að því loknu hefst vinna við nánari greiningu og gert er ráð fyrir að kerfið verði komið að fullu í notkun um áramót 2001/2002.

Ýmislegt fréttnæmt

Rafræn viðskipti ríkisstofnana og birgja

Stýrihópur um rafræn opinber innkaup, skipaður af fjármálaráðherra, hefur í u.þ.b. 9 mánuði unnið að mótun sameiginlegrar stefnu ríkis og atvinnulífs á sviði rafrænna opinberra innkaupa. Á vegum hópsins er nú verið að vinna að útboðslýsingu um hönnun og rekstur rafræns innkaupakerfis. Hugmyndir hópsins gera ráð fyrir að komið verði á fót markaðstorgi á vefnum þar sem opinberar stofnanir geti nálgast upplýsingar um rekstrarvörur í samræmi við rammasamningskerfi Ríkiskaupa, gert pantanir og gengið frá greiðslu. Á sama hátt geta birgjar komið vörum sínum og þjónustu á framfæri.

Tæknilegar útfærslur gera ráð fyrir að fyrirtæki og ríkisstofnanir geti valið milli þriggja samskiptalausna.

Í fyrsta lagi eiga viðskiptin að geta farið fram með hefðbundnum EDI-sendingum, þ.e. beint á milli viðskiptakerfa ríkisstofnana og birgja þannig að pöntun berist viðskiptakerfi birgja án þess að innsláttur þurfi að koma til þeirra megin. Reikningur yrði sendur ríkisstofnun á sama hátt og er hagræðið augljóst fyrir báða aðila. Margskráning gagna í upplýsingakerfi verður óþörf. Þannig á markaðstorgið að virka á svipaðan hátt og miðlægur netþjónustuaðili með X.400 pósthólf en báðir aðilar styddust þó við sama viðmót og aðrir á veftorginu.

Í öðru lagi getur annar aðilinn, t.d. ríkisstofnun, einungis þurft að hafa tengingu við netið og þannig gert pantanir á vefsvæði markaðstorgsins sem síðan er umbreytt í EDIFACT-pöntunarskeyti til fyrirtækis með EDI-samskiptabúnað.

Þriðji kosturinn er sá að viðskiptin eigi sér eingöngu stað á vefnum með samskiptalausn beggja megin. Með því móti er hagræði beggja aðila minna en kostur engu að síður að hægt er að miðla upplýsingum í báðar áttir.

Markmiðið með rafrænum innkaupum er að draga úr kostnaði við innkaup á vöru og þjónustu með einfaldari innkaupaferlum og minni umsýslu.

Stefnt er að því að rafrænt innkaupakerfi verði komið í notkun í apríl 2001.

_______________

AUGLÝSING

Norræn starfsmannaskipti

Norræna ráðherranefndin hefur frá árinu 1979 veitt styrki til að gera ríkisstarfsmönnum kleift að stunda tímabundið nám eða störf á starfsvettvangi sínum hjá ríkisstofnunum á hinum Norðurlöndunum. Styrkurinn er 7000 danskar krónur á mánuði. Ráðherranefndin greiðir einnig ferðakostnað til og frá dvalarstað samkvæmt sérstökum reglum.

Umsóknarfrestur vegna ársins 2001 er til 15. nóvember 2000.

Nánari upplýsingar er að finna á vefsíðu fjármálaráðuneytisins eða hjá [email protected].

_______________


Ráðstefnur og fundir

Til fjármálaráðuneytisins berast oft ýmsar tilkynningar um áhugaverðar ráðstefnur og fundi sem haldnir eru m.a. á vegum European Institute of Public Administration.

Upplýsingar um þessar ráðstefnur og fundi eru á vefsíðu fjármálaráðuneytisins.

Athyglisverðir dómar

Hér á eftir er sagt frá nýgengnum dómi Hæstaréttar.

Áminning samkvæmt 21. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins (stml.), er sérstök ákvörðun forstöðumanns sem beint er til starfsmanns, sem gerst hefur brotlegur við starfsskyldur sínar. Um starfsskyldur ríkisstarfsmanna eru almenn ákvæði í IV. kafla stml. Ennfremur má finna leiðbeiningar í almennum reglum starfsmannaréttarins og loks geta skipt máli þær skráðu og óskráðu reglur sem um starfið gilda.

Það er forstöðumaður sem metur hvort tilefni áminningar sé nægilegt. Mat hans verður að vera málefnalegt og við málsmeðferðina ber honum að gæta ákvæða stjórnsýslulaga, m.a um andmælarétt. Það skiptir máli að vandað sé til undirbúnings áminningar þar sem hún getur verið undanfari uppsagnar. Almennt er litið svo á að áminning sé veitt vegna minniháttar brota á starfsskyldum enda markmiðið að starfsmaður bæti ráð sitt. Í dómi Hæstaréttar 17. febrúar 2000, í máli nr. 369/1999, var fjallað um gildi áminningar sem kennara Ó var veitt fyrir að hafa tekið eintak af stærfræðiprófi úr framhaldsskóla F og afhent það kennara við sumarskólann S þar sem það var notað í þágu S. Með skriflegu fundarboði 27. ágúst 1998 var Ó boðaður á fund skólastjóra. Í fundarboði var ekki getið um efni fundarins. Ekki var rituð fundargerð. Ó viðurkenndi að hafa látið kennara við S hafa prófið. Ó mætti aftur á fund með skólameistara og aðstoðarskólameistara 31. ágúst 1998. Á fundi með stjórnendum skólans 7. september 1998 var Ó afhent áminningarbréf. Í bréfinu var vísað til þess að honum væri veitt áminning fyrir athafnir sem væru ósæmilegar starfi hans við skólann. Í bréfinu er síðan nánar lýst háttsemi Ó og vísað til 21. gr. starfsmannalaga.

Ó krafðist ógildingar áminningarinnar. Hann hefði ekki notið andmælaréttar, sbr. 13. og 14. gr. stjórnsýslulaga. Einnig að sá kennari S sem hann hefði sýnt prófið, hefði dreift því án samþykkis síns og að hver og einn hefði getað haft aðgang að því á grundvelli upplýsingalaga. Þá mótmælti Ó því að háttsemi hans gæti talist ósamrýmanleg starfi hans.

Í héraðsdómi var á því byggt að Ó hefði mátt vera það ljóst hvað stæði til á fundinum 27. ágúst. Ó hefði gefist tækifæri til þess að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Héraðsdómur féllst á að háttsemi Ó hefði verið ámælisverð en þegar litið væri til þess að ósannað væri að honum hefði verið kunnugt um þær reglur sem giltu um meðferð gamalla prófa í stærfræðideild skólans, réttlætti hún ekki að mati dómsins að heimilt hefði verið að veita Ó áminningu.

Hæstiréttur féllst einnig á það að Ó hefði fengið svigrúm til þess að kynna sér réttarstöðu sína og koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Hæstiréttur vísar til þess að Ó hafi verið veitt áminning fyrir háttsemi sem hafi verið ósamrýmanleg starfi hans við skólann. Er síðan rakinn framburður kennara um þær reglur sem gilt hafi um meðferð gamalla prófa og varðveislu þeirra. Taldi Hæstiréttur að nægilega hefði verið sýnt fram á að almennar reglur hefðu gilt um meðferð prófgagna í skólanum. Reglurnar hafi þó ekki verið skriflegar en að deildir skólans hefðu varðveitt gögnin með mismunandi hætti. Ó hefði fengið prófið hjá annarri deild skólans án þess að leita samþykkis hennar og síðan afhent það til notkunar í skóla sem hann rak sjálfur í samkeppni við F. Ekki var fallist á að tilvísun Ó til upplýsingalaga hefði þýðingu þar sem ekki var leitað eftir leyfi til hagnýtingar prófsins. Fallist var á það með Ó að áminningarbréf skólameistara hafi ekki stuðst við nægileg rök að því leyti að Ó hefði tekið prófið "í laumi". Síðan segir í dómi Hæstaréttar: "Á hinn bóginn verður að líta til þeirrar ábyrgðar og trúnaðarskyldna, sem á [Ó] hvíldu sem starfsmanni áfrýjanda sbr. IV. kafla laga nr. 70/1996. Verður heimildarlaus taka og hagnýting prófsins með ofangreindum hætti ekki talin samrýmast þessum skyldum. Samkvæmt því þykja ekki efni til að verða við kröfu hans um ógildingu áminningarinnar."

Ofangreindur dómur Hæstaréttar gefur leiðbeiningar um að gæta verði að andmælarétti starfsmanns áður en til áminningar kemur og að hann hafi haft tækifæri til þess að kynna sér grundvöll hennar. Sú ályktun verður ennfremur dregin að ekki sé ætíð nauðsynlegt að í boðunarbréfi sé hinni ámælisverðu háttsemi lýst rækilega. Ræðst slíkt af atvikum málsins.

Dómurinn er ennfremur athugunarverður um það mat hvenær háttsemi starfsmanns sé með þeim hætti að hún geti verið tilefni áminningar. Í því sambandi skiptir máli að þær reglur sem um starfið gilda, séu kunnar þeim sem hlut eiga að máli. Loks er dómurinn áhugaverður fyrir þær sakir að hann vísar til hinnar ólögfestu reglu um hollustu- og trúnaðarskyldu ríkisstarfsmanna en í því sambandi vísar dómurinn almennt til IV. kafla starfsmannalaga.

Frá Félagi forstöðumanna ríkisstofnana

Áfellisdómur

Eins og kunnugt er hefur á undanförnum árum gætt umtalsverðrar óánægju félagsmanna í FFR með störf og starfshætti kjaranefndar. Auk þess sem launalegar ákvarðanir nefndarinnar, bæði föst laun og yfirvinnueiningar, hafa þótt skornar við nögl, hafa ýmsir aðrir úrskurðir nefndarinnar, vinnureglur og starfshættir þótt ámælisverðir. Hefur stjórn FFR ítrekað mótmælt og gert athugasemdir við vinnubrögð kjaranefndar og félagsfundir hafa ályktað í sömu átt. Svo rammt hefur einnig kveðið að óánægju forstöðumanna og fleiri hópa sem undir nefndina heyra að í allmörgum tilvikum hefur kvörtunum verið beint til umboðsmanns Alþingis. Nokkur álit umboðsmanns hafa þegar komið fram og enn fleiri munu vera til meðferðar. Einna athyglisverðast er álit sem umboðsmaður gaf 31. maí sl. í máli þar sem forstöðumaður kvartaði yfir úrskurðum kjaranefndar. Laut kvörtunin að tveimur meginatriðum. Annars vegar var um að ræða úrskurð um launakjör forstöðumannsins og hins vegar niðurstöðu kjaranefndar þess efnis að ekki bæri að launa nefndarstarf sérstaklega.

Sá þáttur kvörtunarinnar er varðaði launaúrskurð nefndarinnar, laut aðallega að því að kjaranefnd hafi ekki sett sér skýrar reglur um ákvarðanir launakjara þannig að innbyrðis samræmis sé gætt hjá þeim sem hún fjallar um. Benti forstöðumaðurinn m.a. á nokkur dæmi um launaákvarðanir sem væru óskiljanlegar í ljósi samanburðar á rekstrarumfangi, starfsmannafjölda, fjölda undirstofnana og stjórnsýsluábyrgðar viðkomandi stofnana. Hafði hann óskað rökstuðnings kjaranefndar án þess að hafa fengið fullnægjandi svör að mati hans.

Um kvörtun forstöðumannsins er varðar ofangreint er niðurstaða umboðsmanns Alþingis afdráttarlaus. Í fyrsta lagi leggur hann áherslu á að kjaranefnd beri "við ákvarðanir um laun og önnur starfskjör skv. 10. og 11. gr. laga nr. 120/1992 að gæta jafnræðis og þess að hún styðjist við skýr og málefnaleg sjónarmið" (áherslur umboðsmanns). Í öðru lagi er niðurstaða umboðsmannsins að "rökstuðningur kjaranefndar fyrir ákvörðun í launaflokk hafi ekki verið í samræmi við ákvæði 22. gr. stjórnsýslulaga. Að auki gætti kjaranefnd þess ekki að veita leiðbeiningar um heimild aðila til fá ákvörðun rökstudda þá er hún tilkynnti ákvörðun sína. Loks bar nefndinni að afhenda tiltekin skjöl sem ákvörðun nefndarinnar studdist við, en beiðni þar um hafði verið sett fram með skýrum hætti í bréfi til nefndarinnar".

Varðandi nefndarstarfið sem forstöðumaðurinn taldi að bæri að launa sérstaklega en kjaranefnd hafði hafnað, kemst umboðsmaður að þeirri niðurstöðu að "lög standi ekki til þess, að starf sem forstöðumaðurinn hefur með höndum, tilheyri aðalstarfi hans. Er það með öðrum orðum álit mitt að starf þetta skuli launað sérstaklega". Með hliðsjón af því að umræddur forstöðumaður hafði gegnt nefndarstarfi þessu í nokkur ár og þegið laun fyrir þegar kjaranefnd tók þá ákvörðun sem kvartað var yfir, var það jafnframt álit umboðsmanns Alþingis að "undir þessum kringumstæðum bæri kjaranefnd að gera sérstaka grein fyrir efnislegum ástæðum þess að hún vék frá fyrri ákvörðun. Það hefur nefndin ekki gert". Forstöðumaðurinn hafði jafnframt bent á að annar aðili sem skipaður var með sama hætti og heyrði líka undir kjaranefnd, hafði notið launa vegna nefndarstarfsins og því væri um að ræða ólögmæta mismunun. Umboðsmaður Alþingis kemst að þeirri niðurstöðu, að ákvörðun kjaranefndar "standist ekki jafnræðisreglu stjórnsýslulaga".

Ofangreint álit umboðsmanns Alþingis hlýtur að teljast alvarlegur áfellisdómur yfir starfsháttum og úrskurðum kjaranefndar. Hefur stjórn FFR rætt hugsanleg viðbrögð félagsins enda þótt hafa beri í huga að félagið á enga formlega aðkomu að launamálum einstakra félagsmanna þess. Engu að síður hlýtur svona álit að hafa eftirmál bæði fyrir kjaranefnd og félagsmenn. Raunar má spyrja hvort þetta álit ásamt gerbreyttu umhverfi í ríkisrekstrinum og launamálum opinberra starfsmanna almennt síðan lögin um Kjaradóm og kjaranefnd voru sett 1992 gefi ekki tilefni til að taka hlutverk og jafnvel tilvist kjaranefndar til gagngerrar endurskoðunar.

Magnús Jónsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira