Hoppa yfir valmynd
9. október 2000 Matvælaráðuneytið

Breyting á lögum um stjórn fiskveiða og umgengni um nytjastofna sjávar. 09.10.00

Fréttatilkynning


Breyting á lögum um stjórn fiskveiða og umgengni um nytjastofna sjávar.

Frumvörp þessi miða að því að stuðla að því að síður sé veitt umfram leyfilegar aflaheimildir og styrkja jafnframt stöðu Fiskistofu til eftirlits með brottkasti.

Í frumvarpi til laga um breytingu á lögum um umgengni um nytjastofna felst, að Fiskistofu er heimilað í ákveðnum tilvikum að setja eftirlitsmenn um borð í veiðiskip á kostnað útgerðar. Er miðað við að afli tiltekins skips að einhverju leyti skeri sig úr afla annarra skipa er sambærilegar veiðar stunda og því ástæða er til að ætla að fiski hafi verið hent fyrir borð. Ástæða brottkast er sú að viðkomandi útgerð eða áhöfn telur sér ekki hagkvæmt að hirða fisk. Getur það stafað af því að fiskur er verðlítill t.d. smár eða lélegur að gæðum eða því að báturinn hefur ekki aflaheimild í tiltekinni tegund og telur óhagkvæmt að afla hennar eða nýta heimild laganna til færslu milli tegunda.

Samkvæmt gildandi lögum um veiðar í lögsögu Íslands er Fiskistofu heimilt að setja veiðieftirlitsmenn um borð í hvaða fiskiskip sem er. Hins vegar eru það aðeins útgerðir frystitogara sem greiða sérstaklega fyrir veru eftirlitsmanna um borð. Rík ástæða er til að efla verulega möguleika Fiskistofu til eftirlits með brottkasti og viðurlög með slíkum brotum en sönnunarbyrði í slíkum málum hafa reynst erfið. Verði frumvarpið að lögum yrði staða Fiskistofu til eftirlits miklu mun sterkari til að fylgjast nánar með veiðum tiltekinna skipa þætti ástæða til þess. Eftir sjö daga um borð í skipi ætti að jafnaði að liggja fyrir, hvort veiðar skipsins séu í samræmi við gildandi reglur, en telji Fisksitofa ástæðu til að kanna veiðar báts um lengri tíma þá yrði það gert á kostnað útgerðar hans. Ráðuneytið er þess fullvisst að slíkt fyrirkomulag gæti orðið til að efla mjög allt eftirlit Fiskistofu auk þess sem slík heimild hefði veruleg varnaðaráhrif.

Í frumvarpi til breytinga á lögum um stjórn fiskveiða er lagt til að ákvæði laganna um tegundatilfærslu verði þrengd. Tegundartilfærsla felst í því að heimilt er að veiða yfir aflamarki í tiltekinni tegund botnfisks enda skerðist aflamark í öðrum tegundum botnfisks hlutfallslega miðað við þorskígildisstuðla. Heimild þessi hefur verið óbreytt frá upphafi og miðast við 5% af heildarverðmæti botnfiskaflamarks. Tilgangurinn með þessu ákvæði var fyrst og fremst að skapa sveiganleika í kerfinu þannig að síður kæmi til brottkasts þegar fisktegund fengist sem viðkomandi bátur hefði ekki aflamark í. Niðurstaðan hefur hins vegar orðið sú, að þessi heimild hefur fyrst og fremst verið nýtt til þess að auka afla í eftirsóknaverðari tegundum á kostnað annarra. Hér er því lagt til að sú takmörkun verði sett á heimildina, að aldrei verði heimilt að breyta meira en sem nemur 2% af heildarbotnfiskkvótanun í hverja tegund. Með þessu móti væri komið í veg fyrir tegundabreytingar í þeim mæli sem verið hafa án þess að horfið væri frá upphaflegum tilgangi ákvæðisins.
Sjávarútvegsráðuneytið
9. október 2000



Frumvarp til laga
um breytingu á lögum nr. 57, 3. júní 1996,
um umgengni um nytjastofna sjávar, með síðari breytingum.



1. gr.
Eftir 1. mgr. 13. gr. kom ný málsgrein er orðist svo: Telji Fiskistofa, að afli tiltekins skips sé, varðandi stærðarsamsetningu, aflasamsetningu eða gæði, frábrugðinn afla annarra skipa, sem sambærilegar veiðar stunda, skal Fiskistofa setja veiðieftirlitsmann um borð í það skip til að fylgjast sérstaklega með veiðum þess. Þegar veiðieftirlitsmaður hefur verið um borð í skipi í sjö daga, skal Fiskistofa ákveða, hvort veiðieftirlitsmaður verði áfram um borð í skipinu. Skal útgerð skipsins tilkynnt ákvörðun Fiskistofu. Verði eftirlitsmaður áfram um borð í skipinu skal útgerð skipsins greiða allan kostnað þar með talinn launakostnað vegna veru hans um borð frá og með áttunda degi.


2. gr.
Lög þessi öðlist þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.
Með frumvarpi þessu er leitað nýrra leiða til að kanna brottkast á afla og jafnframt til að koma í veg fyrir það. Er þar lagt til að Fiskistofa nýti upplýsingar um landaðan afla til að beina eftirliti að ákveðnum fiskiskipum og jafnframt að útgerð skips standi straum af kostnaði við eftirlit í ákveðnum tilvikum. Í 1. mgr. 2. gr. laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, segir, að skylt sé að hirða og koma með allan afla að landi. Fiskistofa hefur eftirlit með því að þessu ákvæði sé fylgt og hefur í sinni þjónustu veiðieftirlitsmenn, sem m.a. fara í veiðiferðir með fiskiskipum. Slíku veiðieftirliti verður ekki við komið nema í litlum hluta fiskiskipaflotans hverju sinni. Það er nauðsynlegt að unnt sé að beina eftirlitinu þangað sem mest þörf er fyrir það hverju sinni. Ástæðan fyrir brottkasti er sú, að fyrirtæki eða áhöfn telja sér ekki fjárhagslega hagkvæmt að koma með tiltekinn afla að landi. Hér getur verið um að ræða verðlítinn fisk eða fisk sem hlutaðeigandi telur óhagkvæmt að hirða vegna aflaheimildastöðu viðkomandi skips. Samkvæmt gildandi reglum er allur afli sundurgreindur og veginn eftir tegundum við löndun. Í undirbúningi eru nú reglur sem eiga að tryggja að upplýsingar liggi fyrir um stærðardreifingu fisks við löndun. Liggi fyrir að afli skips sé frábrugðinn afla annarra skipa sem sambærilegar veiðar stunda, setur Fiskistofa eftirlitsmann um borð í það skip. Fyrstu sjö dagana er hann um borð í skipinu á kostnað Fiskistofu og að jafnaði ætti sá tími að duga til að fá skýringu á því, hvers vegna afli skipsins var frábrugðinn afla annarra skipa. Ef Fiskistofa telur hins vegar ástæðu til að fylgjast með veiðum báts lengur greiðir útgerð skipsins allan kostnað vegna veru eftirlitsmannsins um borð í skipinu eftir þann tíma.




Frumvarp til laga
um breytingu á lögum nr. 38, 15. maí 1990,
um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.



1. gr.
1. mgr. 10. gr. laganna orðist svo: Heimilt er að veiða umfram aflamark í einstökum botnfisktegundum, enda skerðist aflamark annarra botnfisktegunda hlutfallslega í samræmi við verðmætahlutföll einstakra tegunda samkvæmt lögum um veiðieftirlitsgjald. Heimild þessi takmarkast við 5% af heildarverðmæti botnfiskaflamarks en umframafli í hverri botnfisktegund má þó ekki vera meiri en sem nemur 2% af heildarverðmæti botnfiskaflamarks. Heimild þessarar málsgreinar nær þó ekki til veiða umfram aflamark í þorski.

2. gr.
Lög þessi öðlist þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.
Hér er lagt til að þrengd verði nokkuð heimild sú er nefnd hefur verið tegundartilfærsla. Tegundartilfærsla felst í því að heimilt er að veiða yfir aflamarki í tiltekinni tegund botnfisks enda skerðist aflamark í öðrum tegundum botnfisks hlutfallslega miðað við reiknað verðmæti tegundanna ( þorskígildisstuðla). Heimild þessi til tegundartilfærslu hefur verið óbreytt allt frá 1. janúar 1991 er lög nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða tóku gildi og miðast við 5% af heildarverðmæti botnfiskaflamarks. Tilgangurinn með þessu ákvæði var fyrst og fremst að skapa sveiganleika í kerfinu þannig að síður kæmi til brottkasts þegar fisktegund fengist sem viðkomandi bátur hefði ekki aflamark í. Niðurstaðan hefur hins vegar orðið sú, að þessi heimild hefur fyrst og fremst verið nýtt til þess að auka afla í eftirsóknaverðari tegundum og drega úr veiði á öðrum. Ef litið er til sex síðustu fiskveiðiára sést, að tegundartilfærsla hefur aukið karfaveiðina samtals um tæplega fimmtíu þúsund lestir. Til samanburðar skal nefnt að karfakvóti á yfirstandandi fiskveiðiári er 57 þús. lestir. Hér er því lagt til að sú takmörkun verði á sett á heimildina, að aldrei verði heimilt að breyta meira en sem nemur 2% af heildarbotnfiskkvótanun í hverja tegund. Með þessu móti væri komið í veg fyrir tegundabreytingar í þeim mæli sem verið hafa án þess að horfið væri frá upphaflegum tilgangi ákvæðisins.





Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum