Hoppa yfir valmynd
26. október 2000 Matvælaráðuneytið

Heimsókn Árna M. Mathiesen sjávarútvegsráðherra til Kína. 26.10.00

Fréttatilkynning


Árni M. Mathiesen heldur til Peking í Kína nú í lok mánaðarins þar sem hann verður einn þriggja aðal fyrirlesara á þriðju alheimsráðstefnu sjávarútvegsins. Í erindi sínu mun ráðherra fjalla um alþjóðlega stjórnun fiskveiða. Á ráðstefnunni verða yfir 6oo þáttakendur frá um 50 þjóðlöndum. Auk ráðherra mun Tumi Tómasson skólastjóri Sjávarútvegsskóla Sameinuðu þjóðanna flytja erindi þar sem hann kynnir námið við skólann og það umhverfi sem skólinn starfar í. Einnig mun Hjörleifur Einarsson forstjóri Rannsóknarstofnunar fiskiðnaðarins halda erindi um framtíðarþróun í fiskvinnslu.

Sjávarútvegsráðherra mun einnig flytja ávarp við opnun alþjóðlegrar sjávarútvegssýningar sem haldin er í Peking sömu daga og ráðstefnan stendur yfir. Útflutningsráð Íslands hefur undanfarin ár skipulagt þáttöku íslenskra fyrirtækja í sýningunni en hún er haldin í Peking á hverju ári. Sex íslensk fyrirtæki munu ásamt Útflutningsráði taka þátt í sýningunni en það eru Sæplast, Marel, SH, Íslenska útflutningsmiðstöðin, E- Ólafsson og Sameinaðir útflytjendur. Í kjölfarið mun sjávarútvegsráðherra svo þiggja opinbert heimboð kínverskra stjórnvalda.

Þessi heimsókn Árna M. Mathiesen er jafnframt fyrsta opinbera heimsókn íslensks sjávarútvegsráðherra til Kína. Talsvert langt er síðan að Kínverjar buðu sjávarútvegsráðherra Íslands í opinbera heimsókn og hafa stjórnvöld þar jafnan endurnýjað boð sitt í tengslum við hina árlegu sjávarútvegssýningu í Kína.

Kínverjar eiga það sameiginlegt með Íslendingum að eiga mikið undir sjávarútveginum enda er framleiðsla þeirra á sjávarfangi yfir 40 milljónir tonna á ári og ráða þeir yfir 25% af heimsframleiðslunni, þar af eru 18 milljónir tonna veiddur afli en annað sjávarfang kemur úr eldi. En það er ekki einungis fyrir það hversu mikið Kínverjar veiða að þeir njóta mikilla alþjóðlegrar virðingar á sjávarútvegssviðinu, það er ekki síður vegna þess að þeir leggja mikla áherslu á verndun fiskistofnanna og hafa náð miklum árangri á því sviði. Þjóðirnar tvær geta því miðlað hvor annari af þekkingu sinni um sjálfbæra nýtingu fiskistofna.

Það er ekki einungis á vísindasviðinu sem mikilvægt er að styrkja tengsl okkar við Kína. Það er ekki síður mikilvægt á viðskipta- og tækni sviðinu þar sem íslensk fyrirtæki í sjávarútvegi og stoðgreinum hans eru að hasla sér völl á alþjóðlegum markaði. Það styrkir okkur og breikkar grundvöllinn að geta sótt fram á mörkuðum Asíu en treysta ekki svo til eingöngu á Evrópu og Bandaríkin í þeim efnum.

Það hafa ekki verið mikil viðskipti milli Kína og Íslands og er staðan sú að talsvert hefur hallað á okkur í þeim. Hins vegar verður að telja að við getum sótt á. Vonir eru bundnar við að nú þegar viðskiptaumhverfi í Kína er að taka örum breytingum og í þann mund er Kína gengur í Alþjóða viðskiptastofnunina muni verslun milli landanna aukast og viðskiptin jafnast. Stærð sjávarútvegs Kína er slík að þar munu tækifæri verða mikil fyrir þá sem starfa í tengslum við sjávarútveg og búa yfir mikilli reynslu og tækniþekkingu.
Sjávarútvegsráðuneytið, 26. okt. 2000

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum