Hoppa yfir valmynd
31. október 2000 Matvælaráðuneytið

3ja alheimsráðstefna sjávarútvegsins í Kína 31.10.01

Fréttatilkynning


Sjávarútvegsráðherra Árni M. Mathiesen flutti í dag fyrirlestur á 3ju alheimsráðstefnu sjávarútvegsins í Kína. Árni var einn þriggja aðalfyrirlesara á ráðstefnunni, hinir eru Yang Jian sem stýrir sjávarútvegsdeild kínverska landbúnaðarráðuneytisins og Ichiro Nomura aðstoðarforstjóri FAO matvæla og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna. Á ráðstefnunni eru yfir 6oo þáttakendur frá um 50 þjóðlöndum, hún mun standa í fjóra daga.

Í ræðunni fjallaði sjávarútvegsráðherra um sjávarútvegsmál í alþjóðlegu samhengi, og þá þætti sem hindra sjálfbæra nýtingu auðlinda hafsins.
Hann nefndi meðal annars umframsóknargetu fiskiflota heimsins, styrki til sjávarútvegs í mörgum ríkjum og skort á skilgreindum eignarrétti á auðlindum.
Hann lýsti þeirri skoðun að þessi mál ætti að ræða innan þess lagalega ramma sem hafréttar- og úthafsveiðisamningur Sameinuðu þjóðanna kveða á um, en hornsteinn þeirra er svæðisbundið samstarf.

Eitt þeirra vandamála sem oft er glímt við í svæðisbundu fiskveiðistjórnunar-samstarfi er ágreiningur um tilhögun stjórnunarinnar. Þess vegna er sérstök þörf á skilvirku ferli til úrlausnar deilumála. Meginvandinn í þessu sambandi er skipting veiðiréttinda milli ríkja, hvernig vega skuli saman þau viðmið sem taka þarf tillit til. Ef hægt væri að ná samkomulagi um þennan þátt gæti það orðið til þess að stór og smá ríki væru í jafnari stöðu við úrlausn deilumála en þau eru oft við samningaborð. Ráðherra sagði að þó væri ekki rétt að ganga lengra í þessum efnum en að búa til ferli þar sem deiluaðilar gætu valið hvort þeir leiti til einhvers konar úrskurðarnefndar, sem þá gæfi ráðleggjandi álit.

Í ræðu sinni nefndi ráðherra einnig að þörf fyrir alþjóðleg viðurkennd viðmið kæmi skýrt fram í umræðunni um umhverfismerkingar sjávarafurða.

Þrír aðrir Íslendingar flytja erindi á ráðstefnunni. Tumi Tómasson skólastjóri Sjávarútvegsskóla Sameinuðu þjóðanna kynnir námið við skólann og það umhverfi sem skólinn starfar í og Hjörleifur Einarsson forstjóri Rannsóknarstofnunar fiskiðnaðarins fjallar um framtíðarþróun í fiskvinnslu. Þá heldur Jóhannes Sturlaugsson erindi um þá möguleika sem opnast við notkun rafeindamerkja í rannsóknum á lax og sjávarfiskum og umhverfi þeirra.
Sjávarútvegsráðuneytið
31. október 2000



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum