Hoppa yfir valmynd
8. desember 2000 Matvælaráðuneytið

Sjávarútvegur í Brasilíu - kynningarfundur. 08.12.00

Fréttatilkynning


Undanfarna daga hafa verið staddir hér á landi í boði sjávarútvegsráðherra Íslands, Árna M. Mathiesen, fulltrúar frá Brasilísku ríkisstjórninni og Rio-fylki. Þetta eru Noel de Carvalho, sjávarútvegsráðherra Rio-fylkis, Alex Du Mont, fulltrúi sjávarútvegsráðherra Brasilíu og Humberto Schmidt, ráðuneytisstjóri sjávarútvegsmála Rio fylkis. Einnig hafa verið með í för fulltrúar brasilíska fyrirtækisins UPD, Christina Buena og stjórnarformaður þess Everton Carvalho.

Tilgangur heimsóknarinnar er að kynna fyrir Brasilíumönnum stöðu sjávarútvegsmála á Íslandi og sýna þeim einnig þá fjölbreyttu atvinnustarfsemi sem hér fer fram í stoðgreinum sjávarútvegsins.

Farið var í heimsókn í fyrirtæki á Vestfjörðum, höfuðborgarsvæðinu og á Reykjanesi. Þetta voru ýmis sjávarútvegsfyrirtæki, netagerðir, bátasmiðjur og hugbúnaðarfyrirtæki svo eitthvað sé nefnt. Einnig var farið í heimsókn í stofnanir sjávarútvegsráðuneytisins; Hafrannsóknastofnunina og Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins. Þá átti sendinefndin fund með fulltrúum utanríkisráðnueytisins, Útflutningsráði Íslands og Nýsköpunarsjóði.

Í heimsókninni undirrituðu fulltrúar frá Fiskmarkaði Suðurnesja samstarfssamning við alríkisstjórnina í Brasilíu, fylkisstjórnina í Rio-fylki og United Projects Developments um uppbyggingu fiskmarkaðar og þróun fiskveiða í Rio- fylki.

Í lok heimsóknarinnar var svo haldinn opinn fundur sem bar yfirskriftina "Sjávarútvegur í Brasilíu". Á honum hélt Alex Du Mont fyrirlestur um sjávarútveg í Brasilíu, Guðjón Ingi Guðjónsson, sölustjóri hjá SÍF hélt fyrirlestur um starfsemi og reynslu SÍF af viðskipum sínum þar í landi og Everton Carvalho kynnti starfsemi UPD. Tæplega hundrað manns sóttu fundinn sem var haldinn í húsakynnum Seðlabanka Íslands.
Sjávarútvegsráðuneytið
8. desember 2000

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum