Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið

Yfirmatsgerð á arðskrá fyrir Veiðifélag Miklavatns og Fljótaár

YFIRMATSMENN

samkvæmt lögum um

lax- og silungsveiði nr. 76/1970

 

YFIRMATSGERÐ

á arðskrá fyrir Veiðifélag Miklavatns og Fljótaár

I.

Undirmat. Beiðni um yfirmat

Hinn 26. apríl 1999 luku þeir Magnús Ólafsson, bóndi á Sveinsstöðum og Gísli Kjartansson, sparisjóðsstjóri í Borgarnesi, mati á arðskrá Veiðifélags Miklavatns og Fljótaár. Höfðu þeir verið dómkvaddir til starfans af Héraðsdómi Norðurlands vestra 4. nóvember 1997.

Með bréfi fjögurra eigenda veiðiréttar við Miklavatn 17. júní 1999 til veiðifélagsins var farið fram á að félagið hlutaðist til um að yfirmat færi fram á skiptingu arðskrárinnar. Er bréfið undirritað af Pétri Guðmundssyni, Hraunum, Hermanni Jónssyni, Lambanesi, Jóni Sigurbjörnssyni v/Efra Haganess I og Haraldi Hermannssyni v/Neðra Haganess. Fylgdi því fundargerð frá 16. sama mánaðar, þar sem tólf eigendur eða talsmenn eigenda veiðiréttar við vatnið fólu áðurgreindum mönnum að fara fram á yfirmat. Stjórn veiðifélagsins kom erindinu á framfæri við yfirmatsmenn, en ódagsett bréf stjórnarinnar barst þeim 1. júlí 1999.

Vegna málskotsins verður að gæta að ákvæðum 3. mgr. 95. gr. laga nr. 76/1970 um lax- og silungsveiði, en samkvæmt þeirri grein er frestur veiðiréttareigenda til að skjóta undirmati til yfirmatsmanna tveir mánuðir frá því undirmat var birt þeim. Meðal málsgagna er fundargerð aðalfundar veiðifélagsins 2. maí 1999. Kemur þar meðal annars fram að formaður hafi lagt fram arðskrármatið frá 26. apríl sama árs. Ekkert er fram komið um að matið hafi verið kynnt veiðiréttareigendum með sannanlegum hætti fyrr en á nefndum fundi. Að þessu virtu er ósk um yfirmat nægilega snemma fram komin.

II.

Upphaf matsstarfa. Vettvangsganga.

Nokkrir veiðiréttareigendur lýsa sjónarmiðum sínum.

Að ósk yfirmatsmanna boðaði stjórn Veiðifélags Miklavatns og Fljótaár eigendur veiðiréttar til fundar með yfirmatsmönnum 17. september 1999 í félagsheimilinu Ketilási. Á fundinn komu eigendur eða umboðsmenn eigenda þessara jarða: Illugastaða, Gautlands og Stóra-Grindils, Neðra Haganess, Lambaness, Lambaness-Reykja, jarðeigna Rarik, Efra Haganess, Helgustaða, Stóru Brekku Hrauna og Bjarnargils.

Á þessum fundi var starfstilhögun yfirmatsmanna kynnt og óskað eftir athugasemdum um formhlið málsins og hæfi yfirmatsmanna, ef einhverjar væru. Engar athugasemdir komu fram. Kynntu yfirmatsmenn sér sjónarmið fundarmanna um skiptingu arðskrár og athugasemdir vegna undirmats og væntanlegs yfirmats. Jafnframt var því beint til þeirra að senda yfirmatsmönnum skriflegar greinargerðir, ef þeir vildu kynna sjónarmið sín nánar. Skyldu þær hafa borist 15. desember 1999. Eftirgreindir lýstu viðhorfum sínum til skiptingar arðskrár á fundinum eða í viðtölum við yfirmatsmenn að loknum fundi: Haraldur Hermannsson vegna Neðra Haganess, Haukur Jónasson vegna Illugastaða, Stefán Þorláksson vegna Gautlands og Stóra-Grindils, Sverrir Sveinsson vegna jarðeigna Rarik, Hermann Jónsson vegna Lambaness, Hjálmar Jónsson vegna Stóru Brekku, Jón Kort Ólafsson vegna Efra Haganess, Trausti Sveinsson vegna Bjarnargils og Viðar Pétursson vegna Hrauna. Formaður veiðifélagsins, Þorsteinn Jónsson Helgustöðum, skýrði ýmis atriði, sem varða veiðiréttareigendur almennt eða einstaklega.

Sama dag og fundurinn var haldinn fóru yfirmatsmenn með ánni og vatninu og kynntu sér aðstæður á félagssvæðinu undir leiðsögn stjórnar veiðifélagsins, Þorsteins Jónssonar, Hermanns Jónssonar og Alfreðs Hallgrímssonar.

Eftir áðurnefndan fund hafa ekki borist skriflegar greinargerðir frá veiðiréttareigendum, en greinargerðir fjögurra talsmanna veiðiréttareigenda við Miklavatn og eiganda Hrauna voru afhentar á fundinum. Yfirmatsmenn hafa leitað til Veiðimálastofnunar, veiðimanna og formanns veiðifélagsins eftir margs kyns upplýsingum, auk þess sem þeir áttu sérstakan fund með Bjarna Jónssyni fiskifræðingi hjá Veiðimálastofnun í ágúst 2000.

Í lok ágúst 2000 ákvað stjórn veiðifélagsins að sérstakt mat á búsvæðum fisks í Fljótaá yrði gert á vegum Veiðimálastofnunar í tengslum við arðskrárgerð. Af þeim sökum var beðið með að ljúka mati á arðskrá, en skýrsla Veiðimálastofnunar barst yfirmatsmönnum 3. janúar 2001.

III.

Um Veiðifélag Miklavatns og Fljótaár.

Félagið heitir Veiðifélag Miklavatns og Fljótaár og starfar samkvæmt samþykkt nr. 470/1975, sem staðfest var af landbúnaðarráðherra 20. október 1975.

Í 2. gr. samþykktarinnar segir að félagið nái til allra jarða, sem eiga land að því vatnasvæði, sem félagið sé stofnað um, þ.e. Miklavatni, Hraunósi, Fjótaá að uppistöðustíflu við Skeiðsfoss, Brúnastaðaá, Reykjaá og öðrum ám og lækjum, sem til þeirra falla. Eftirtaldar jarðir eiga aðild að félaginu: Hraun I og II, Lambanesreykir, Lambanes, Illugastaðir, Brúnastaðir, Nýrækt, Minna-Holt, Stóra-Holt, Helgustaðir, Saurbær, Bjarnagil, Molastaðir, Reykjarhóll, Hólavellir, Hólakot, Hólar, Gil, Bakki, Skeið, Stóra-Þverá, Berghylur, Stóra-Brekka, Slétta, Hamar, Stóri-Grindill, Minni-Grindill, Gautland, Haganes I, Haganes II, Brautarholt, Vík og Neðra Haganes. Í nokkrum tilvikum munu tvær eða fleiri jarðir eiga óskipt hlunnindi, svo sem nánar birtist í gildandi arðskrá og í nýrri arðskrá samkvæmt XIII. kafla hér á eftir. Þá eru í gildandi arðskrá sérmetnar nokkrar jarðir eða jarðapartar, sem ekki eru taldir upp í samþykktinni. Ekki hefur verið óskað eftir neinni breytingu að þessu leyti.

Samkvæmt 3. gr. samþykktarinnar er verkefni félagsins að stunda fiskirækt á félagssvæðinu, ráðstafa veiði og skipuleggja nýtingu vatnasvæðisins að því er tekur til allrar veiði á fiski, sem er á vatnasvæðinu og ræktaður kann að verða. Í 5. gr. er kveðið á um að öllum sé óheimil veiði á félagssvæðinu nema með sérstöku skriflegu leyfi félagsstjórnar. Skuli í leyfinu tekið fram um veiðitíma og veiðitæki. Í 8. gr. samþykktarinnar er svofellt ákvæði: „Arði af sameiginlegri veiði skal skipta niður á félagsmenn samkvæmt arðskrá. Félagsmenn greiði gjöld til félagsins í sama hlutfalli og þeir taka arð."

Gildandi arðskrá fyrir félagið er frá 1. maí 1989 og er gerð af undirmatsmönnum.

IV.

Rekstur veiðivatna félagsins. Tekjur.

Frá stofnun veiðifélagsins hefur hluti félagssvæðisins, þ.e. Fljótaá, verið leigð sama leigutakanum, Stangveiðifélagi Siglfirðinga, að undanskildum þremur árum (1994-1996) þegar Trausti Sveinsson, Bjarnargili, leigði ána. Núverandi samningur veiðifélagsins við leigutakann er frá 10. nóvember 1996 og gildir til fimm ára.

Leyft er að veiða með fimm stöngum í einu í Fljótaá og er veiðitíminn samkvæmt samningnum 15. júní til 30. september ár hvert. Ákveður leigutakinn m.a. skiptingu svæða og leyfilegt agn. Er ánni samkvæmt því nú skipt í fimm veiðisvæði. Tekið er fram að óheimilt sé að fjölga netalögnum í Miklavatni á leigutímanum frá því sem verið hefur. Árlegt leigugjald er 3.606.000 krónur. Kveðið er á um endurskoðun tiltekinna atriða, þ.m.t. verðtryggingu leigugjalds, að liðnum tveimur árum frá samningsgerð.

Að því er varðar Miklavatn munu veiðiréttareigendur þar hafa nýtt veiðina sjálfir með samningum við veiðifélagið. Er hún fyrst og fremst stunduð í net, en einhver stangarveiði mun þó jafnframt vera iðkuð. Samkvæmt samþykkt á fundi í veiðifélaginu 1993 hefur árleg greiðsla fyrir eitt net verið innt af hendi með andvirði 10 eininga í arðskrá félagsins, en með 5 einingum fyrir hvert net umfram eitt. Ekki liggur fyrir að hámark (kvóti) sé settur á veiði í hvert net. Veitt er með silunganetum, en talsvert kemur engu að síður af laxi í netin með silungnum. Af árlegum skrám um úthlutun arðs 1996-1999 verður ráðið að nær allir veiðiréttareigendur við vatnið hafi greitt fyrir eina til tvær netalagnir í vatninu umrædd ár, en fyrir tvö þessara ára hefur ein jörð (Hraun) greitt fyrir þrjár.

Veiði í hliðarám, Brúnastaðaá og Reykjaá, mun hafa verið nýtt með sölu veiðileyfa.

Reikningar veiðifélagsins 1997 og 1999 eru meðal málsgagna. Samkvæmt rekstrarreikningi námu tekjur þess 1999 (leigutekjur, seld veiðileyfi, seld leyfi til netalagna) samtals 4.096.000 krónum, en 4.157.510 krónum árið á undan. Lækkun skýrist af færri seldum veiðileyfum á stöng. Kostnað ber félagið allan af rekstrinum, þar á meðal af veiðivörslu, sbr. þó IX. kafla hér á eftir um kostnað vegna seiðakaupa.

Yfirmatsmenn hafa fengið munnlegar heimildir fyrir því að leigutaki Fljótaár hafi nýlega ákveðið að gera breytingar á rekstri árinnar sumarið 2001. Þannig verði stöngum fækkað, veiðitími styttur, aðeins veitt á flugu og veiddum laxi sleppt aftur lifandi í ána. Jafnframt hafi náðst samkomulag við veiðiréttareigendur um að taka að verulegu leyti upp net í Miklavatni á laxveiðitímanum. Þessar aðgerðir hafi verið ákveðnar til að bregðast við stórlega minnkandi veiði, einkum sumarið 2000. Þessi breytta tilhögun hefur ekki áhrif á skiptingu arðskrár nú.

V.

Gögn til afnota við matsstörfin

 1. Beiðni stjórnar veiðifélagsins um yfirmat með fylgiskjölum 16. og 17. júní 1999 (áður getið)
 2. Arðskrármat undirmatsmanna 26. apríl 1999
 3. Beiðni um undirmat 4. september 1997 og dómkvaðning undirmatsmanna
 4. 4. nóvember sama árs.

 5. Samþykkt fyrir Veiðifélag Fljótaár og Miklavatns frá 1975 (áður getið)
 6. Arðskrá fyrir veiðifélagið samkvæmt undirmatsgerð 1. maí 1989 og eldri arðskrá 13. desember 1979
 7. Veiðimannakort af Fljótaá með merktum veiðistöðum.
 8. Skrá um landlengd jarða með Miklavatni, Fljótaá og tveim hliðarám, byggð á mælingu Egils Bjarnasonar ráðunautar 29. ágúst 1975
 9. Fundargerð nefndar veiðiréttareigenda við Miklavatn 13. september 1999
 10. Greinargerð eiganda Hrauna 19. júní 1999
 11. Yfirlit yfir árlega veiði í Fljótaá 1974-1998
 12. Árseikningar veiðifélagsins fyrir árin 1997 og 1999
 13. Samantekt á veiði í Miklavatni 1994-1999
 14. Yfirlit formanns veiðifélagsins yfir eignarhald jarða á einstökum veiðistöðum í Fljótaá
 15. Samantekt á veiði í Fljótaá 1990-1993 og 1996-1999
 16. Dómkvaðning 26. júlí 1980 og mat 24. september sama árs um verð fyrir netalagnir í Miklavatni
 17. Nokkrar fundargerðir félagsfunda í veiðifélaginu 1974-1999
 18. Bréf veiðimálanefndar 18. maí 1971
 19. Veiðimálastofnun: Athuganir á seiðastofnum Fljótaár 1983-1993 (Tumi Tómasson)
 20. Veiðimálastofnun: Fljótaá 1995 (Tumi Tómasson)
 21. Veiðimálastofnun: Fljótaá 1996 (Tumi Tómasson)
 22. Veiðimálastofnun: Rannsóknir á Fljótaá og vatnasvæði Miklavatns sumarið 1998 (Bjarni Jónsson
 23. Veiðimálastofnun: Áhrif endurbóta á mannvirkjum Skeiðsfossvirkjunar vorið 1999 á lífríki Fljótaár (Bjarni Jónsson)
 24. Veiðimálastofnun: Rannsóknir á botngerð og búsvæðamat í Fljótaá, desember 2000 (Bjarni Jónsson)
 25. Leigusamningur um Fljótaá 10. nóvember 1996
 26. Skrár 1996 til 1999 um úthlutun arðs.
 27. „Viðbótarvirkjun í Fljótaá í Skagafjarðarsýslu", matsgerð í desember 1975
 28. Aflatölur 2000.

VI.

Sjónarmið nokkurra eigenda veiðiréttar.

Áður er fram komið að nokkrir eigendur veiðiréttar hafa komið sjónarmiðum sínum á framfæri við yfirmatsmenn, ýmist munnlega eða skriflega. Samandregið skiptast röksemdir veiðiréttareigenda í tvö horn. Annars vegar eru þeir, sem halda fram hlut rétthafa í Miklavatni og hins vegar þeir, sem tala máli jarða við Fljótaá. Eins og málið er flutt fyrir yfirmatsmönnum er skipting arðs milli þessara hópa í heild það, sem ágreiningur snýst um, en í raun hefur sjónarmiðum aðeins að litlu leyti verið teflt fram um að hlut einstakra jarða innan hvors hóps hafi ekki verið réttilega gætt í undirmati. Hér á eftir verður þessum sjónarmiðum lýst í höfuðatriðum.

Veiðiréttareigendur við Miklavatn:

Fjórir talsmenn þessa hóps skýrðu viðhorf sín í greinargerð 13. september 1999, þar sem undirmat er gagnrýnt. Segir þar í upphafi að matsmennirnir hafi ekki lokið matinu á tilsettum tíma og þeir því verið umboðslausir þegar verkið var unnið. Á fundi með yfirmatsmönnum fáum dögum síðar var þetta nánar skýrt þannig að í dómkvaðningu héraðsdómara hafi verið tekið fram að matsmenn skyldu skila skriflegri arðskrá eigi síðar en 1. júní 1997 (á væntanlega að vera 1. júní 1998). Það hafi þeir hins vegar ekki gert fyrr en næstum ári síðar og umboð matsmannanna þá verið útrunnið. Við sama tækifæri var haldið fram að ekki hafi verið minnst á endurskoðun arðskrár í matsbeiðni til héraðsdóms, heldur aðeins verið vísað til 95. gr. laga nr. 76/1970. Vegna fyrirmæla um skil arðskrár 1. júní 1998 hafi ekki verið rétmætt að taka með veiðitölur þess árs, sem matsmennirnir hafi þó gert.

Þá segir í greinargerðinni: „Við útreikning á verðgildi lax veiddum í á miðað við lax veiddum í vatni er gert ráð fyrir 12 földum verðmun. Við teljum að þeir sem stunda netaveiði hafi jafn gaman af veiðiaðferðum sínum og þeir sem standa daglangt við á og veiða á stöng. Það hlýtur því að vera ímynd matsmanna á því hversu miklu skemmtilegra er að veiða á stöng en í net sem ræður þessum verðmun og það geta þeir sem stundað hafa netaveiði sér til gamans ekki samþykkt."

Þá segir í greinargerðinni að ekki hafi verið tekið tillit til þess að vatnsbændur hafi gengist fyrir ýmsum friðunaraðgerðum til að auka fiskgengd í Fljótaá. Heimilt sé samkvæmt laxveiðilögum að leggja 160 netalagnir í Miklavatn, en veiðiréttareigendur hafi samþykkt 23 lagnir (silunganet) sem hámark, sem þó séu ekki fullnýttar. Þetta sé gert í friðunarskyni og sé ósanngjarnt að nota það við arðskrármat gegn þeim. Var á áðurnefndum fundi jafnframt bent á að ekki væri tekið réttmætt tillit til landlengdar að Miklavatni.

Loks er tekið fram að seiðakaup séu greidd af félaginu sjálfu. Þeim sé sleppt á þrem stöðum í Fljótaá og því berist þar mikill afli á land. Sanngjarnt sé að því sé jafnað á allt vatnasvæðið.

Veiðiréttareigendur við Fljótaá:

Á fundi með yfirmatsmönnum talaði einkum eigandi Bjarnargils máli þeirra, sem eiga hagsmuna að gæta við Fljótaá. Gagnrýndi hann netaveiði í Miklavatni. Forsendur væru nú mjög breyttar frá því almennur fundur í veiðifélaginu heimilaði netaveiði, enda sé stangarveiði nú miklum mun verðmætari en áður. Lítið fáist hins vegar fyrir fisk, sem veiðist í net. Veiðiréttareigendur við Miklavatn hafi notið góðs af stórhækkuðum arðgreiðslum af Fljótaá og greiði jafnframt allt of lítið vegna netaveiði sinnar. Taldi hann tvo þriðju hluta allra veiddra laxa fást í net. Ókleift sé að rækta upp Fljótaá meðan netaveiði sé stunduð, en um upptöku neta megi semja.

Illugastaðir:

Af hálfu talsmanns jarðarinnar var vakin athygli á að Miklavatn hafi ætíð verið mikilvægt sem matarkista allrar sveitarinnar. Hann nefndi jafnframt að líklega væri ekki tekið tillit til Reykjaár í undirmati við ákvörðun arðshluta jarðarinnar.

Jarðir Rarik:

Rafmagnsveitur ríkisins eiga sex jarðir í veiðifélaginu, sem allar liggja að Fljótaá. Stofnunin tók þá afstöðu að gæta ekki réttar síns fyrir undirmatsmönnum. Ítrekaði fulltrúi hennar á fundi með yfirmatsmönnum þá afstöðu.

Veruleg gagnrýni kom fram hjá nokkrum fundarmanna á Rarik, vegna þess að miklum aur hafi verið skolað út úr Stífluvatni, sem hafi valdið verulegum skaða á seiðabúskap árinnar og vatnsins. Fulltrúi Rarik skýrði viðhorf stofnunarinnar í því máli.

Hraun:

Í greinargerð eiganda jarðarinnar er lýst aðstöðu til veiði á jörðinni fyrr og nú. Samkvæmt veiðireglum mætti leggja 40-50 net frá jörðinni í vatnið, en nú sé aðeins heimilt að hafa þar þrjú net, sem ekki séu fullnýtt. Þá segir að „alls ekki er hægt að tala um veiði á laxi í Miklavatni þar sem ekki mátti leggja net af þeirri stærð, það er því alveg tilviljun að lax veiðist í silunganet." Munnlega kom fram hjá talsmanni jarðarinnar að ósinn hafi reynst henni mikilvægur við veiðar. Nokkur stangarveiði sé stunduð í vatninu frá Hraunum.

VII.

Skipting arðs. Almennt.

Í 1. mgr. 50. gr. laga nr. 76/1970 er að finna ákvæði um ákvörðun veiði eða arðs af veiði, sem koma skal í hlut hverrar jarðar eða jarðarhluta, sem veiðiréttur fylgir í vatni á félagssvæðinu. Þar segir: „Við niðurjöfnun veiði eða arðs af henni skal m.a. taka tillit til aðstöðu til netjaveiði og stangarveiði, landlengdar að veiðivatni, til hrygningarskilyrða og uppeldisskilyrða fisks."

Samkvæmt 8. gr. samþykktar fyrir Veiðifélag Miklavatns og Fljótaár skal arði af sameiginlegri veiði skipt niður á félagsmenn samkvæmt arðskrá. Kostnað af starfsemi félagsins greiða félagsmenn í sama hlutfalli.

Í gildandi arðskrá fyrir félagið er arði skipt í einingar miðað við að heildarfjöldi eininga, sem kemur til skipta milli allra rétthafa, sé 1000. Sá háttur verður einnig hafður á nú. Við skiptingu arðskrár verða notaðar heilar tölur og einn aukastafur. Verður allt vatnasvæðið, sem er innbyrðis ólíkt, metið sem ein heild og á sömu forsendum. Hér á eftir fara niðurstöður yfirmatsmanna um hvernig allar einingarnar skuli skiptast milli einstakra þátta, sem í framangreindri lagagrein eru sérstaklega tilgreindir, og hvernig önnur atriði geta haft þar áhrif á.

VIII.

Landlengd.

Meðal málsgagna er skrá um landlengd jarða að Miklavatni, Fljótaá, Brúnastaðaá og Reykjaá, sem unnin var af Agli Bjarnasyni ráðunaut, og er dagsett 29. ágúst 1995. Engar athugasemdir hafa borist yfirmatsmönnum varðandi þessa mælingu. Verða tölur, sem skráin hefur að geyma, lagðar til grundvallar eins og þær liggja fyrir.

Niðurstaða yfirmatsmanna er sú að hæfilegt sé að 350 einingar skuli skiptast milli veiðiréttareigenda í samræmi við landlengd að Miklavatni og Fljótaá. Verður hverri lengdareiningu bakka við ána og vatnið gefið jafnt vægi. Ekki verður úthlutað af þessum einingum til hliðaráa, en um þær verður fjallað sérstaklega í XI. kafla hér á eftir.

IX.

Aðstaða til netaveiði og stangarveiði.

Gerð er grein fyrir tilhögun við rekstur veiðivatna innan félagsins í IV. kafla að framan og í V. kafla er getið skýrslna og annarra upplýsinga, sem liggja fyrir yfirmatsmönnum um laxveiði og silungsveiði og skiptingu aflans milli vatns og ár og milli veiðistaða og veiðiréttareigenda. Varðandi þennan þátt í skiptingu arðskrár leggja yfirmatsmenn almennt til grundvallar allan afla, sem fengist hefur frá gerð síðustu arðskrár. Gildandi arðskrá Veiðifélags Miklavatns og Fljótaár er frá 1. maí 1989.

Í tilviki Veiðifélags Miklavatns og Fljótaár eru hins vegar annmarkar á því að unnt sé að fylgja áðurnefndri reglu að öllu leyti. Veldur því að mikið skortir á að viðhlítandi upplýsingar hafi fengist um afla og skiptingu hans milli veiðiréttareigenda. Á það einkum við um fyrri hluta þessa tímabils, sem um ræðir. Misbrestur á skráningu upplýsinga lýtur að ýmsu og veldur sumt, sem á vantar, verulegum vandkvæðum við skiptingu arðskrár, en annað síður. Þannig eru einungis mjög ófullkomnar veiðitölur fyrir hendi varðandi Miklavatn frá 1989 til og með 1993 og því heldur ekki til skipting afla milli eigenda veiðiréttar þar eða raunhæfur samanburður á veiði milli vatnsins og Fljótaár. Þá eru veiðibækur fyrir Fljótaá vegna áranna 1994 og 1995 sagðar glataðar, en heildarveiði er þó þekkt. Mjög skortir á að silungsveiði í Fljótaá hafi verið færð til bókar með viðhlítandi hætti og á það einkum við um fyrri hluta áðurnefnds tímabils. Telja yfirmatsmenn heimildir um afla og skiptingu hans milli veiðiréttareigenda 1989 til 1993 svo ótraustar að ókleift sé að leggja til grundvallar þau takmörkuðu gögn, sem til eru. Sá kostur er fyrir hendi að áætla veiði í Miklavatni og skiptingu hennar á fyrri hluta tímabilsins með hliðsjón af veiði og skiptingu hennar á síðari hluta þess. Eins verði þá farið með silungsveiðina í Fljótaá 1989 til 1993. Að öllu virtu verður sá háttur þó ekki á hafður vegna mikillar óvissu, sem þessari aðferð fylgir, ekki síst í ljósi þess hve langan tíma um er að ræða. Verður því sú leið valin að miða eingöngu við afla úr Miklavatni og Fljótaá 1994 til 2000 að báðum árum meðtöldum við úthlutun eininga, sem hér um ræðir, sbr. þó um innbyrðis skiptingu á laxveiði í Fljótaá hér á eftir. Telja yfirmatsmenn flest benda til að skráning afla sé í stórum dráttum komin í það gott horf á báðum svæðum að ekki sé varhugavert að leggja skýrslur þessara ára til grundvallar um veiði á þessum tíma.

Fram er komið að veiði hefur minnkað verulega bæði í Miklavatni og Fljótaá síðustu árin. Ýmsar ástæður eru tilfærðar, sem valdið geti þessum umskiptum til hins verra. Er áður getið aurframburðar úr Stífluvatni, sem samkvæmt skýrslum Veiðimálastofnunar hefur haft afdrifarík áhrif á lífríki vatnasvæðisins, einkum í Fljótaá. Þá liggur fyrir að ós Miklavatns færðist sunnar við það að særót rauf á nýjum stað sandrif, sem skilur vatnið frá sjónum. Hefur seltustig Miklavatns hækkað í kjölfarið, sem hefur haft slæm áhrif á lífríki þess. Jafnframt hefur þorskur farið að ganga inn í vatnið. Fleiri ástæður kunna að liggja að baki mjög minnkandi veiði í ánni og vatninu. Það, sem hér um ræðir, er í raun utan við viðfangsefni yfirmatsmanna og hefur ekki áhrif á skiptingu arðskrárinnar.

Yfirmatsmenn telja hæfilegt að 340 einingar komi til úthlutunar vegna stangarveiði og netaveiði á öllu félagssvæðinu. Óskráður afli hefur ekki áhrif á skiptingu þessara eininga. Skráningu um innbyrðis skiptingu afla er í ýmsu áfátt, einkum silungsafla í Fljótaá 1994-1998, sem leiðir til þess að heildarfjöldi eininga fyrir þennan þátt er ákveðinn lægri en ella hefði orðið. Við skiptingu þeirra reynir verulega á misjafnt verðgildi veiðiaðferða og fisktegunda, sbr. nánar hér á eftir.

Ekki verður litið framhjá því að mikill meirihluti tekna veiðifélagsins stafar frá Fljótaá, þ.e. fyrir útleigu laxveiði og silungsveiði þar. Tekjur af veiði í Miklavatni eru hins vegar litlar. Þannig náðu tekjur af allri veiði í vatninu 1999 ekki 500.000 krónum af rúmlega 4.000.000 króna heildartekjum félagsins. Er í undirmatsgerð réttilega gerð grein fyrir þeim margfalda mun, sem er á verðmæti stangarveidds fisks annars vegar og hins vegar fisks, sem fæst í net. Í undirmati er jafnframt gerð grein fyrir því að auk lítils verðmætis netafisks í þessum samanburði verði einnig að líta til kostnaðar, sem hver veiðiréttareigandi verður sjálfur að bera af slíkum veiðum, sem þar er áætlaður sem næst þriðjungur af verðmæti hvers netafisks. Af reikningum félagsins má ráða að vatnið og hliðarár standi almennt undir sem næst 13% tekna félagsins, en Fljótaá 87%. Verður tekið mið af þessari skiptingu þegar arðskráreiningum fyrir veiði er deilt niður á vatnið annars vegar og ána hins vegar.

Í VI. kafla að framan eru rakin sjónarmið veiðiréttareigenda við Miklavatn og gagnrýni þeirra á þær niðurstöður undirmatsmanna, sem að framan greinir. Segir þar meðal annars að þeir, sem stundi netaveiði, hafi jafn gaman af veiðiaðferðum sínum og þeir, sem veiði á stöng. Það hljóti því að vera ímynd matsmanna á því hve miklu skemmtilegra sé að veiða á stöng en net sem ráði þessum verðmun „og það geti þeir sem stundað hafa netaveiði sér til gamans ekki samþykkt." Vegna þessara sjónarmiða er tilefni til að taka sérstaklega fram að skemmtanagildi veiðanna fyrir veiðiréttareigendur við Miklavatn getur engu ráðið um skiptingu arðskrár veiðifélagsins. Hinu sama gildir um þá röksemd að heimill netafjöldi þeirra samkvæmt landslögum sé meiri en þeir nýti. Verður þá litið til þess að óheftar netaveiðar standast ekki af augljósum ástæðum. Hefur veiðifélagið sjálft sett hömlur á þær umfram það, sem landslög gera. Eru um leið auknar tekjurnar af vatnasvæðinu í heild með því að draga úr sókn. Með því eru veiðiréttareigendur við Miklavatn í reynd að skipta tekjum af verðlitlum netaveiðum fyrir tekjur af verðmikilli stangarveiði.

Að því er varðar Fljótaá sérstaklega verður tekið tillit til þess að auk laxveiði er þar veruleg silungsveiði. Er hún fyrir hendi á tveim neðstu svæðum árinnar (svæðum IV og V) sem annars staðar í ánni, en þar er hins vegar lítil laxveiði, sem er einkum á svæðum I - III. Gildi silungsveiðinnar er ótvírætt fyrir hendi meðal annars þegar laxveiði er treg. Sú aðstaða, sem hér er til staðar, er að áliti yfirmatsmanna til þess fallin að auka verðmæti árinnar við útleigu hennar og samanburður við leiguverð nokkurra áa með svipaða laxveiði að meðaltali styður það. Að öllu virtu telja yfirmatsmenn að ekki sé varhugavert að leggja til grundvallar að silungsveiðin standi undir allt að fjórðungi verðmætis veiði í ánni, eins og það birtist í leiguverði hennar. Verður tekið tillit til þess við skiptingu arðskrár. Stór hluti silungsaflans er ekki bókaður sem skyldi á veiðistaði. Er ástæða til að ætla að slík ónákvæmni í bókun eigi ekki síst við um afla af neðri svæðunum. Með þennan afla verður farið svo að honum er skipt í samræmi við landlengd einstakra jarða að Fljótaá. Áður er fram komið að viðunandi heimildir um skiptingu laxveiði í Fljótaá 1994 og 1995 hafa ekki fengist. Verður þeim afla sem og annarri laxveiði skipt í samræmi við skiptingu laxveiði í ánni 1990 til 1993 og 1996 til 2000, sem á báðum þessum tímabilum var fyrst og fremst á svæðum I-III.

Forsendur fyrir innbyrðis skiptingu afla úr Miklavatni eru ólíkar því, sem á við um stangveiddan fisk úr Fljótaá. Verður lagt til grundvallar að verðmæti hvers netaveidds lax í Miklavatni svari til verðmætis fjögurra silunga þar.

Því sjónarmiði hefur verið hreyft að laxaseiði, sem sleppt var í Fljótaá, séu greidd af veiðifélaginu sjálfu. Sé því sanngjarnt að aflanum sé jafnað á allt vatnasvæðið. Hér mun að verulegu leyti vera um misskilning að ræða, því samkvæmt upplýsingum formanns veiðifélagsins hefur Rarik greitt í mörg ár samkvæmt samningi við félagið fyrir 3.500 laxaseiði á ári vegna tjóns, sem leitt hefur af rekstri virkjunar. Nokkrum sinnum hafi stofnunin greitt fyrir öll seiðakaup félagsins, allt að 8 þúsund seiði á ári. Þegar af þessari ástæðu verður ekki fallist á sjónarmið veiðiréttareigenda við Miklavatn, sem að þessu lúta.

X.

Uppeldis- og hrygningarskilyrði.

Í liðum nr. 18-22 í upptalningu gagna í V. kafla að framan er getið rannsóknarskýrslna Veiðimálastofnunar á lífríki Fljótaár og Miklavatns á tímabilinu 1983 til 1999. Þá er nú fram komið sérstakt búsvæðamat í Fljótaá, sbr. 23. lið í sama kafla þessarar matsgerðar. Hafa yfirmatsmenn jafnframt fengið nánari upplýsingar og skýringar í viðtölum við Bjarna Jónsson, sérfræðing Veiðimálastofnunar.

Í rannsóknarskýrslunum kemur m.a. fram að Fljótaá sé um 8 km löng. Fóstri hún bæði laxa- og bleikjuseiði auk fullorðinnar bleikju. Er gerð grein fyrir hvernig vatnshiti, botngerð, straumlag, hrygningarskilyrði og styrkleiki árganga hafi áhrif á útbreiðslu, aldurssamsetningu og þéttleika bleikju- og laxaseiða. Þá geti vatnsmiðlun og rennslisstjórnun, sem tengist virkjun Fljótaár, haft mikil áhrif á framangreinda þætti og þar með viðgang lax og bleikju í ánni. Áhrif Stífluvatns til aukningar á vatnshita og fæðuframboði hafi án efa bætt skilyrði fyrir lax í ánni. Breytilegt rennsli hafi hins vegar oftast neikvæð áhrif fyrir hann. Í skýrslum eftir 1994 er gerð grein fyrir margvíslegum áhrifum framkvæmda við Skeiðsfossvirkjun fyrir lífríki árinnar, en þá var miklum aur veitt úr uppistöðulóni virkjunarinnar. Alveg er ljóst að klak og eldi lax hefur beðið mikinn hnekki við þetta, en áhrifin á bleikjuklak og eldi hafa orðið minni. Flóð úr lóninu endurtók sig 1999 með skaða fyrir lífríkið, en í mun minna mæli þó. Áföllunum hefur verið mætt með seiðasleppingum að því marki, sem unnt er.

Í ítarlegu búsvæðamati Bjarna Jónssonar, Veiðimálastofnun, á Fljótaá í desember 2000 er því lýst að gert hafi verið botnmat á ánni í ágúst sama árs. Á grundvelli þess hafi síðan verið metið framleiðslugildi einstakra hluta árinnar fyrir uppeldi laxaseiða og bleikjuseiða, sem getur minnst orðið 0, en hæst 60. Tekið er fram að svæði geti verið misgóð með tilliti til uppeldis laxaseiða og bleikjuseiða. Ekki var metið búsvæðagildi fyrir lax í lækjum, þar sem ekki hafi veiðst þar laxaseiði nema í undantekningartilvikum neðst í þeim. Þeir voru hins vegar athugaðir með tilliti til þess að þar geta þrifist bleikjuseiði. Var botnmat framkvæmt í Fljótaá frá stíflu að ósi við Miklavatn og ánni síðan skipt í allmörg einsleit svæði, merkt A-S. Er lýst einkennum hvers svæðis, lengd þeirra og fjölda framleiðslueininga þar fyrir annars vegar laxaseiði og hins vegar bleikjuseiði.

Yfirmatsmenn telja hæfilegt að 250 einingar komi til úthlutunar vegna þessa þáttar. Er fjöldi þeirra hærri en ella sakir þess hve nákvæmar rannsóknir við er að styðjast að þessu leyti. Falla þær til veiðiréttareigenda við Fljótaá og Miklavatn, en um uppeldis- og hrygningarskilyrði í hliðarám vísast til næsta kafla hér á eftir. Skipting þeirra tekur mið af áðurnefndu búsvæðamati Bjarna Jónssonar og framleiðslueiningum fyrir uppeldi laxaseiða veitt 75% vægi á móti 25% fyrir bleikjuseiði. Þá hafa yfirmatsmenn fært einstaka árkafla, eins og þeir birtast í búsvæðamatinu, að landamerkjum hverrar jarðar. Ekki verður þó úthlutað af þessum einingum til efsta hluta árinnar ofan laxastiga, sem vegna reksturs virkjunar þornar stundum alveg, og verður við svo búið ekki talinn hafa gildi fyrir uppeldi seiða. Þá verður 1.600 metra kafla í ánni milli virkjana einungis veitt 50% vægi í ljósi þess að þar er rennsli stundum afar lítið á veturna, sem rýrir gildi þessa árkafla fyrir uppeldi seiða.

Af rannsóknarskýrslum og munnlegum upplýsingum sérfræðinga Veiðimálastofnunar verður ráðið að Miklavatn hafi ótvírætt nokkurt gildi fyrir uppeldi smábleikju. Má ætla að hluti hennar vaxi þar í veiðanlega stærð, en gangi síður til hafs. Þá má einnig ætla að vatnið feli í sér hagstæð skilyrði fyrir aðlögun laxaseiða að seltu. Telja yfirmatsmenn hæfilegt að 50 af þeim einingum, sem koma fyrir þennan þátt, falli til veiðiréttareigenda við vatnið. Verður þeim skipt í hlutfalli við landlengd hverrar jarðar að því.

XI.

Aðrir þættir, sem þýðingu hafa við skiptingu arðs.

Tvær hliðarár, Brúnastaðaá og Reykjaá, eru á félagssvæði Veiðifélags Miklavatns og Fljótaár. Landlengd að þeim hefur verið mæld, sbr. 7. lið í V. kafla að framan, og að þeim er vikið í skýrslum Veiðimálastofnunar, sbr. liði nr. 18-23 í sama kafla. Yfirmatsmenn telja hæfilegt að 45 einingum verði úthlutað til eigenda hliðaránna. Er þá bæði tekið tillit til mældrar bakkalengdar og uppeldis- og hrygningarskilyrða. Ekki liggja fyrir heimildir um veiði þar, þótt veiðileyfi hafi verið seld í þær í einhverjum mæli utan tvö síðustu árin.

Þá liggur fyrir að ós Miklavatns liggur allur í landi Hrauna. Almennt er viðurkennt að ós í sjó hafi sérstakt gildi fyrir veiðivatn, en heimild til að veiða þar er hins vegar takmörkuð með lögum. Er að jafnaði tekið tillit til þess við skiptingu arðs og verður svo gert nú. Þá mun aðstaða til stangarveiði í landi Hrauna vera að sumu leyti betri en annars staðar við vatnið. Þykir hæfilegt að 15 einingum verði úthlutað sérstaklega til eiganda Hrauna af framangreindum ástæðum.

XII.

Niðurstöður.

Ekki er fram komið tilefni til að aðrir þættir en þeir, sem að framan greinir, hafi áhrif á skiptingu arðskrárinnar. Kröfum einstakra veiðiréttareigenda um hlutdeild í arðskrá umfram það, sem leiðir af framangreindum matsaðferðum, er hafnað. Ekki hafa komið fram tilmæli um að skipta upp arðshlut, þar sem hlunnindi hafa áður verið metin í arðskrá óskipt til tveggja eða fleiri jarða. Í samráði við formann veiðifélagsins er þó sleppt að sérmeta nú svokallaða Þrætutungu, sem fellur undir Lambanes. Hlunnindum, sem fylgja óskiptu landi Nýræktar, Stóra Holts og Minna Holts, er skipt jafnt milli jarðanna. Þá er með vísan til forsendna undirmatsmanna staðfest sú niðurstaða þeirra að hluti veiðiréttareigenda fái ekki tvöfaldan arð, en það matsefni var sérstaklega tilgreint í matsbeiðni og dómkvaðningu matsmannanna.

Í VI. kafla að framan er getið um fram komna staðhæfingu þess efnis að undirmatsmenn hafi verið umboðslausir, er þeir luku verki sínu, þar eð þeir hafi ekki lokið því innan tilsetts tíma. Vegna þessa skal tekið fram að ekki verður séð með hvaða heimild héraðsdómari setti undirmatsmönnum sérstök tímamörk í þessu efni við dómkvaðningu þeirra. Verður ekki litið svo á að slíkt ákvæði í dómkvaðningu, sem ekki styðst við lagaheimild, geti leitt til þess að matsniðurstaða teljist ógild. Er ennfremur ljóst að undirmatsmenn hafa lokið matsgerð sinni innan tímamarka, sem teljast fyllilega eðlileg miðað við umfang þess viðfangsefnis, sem þeim var lagt á herðar. Ekki er því hald í sjónarmiðum um umboðsskort.

Veiðifélag Miklavatns og Fljótaár ber kostnað af mati þessu.

Mat þetta gildir frá 1. janúar 2001. Arðskrá fyrir Veiðifélag Miklavatns og Fljótaár skal vera, svo sem greinir í XIII. kafla hér á eftir.

XIII.

Arðskrá fyrir Veiðifélag Miklavatns og Fljótaár.

Jarðir. einingar

1. Óskipt land Hvamms og Bakka 1,7

2. Bakki 33,6

3. Gil 61,0

4. Hólakot 47,6

5. Hólar 8,3

6. Hólavellir 8,2

7. Reykjarhóll 36,4

8. Molastaðir 32,6

9. Bjarnargil 28,5

10. Saurbær 34,6

 1. Helgustaðir 7,2
 2. Stóra Holt 26,1
 3. Minna Holt 5,0
 4. Nýrækt 5,9
 5. Skeið 92,4
 6. Stóra Þverá 57,3
 7. Bergland og Berghylur 46,3
 8. Stóra Brekka 41,3
 9. Slétta 86,4
 10. Hamar 12,2
 11. Stóri Grindill 15,1
 12. Minni Grindill 16,1
 13. Gautland 7,5
 14. Efra-Haganes I og II og Brautarholt 55,0
 15. Neðra-Haganes og Vík 16,9
 16. Hraun 83,7
 17. Búðartunga 2,1
 18. Lambanesreykir 22,6
 19. Lambanes 47,4
 20. Illugastaðir 36,1
 21. Brúnastaðir 24,9

Samtals: 1000,00

Reykjavík, 29. janúar 2001

_______________________

Gunnlaugur Claessen

________________________ __________________________

Þorsteinn Þorsteinsson Sveinbjörn Dagfinnsson

Yfirmatsmenn samkvæmt lögum um lax- og silungsveiði.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn