Hoppa yfir valmynd
15. nóvember 2001 Matvælaráðuneytið

Yfirlit um aðgerðir gegn brottkasti. 15.11.01

Fréttatilkynning
Brottkast




Almennt
Hér á eftir verður gerð grein fyrir þeim aðgerðum sem stjórnvöld hafa beitt sér fyrir á síðasta rúmu ári til að koma í veg fyrir brottkast og meta umfang þess. Verður þessum aðgerðum skipt niður í þrjá þætti: 1) Mat á umfangi brottkasts. 2) Aukið og endurskipulag eftirlit og 3) Lagabreytingar sem gerðar hafa verið eða eru til umfjöllunar og miða að því að koma í veg fyrir brottkast. Það skal þó lögð sérstök áhersla á, að þessir þættir hafa verið unnir samhliða og þegar í upphafi var Fiskistofu falið að beina kröftum sínum sérstaklega að því að koma í veg fyrir brottkast og var eftirlit Fiskistofu styrkt með ráðningu fimm eftirlitsmanna.

I. Mat á umfangi brottkasts.
Á síðasta voru voru kynntar niðurstöður tveggja kannana um brottkast. Var þar annarsvegar um að ræða könnun sem unnin var á vegum Gallup og byggði á símviðtölum við 1.638 starfandi sjómenn á öllum tegundum fiskiskipa og hinsvegar könnun sem unnin var á vegum brottkastsnefndar og byggði á samanburði á mælingun á veiddum afla um borð í veiðiskipum og lönduðum afla.

Má rifja upp að samkvæmt Gallupkönnuninni var talið að heildarbrottkast botnfiskafla á Íslandsmiðum væri nálægt 27 þús. lestum og af því magni væri þorskur um það bil 15 þús. lestir.

Samkvæmt könnun brottkastsnefndar taldist brottkast í þorski vera á bilinu 2,3% - 9,2% af veiddum afla. Kom þar fram að brottkast þorsks hefur aukist mjög við dragnótaveiðar á undanförnum árum, er mjög breytilegt milli ára við færaveiðar en er tiltölulega jafnt milli ára við línu- og botnvörpuveiðar. Hámarksbrottkast er miðað við þau ár þegar brottkastið er mest við færa- og dragnótaveiðar. Má nefna að tölur um brottkast við dragnótaveiðar fari jafnvel yfir 60%. Varðandi ýsu virðist brottkastið vera tiltölulega jafnt milli ára og er ekki mikill munur á veiðarfærum í því efni. Reiknaðist það um það bil 23% af fjölda veiddra fiska eða rétt um 10% af afla upp úr sjó og er því heldur hærra en hámarksbrottkastið er áætlað í þorski.

Varðandi könnun brottkastsnefndar er rétt að árétta að allmikið vantaði á að fullnægjandi mælingar lægju fyrir um afla, sem fenginn var í tiltekin veiðarfæri. Þá er talið nauðsynlegt að samræma ýmsa þætti mælinganna og tryggja að þær taki til flotans í heild þannig að þær gefi nákvæmari heildarmynd. Ákveðin áætlun hefur verið unnin um það hvernig Fiskistofa skuli standa að samræmdum mælingum, bæði á sjó og landi, þannig að sem gleggstar upplýsingar fáist um öll veiðarfæri sem notuð eru hér við land. Ennfremur munu mælingarnar taka til fleiri fisktegunda. Er þess vænst að um næstu áramót megi fá nákvæmari ábendingar um brottkast með þessari aðferð. Er talið að markviss söfnun upplýsinga með þessum hætti geti gefið allgóðar upplýsingar um magn brottkasts og jafnframt aukið möguleika veiðieftirlitsins til að grípa til sértækra aðgerða gagnvart þeim sem stunda brottkast.

II. Aukið eftirlit með veiðum.
1. Samvinna Fiskistofu og Landhelgisgæslunnar hefur verið aukin verulega og gengur vel. Það styrkir eftirlitið mjög og gerir það virkara að hafa aðgang að skipum gæslunnar.
2. Síðan haustið 2000 hafa verið ráðnir tíu veiðieftirlitsmenn til Fiskistofu sem sinna eiga sérstaklega þessu verkefni. Hefur starf Fiskistofu m.a. vegna þessa verið endurskipulagt og miðað við að leggja sérstaka áherslu á eftirlit með brottkasti.
3. Nefna má að brottkastsnefnd taldi að mjög árangursríkt til eftirlits væri ef unnt væri að flokka fisk eftir stærðum um borð í veiðiskipum þannig að við löndun lægi fyrir stærðarsamsetning hverrar veiðferðar. Með því móti fengi Fiskistofa strax ábendingar ef afli eins báts skæri sig úr afla annarra báta, hvað stærð fisksins varðaði. Fiskistofa hefur þegar við löndun skipa upplýsingar um aflasamsetinguna og það mundi styrkja eftirlitshlutverk hennar ef upplýsingar um stærð fisksins lægju jafnframt fyrir. Þessi tillaga er enn til skoðunar.
4. Lögð hefur verið sérstök áhersla á að vakta svæði þar sem mikið er um smáfisk Fram hafa farið athuganir á notkun smáfiskaskilju og reglum um útbúnað hennar breytt þannig að þær skilji betur út smáfisk. Til athugunar eru tillögur um að taka aftur upp 155 mm riðil í trollpoka á ákveðnum svæðum.
5. Ljóst er að ákveðnar veiðiaðferðir þarfnast sérstaks eftirlits. Til umfjöllunar eru humarveiðar, en sérstök þörf er að fylgjast með humarveiðum, bæði vegna þess að humartrolli er beitt á veiðislóð þar sem mikið eru um smáýsu og eins vegna þeirrar möskvastærðar sem notuð er í humartroll. Þá hefur Fiskistofu verið falið að gera sérstaka úttekt á dragnótaveiðum, þar sem vísbendingar sýna að við þær veiðar sé brottkast hvað mest. Þá er ljóst að kvótalitlir bátar og bátar með aflaheimildir í fáum tegundum er hópur sem fylgjast þarf sérstaklega með.

lll. Lagabreytingar
Breyting hefur verið gerð á lögum um umgengni um nytjastofna sjávar, þar sem gert er ráð fyrir því að Fiskistofa hafi heimildir til að setja eftirlitsmann um borð í veiðiskip á kostnað útgerðar, telji hún ástæðu til að athuga veiðar þess frekar þar sem afli þess sé frábrugðinn afla annarra skipa, sem stunda sambærilegar veiðar.

Þá hefur verið lagt fram á Alþingi frumvarp um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða þar sem m.a. er gert ráð fyrir því að veiðiskip geti í hverri veiðiferð komið með að landi allt að 5% af afla veiðiferðarinnar sem reiknist ekki til afla skipsins. Andvirði þess afla, sem selja skal á opinberu uppboði, renni til Hafrannsóknastofnunarinnar að öðru leyti en því að 10 kr. fyrir hvert kg komi í hlut áhafnar og útgerðar vegna vinnu og kostnaðar. Þá má nefna að í sama frumvarpi eru jafnframt ákvæði sem heimila að skipt sé á almennu aflamarki og krókaaflamarki. Með þessum hætti gefst útgerðum krókaaflamarksbáta frekari kostur á að afla sér heimilda í tegundum sem þeir hafa lítið aflamarki í og yrði að öðrum kosti hent í hafið aftur.

Að lokum má svo nefna að samþykkt hefur verið í ríkisstjórninni að leggja fram lagafrumvarp um að felld verði niður gildandi heimild til að henda skemmdum fiski í sjóinn. Ástæða þess er sú að þessi heimild dregur mjög úr virkni eftirlits þar sönnunarbyrðin um að fiskurinn sé nýtanlegur hvílir á eftilirlitsaðila. Af þessu leiðir að sönnun á óleyfilegu brottkasti verður vart við komið nema játning þess sem ásakaður er um brottkast liggi fyrir. Með slíkri breytingu verður eftirlit með brottkasti gert markvissara. Hugmyndin er að hinn verðlitli afli reiknist ekki til aflamarks skipsins enda verði hann einungis nýttur til bræðslu.

Að lokum skal minnst á þau heimildarákvæði sem gildandi lög geyma og eru fyrst og fremst til þess sett að sjómenn hendi ekki afla.

1. Framseljanlegar aflaheimildir eru vitanlegan meginatriði því það opnar möguleika útgerða til að afla sér heimilda sem þær þurfa til að mæta veiðum skipa sinna. Væntanlegar lagabreytingar um heimild til skipta á almennu aflamarki og krókaaflamarki stefna að sama marki.
2. Heimild til breytinga milli tegunda sem nemur 5% af heildarverðmæti botnfisksaflamarks. Þessi heimild hafði að hluta til verið nýtt til að auka markvisst veiðar á tilteknum fisktegundum og var því breyting gerð á henni í upphafi þessa fiskveiðiárs til að hún nýttist frekar í tilgangi, sem að var stefnt í upphafi.
3. Ákvæði um að heimilt sé að veiða allt að 5% umfram á einu ári gegn því að sá afli komi til frádráttar á því næsta þjónar að vissu leyti sama markmiði og tegundatilfærsluheimildin.
4. Undirmálsfiskur er utan kvóta að hálfu enda fari hann ekki yfir 10% af afla veiðiferðar. Heimildin í þorski var í upphafi þessa fiskveiðiárs rýmkuð úr 7% í 10%.
5. Að lokum skal enn nefnt frumvarp sem er til umfjöllunar á Alþingi um að allt að 5% af afla veiðiferðar geti verið utan kvóta og andvirði þess afla renni að mestu til Hafrannsóknastofnunarinnar.
Sjávarútvegsráðuneytinu, 14. nóvember 2001.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum