Hoppa yfir valmynd
23. nóvember 2001 Innviðaráðuneytið

Samningur samgönguráðherra og Hólaskóla um eflingu fjarnáms

Samgönguráðherra undirritaði í dag samning við Hólaskóla um eflingu fjarnáms Ferðamálabrautar skólans.

Samningurinn er til þriggja ára og með tilkomu hans verður Hólaskóla gert kleift að vinna markvisst að því að bjóða upp á meginhluta náms ferðamálabrautar í fjarkennslu við lok samningstímabilsins.

Undanfarin tvö ár hefur verið unnið að þróun fjarnáms við ferðamálabraut Hólaskóla og hafa einstök námskeið verið kennd í fjarnámi. Hafa viðbrögð við fjarnáminu staðfest að mikill áhugi og þörf er fyrir slíkt nám í ferðaþjónustu, enda geta nemendur þá samræmt atvinnu og nám. Um er að ræða árangursríka leið til að opna möguleika fyrir fólki sem þegar starfar að ferðamálum, til að afla sér sérmenntunar á þessu sviði.

Ferðaþjónusta á Íslandi er í afar örum vexti og mikilvægt að vandað sé til verka en auk þess gætt að uppbyggingin sé í samræmi við getu hvers svæðis til að þróa ferðaþjónustu, sem byggist á ábyrgri nýtingu umhverfislegra, félagslegra og menningarlegra þátta svæðisins. Það, að auðvelda fólki víða um land til að mennta sig á sviði ferðamála og ferðaþjónustu, er ein af forsendum þess að auka gæði og framþróun í greininni.

Samningur við Hólaskóla undirritaður

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum