Hoppa yfir valmynd
27. nóvember 2001 Matvælaráðuneytið

Burnham International á Íslandi h.f.

Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti
Nr. 23/2001



Að undanförnu hafa komið í ljós erfiðleikar í rekstri Burnham International á Íslandi hf., m.a. vegna verðfalls á verðbréfaeign félagsins. Að mati Fjármálaeftirlitsins og viðskiptaráðuneytisins er eiginfjárhlutfall félagsins undir lágmarkskröfum skv. 1. mgr. 42. gr. laga nr. 13/1996 um verðbréfaviðskipti.

Stjórn félagsins hefur á undanförnum vikum leitað leiða til að koma eigin fé félagsins í lögmælt horf og hefur Fjármálaeftirlitið veitt félaginu svigrúm í því sambandi í samræmi við 47. gr. laga nr. 13/1996 um verðbréfaviðskipti. Tilraunir félagsins hafa ekki borið árangur.

Með bréfi Fjármálaeftirlitsins til viðskiptaráðuneytisins, dags. í gær, lagði Fjármálaeftirlitið til að starfsleyfi Burnham International á Íslandi hf. yrði afturkallað. Í kjölfar skoðunar ráðuneytisins á málinu taldi ráðuneytið skylt að afturkalla starfsleyfið, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 60. gr. laga um verðbréfaviðskipti nr. 13/1996. Forsvarsmenn fyrirtækisins lýstu sig sammála ákvörðun ráðuneytisins.

Í framhaldi af afturkölluninni mun viðskiptaráðuneytið leggja fram beiðni til Héraðsdóms Reykjavíkur um slit á félaginu í samræmi við 2. mgr. 62. gr. laga um verðbréfaviðskipti nr. 13/1996.

Í samræmi við framangreint hefur skrifstofum Burnham International á Íslandi hf. verið lokað. Mun skipaður skiptastjóri taka við rekstri félagsins og standa vörð um hagsmuni þeirra sem réttindi eiga á hendur félaginu, þ.m.t. séreign fjárvörsluþega.

Reykjavík, 27. nóvember 2001.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum