Hoppa yfir valmynd
13. desember 2001 Dómsmálaráðuneytið

Ávarp dómsmálaráðherra við útskrift lögreglunema

Ávarp dómsmálaráðherra við útskrift lögreglunema
14.12.2001



Skólastjóri og kennarar
Lögreglustjórar
Lögreglunemar
Góðir gestir



Það er mér mikil ánægja að koma hér í dag og vera viðstödd brautskráningu lögreglunema.

Ég hef að undanförnu fylgst með því, hvernig lögregluskólinn verður sífellt öflugri menntastofnun, sem skilar okkur áfram á braut réttarríkis á Íslandi, ríkis sem búið getur borgurum sínum öryggi og frið.

Þegar við komum saman nú eru rúmir þrír mánuðir liðnir frá miklum hryðjuverkum í bandalagsríki okkar vestan Atlantsála, Bandaríkjunum. Á þessum þriggja mánaða tíma höfum við orðið vitni að gagngeru endurmati á öryggismálum þróaðra samfélaga eins og ríki Vesturlanda eru. Skyndilega er mönnum ljóst að venjulegar hervarnir eru ekki nægileg vörn til þess að tryggja almenningi öryggi fyrir utanaðkomandi ógnunum. Til sögunnar hefur nú komið ný og alvarleg ógn, ógnin frá hermdarverkamönnum, sem hyggjast ná markmiðum sínum með því að skapa ótta og upplausnarástand með skyndilegum árásum á saklausa borgara. Vissulega hafa hermdarverk tíðkast áður, en hér hefur orðið stigbreyting sem enginn sér fyrir endann á. Og til þess að mæta þeirri ógn, er ekkert tiltækt ráð betra en efling löggæslunnar. Hvarvetna um lönd verðum við nú vitni að löggjafarbreytingum og löggæslueflingu sem beinist að því marki að bæta aðstöðu lögreglunnar til þess að hafa upp á og uppræta starfsemi hermdarverkamanna.

Hjá samstarfsríkjum okkar í varnar- og viðskiptamálum er nú einnig unnið að því að koma upp sveitum löggæslumanna til þess að efla friðargæslu á svæðum þar sem átök hafa nýverið átt sér stað og þar sem í kjölfar þeirra verður að verja veikburða þjóðfélagsstofnanir og allan almenning fyrir yfirgangi löglausra ofbeldisafla. Við höfum þegar sent allnokkra lögreglumenn til starfa á Balkanskaga og þeir hafa í störfum sínum þar verið íslensku lögreglunni og íslensku þjóðinni til sóma. Á þessum misserum hefur í auknum mæli verið leitað til okkar Íslendinga um þátttöku í slíku friðargæslustarfi og í framtíðinni verður væntanlega reynt að verða við þeim beiðnum eftir því sem aðstæður leyfa.

Baráttan gegn hryðjuverkum og aukið starf lögreglunnar við friðargæslu eru góð dæmi um aukið mikilvægi löggæslunnar á okkar tímum. Og til þess að leysa þessi verkefni þurfum á úrvalsstarfsliði að halda, starfsliði sem er vel menntað, vel þjálfað og sem leggur áherslu á fyrsta flokks fagmennsku í öllum þeim fjölbreyttu verkum sem hér um ræðir.

Við erum á réttri leið. Skipulagi lögregluskólans var gjörbreytt með VIII. kafla núgildandi lögreglulaga, sem gildi tóku 1. júlí 1997 og síðan hefur skólinn verið stöðugt að eflast. Að þeim meðtöldum, sem nú verða brautskráðir hafa alls 144 lögreglumenn útskrifast frá skólanum frá setningu lögreglulaganna og símenntunarstarf fyrir lögregluna í landinu á hans vegum hans eykst stöðugt. Ég get heldur ekki látið hjá líða að minnast á það sérstaka átak í landamæravörslu og afbrotavörnum sem gert var í sambandi við gildistöku Schengen-samningsins. Þar var lögregluskólinn í lykilhlutverki og skilaði því svo að eftir var tekið á alþjóðavettvangi.

Lögreglulið landsmanna þarf að endurspegla samsetningu þjóðarinnar eftir kynjum eins og framast er unnt. Þegar lögreglulögin voru samþykkt á árinu 1996 voru 4% lögreglumanna í landinu konur. Síðan hefur markvisst verið unnið að því að hækka það hlutfall. Árið 1998 er skólinn brautskráði fyrst nemendur eftir gildistöku laganna voru einungis 16 nemar brautskráðir og þar af voru 3 konur. Þetta var raunar síðasti hópur sem kom í skólann skv. "gamla kerfinu", þegar lögreglustjórar réðu menn sem þeir sendu í skólann.

Árið 1999 , er skólinn fyrst brautskráði nemendur eftir gildistöku lögreglulaganna voru alls 27 nemendur brautskráðir og þar af 8 konur.

Á síðasta ári voru tveir hópar brautskráðir vegna skipulagsbreytinga á náminu og þá voru alls 62 nemendur brautskráðir og þar af 10 konur.

Í dag munu hér vera brautskráðir 39 nemendur og þar af eru 6 konur.

Skv. þessari upptalningu hafa frá deginum í dag að telja alls verið brautskráðír 144 lögreglumenn frá Lögregluskóla ríkisins. Af þeim fjölda eru 27 konur eða 18,75%.

Ég tel þetta góðan árangur, þótt betur megi gera ef duga skal. Ég vil í þessu sambandi nefna að valnefnd skólans er búin að velja þá sem koma til með að hefja nám við skólann í byrjun febrúar og er gert ráð fyrir að þeir verði 48 talsins. Af þeim sem valdir hafa verið í þetta skiptið eru 13 konur eða 27% nemenda.

Ráðuneytið hefur verið haft með í ráðum um fjölgun nemenda í skólanum en hún helgast m.a. af því að í nýjum kjarasamningum lögreglumanna er gert ráð fyrir að þeir geti hætt störfum og farið á eftirlaun 65 ára. Meðalaldur lögreglumanna hefur farið hækkandi og allhröð endurnýjun í stéttinni mun þess vegna eiga sér stað á næstu árum, auk þess sem búast má við auknum verkefnum eins og ég áður nefndi.

Góðir áheyrendur,

Ég vil ljúka máli mínu með því að þakka skólastjóra, skólanefnd og starfsliði lögregluskólans fyrir vel unnin störf um leið og ég óska ykkur sem nú eruð brautskráðir allrar farsældar í hinum mikilvægu og erfiðu störfum sem þið eigið eftir að takast á herðar. Það er ekki markmið lýðveldisins að koma hér á lögregluríki. En ríki okkar er engu að síður óhugsandi án löggæslu á ýmsum sviðum og við skulum ávallt kappkosta að hún verði innt af hendi af úrvalssveit þjálfaðra og vel menntaðra manna og kvenna, í samræmi við lög landsins og fyllstu mannréttindi þegnanna.
Þannig tryggjum við öryggi borgaranna í réttarríki okkar.

Þið munuð brátt hefja störf í slíkri sveit sem fullgildir félagar og þið skuluð ávallt vera stolt af því og láta okkur hin vera stolt af ykkur.


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum