Hoppa yfir valmynd
13. desember 2001 Matvælaráðuneytið

Úrskurður í stjórnskýrslukæru, 13.12.01

Fréttatilkynning
frá sjávarútvegsráðuneyti


Sjávarútvegsráðuneytið hefur úrskurðað í stjórnsýslukæru Tálkna ehf vegna ákvörðunar Fiskistofu frá 27. nóvember 2001 um að svipta Bjarmi BA-326 leyfi til veiða í atvinnuskyni í 8 vikur frá 1. desember að telja. Ákvörðun Fiskistofu er staðfest.

Fiskistofa byggði á viðurkenningu skipstjórans á að hluta af afla skipsins hafi verið kastað fyrir borð, en 10. og 11. nóvember birtust myndir í sjónvarpi og dagblöðum af brottkasti í óþekktu fiskiskipi. Skipstjóri Bjarma, Níels Ársælsson viðurkenndi þann 12. nóv. að myndirnar hefðu verið teknar um borð í Bjarma.

Kröfur kærenda voru að ákvörðun Fiskistofu yrði felld úr gildi. Til vara, að ákvörðun Fiskistofu yrði felld úr gildi þar til niðurstaða opinberrar rannsóknar á meintu lögbroti lægi fyrir, og til þrautavara að veiðileyfissviptingin yrði stytt úr 8 vikum í 2 vikur.

Í stjórnsýslukæru útgerðar Bjarma er því borið við að ekki sé sannað að 2. gr. laga nr. 57/1997 hafi verið brotin en hún kveður m.a. á um að skylt sé að hirða eða koma með að landi allan aflann en þó heimilt að varpa fyrir borð afla sem er sýktur, selbitin eða skemmdur á annan hátt. Hent hafi verið 40 þorskum ca. 70 kg. sem hafi verið sýktir af hringormi sem sjáist augljóslega enda veiðislóðin alþekkt selaslóð. Kærandi segir að myndatakan hafi verið sviðsett eingöngu í þeim tilgangi að skapa umræðu um gildandi fiskveiðistjórnunarkerfi vegna meints brottkast. Brotinn sé réttur til tjáningarfrelsis sem varin er í stjórnarskrá. Opinber ummæli skipstjórans um "alveg svakalegt lögbrot" hafi verið rangt eftir honum höfð og misskilin og er því mótmælt að íþyngjandi ákvörðun sé byggð á óstaðfestum og röngum ummælum í dagblaði. Ákvörðun Fiskistofu sé óþolandi með hliðsjón af því að meint brottkast hafi jafnframt verið kært til opinberrar rannsóknar og í hinni kærðu ákvörðun felist refsiviðurlög áður en málið er fullrannsakað. Efast er ennfremur um að ákvæði laga um umgengni um nytjastofna sjávar um að Fiskistofa rannsaki mál og kveði upp úrskurði í formi veiðileyfissviptinga standist ákvæði stjórnarskrár og mannréttindasáttmála um réttláta málsmeðferð. Kærandi byggir þrautavarakröfu, á að brotin hafi verin meðahófsregla stjórnsýslulaga.

Í rökstuðningi með ákvörðun ráðuneytisins er bent á að fyrir liggi sjónvarpsupptökur af brottkasti af Bjarma og teljist fullsannað að brottkast hafi átt sér stað þar. Ráðuneytið felst á það mat Fiskistofu að útilokað sé að hringormur í fiskinum sem hent var, hafi leitt til þess að hann teldist sýktur í skilningi ákvæðis laganna og aðferðin við brottkastið sýni að áhöfn Bjarma hafi ekki getað gengið úr skugga um að fiskurinn væri sýktur. Hafnað er því, að lagaskilyrði fyrir veiðileyfissviptingu hafi ekki verið fyrir hendi. Ráðuneytið tekur undir með Fiskistofu að ólögmætt brottkast á kvótabundnum tegundum sé brot sem telja verði alvarlegs eðlis enda höggvi það að rótum fiskiveiðistjórnunarkerfisins og um leið að möguleikum á að stjórna veiðum úr fiskistofnum við landið. Lengd sviptingar fari eftir eðli og umfangi brots og teljist sannað að um ásetningsbrot hafi verið að ræða. Ráðuneytið telur að framkvæmd Fiskistofu sé í fullu samræmi við ákvæði laganna nr. 57/1996, en ekki sé í verkahring ráðuneytisins að fjalla um hvort lög sem sett eru af Alþingi standist kröfur sem gerðar eru til laga. Bent er hinsvegar á ítarlega umfjöllun umboðsmanns Alþingis frá október 2000 um líkt mál, þar sem gerður er greinarmunur á sviptingu opinbers leyfis til að stunda tiltekna atvinnustarfsemi og refsingum eins og fjársektum og fangelsi. Þar segir að þótt svipting geti haft íþyngjandi áhrif geti slík ráðstöfun ekki talist refsing í merkingu 1. mgr. 70 greinar stjórnarskrárinnar eða mannréttindasáttmála Evrópu.
13.desember 2001


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum