Hoppa yfir valmynd
18. desember 2001 Matvælaráðuneytið

Hámarksafli úthafsrækju, 17.12.01

FRÉTTATILKYNNING


Ráðuneytinu hafa borist tillögur Hafrannsóknastofnunarinnar um endurskoðun á leyfilegum hámarksafla á úthafsrækju á fiskveiðiárinu 2001 til 2002. Niðurstöður úr líkönum Hafrannsóknastofnunarinnar benda til að stofn úthafsrækju hafi aukist verulega frá árinu 2000 og muni árið 2002 verða nálægt því sem hann var á árunum 1992 -1993. Þó vísitölur stofnastærðar rækju hafi verið þær sömu árið 2001 og 2000 hefur kvendýravísitala rækju aukist um 18%. Nýliðun samkvæmt mælingum bendir til þokkalegrar nýliðunar árið 2002 eða svipaðrar og árið 2001. Afli á togtíma (staðlaður) fyrir norðan land hefur hækkað um 40% frá árinu 2000 til 2001.

Hafrannsóknastofnunin leggur til að leyfilegur hámarksafli á fiskveiðiárinu 2001 til 2002 verði 35 þúsund lestir. Í upphafi yfirstandandi fiskveiðiárs var gefinn út 17 þús. tonna bráðabirgðakvóti.

Í endurskoðaðri þjóðhagsáætlun Þjóðhagsstofnunar er gert ráð fyrir að verðmæti útfluttra sjávarafurða nemi 122 milljörðum kr. á árinu 2002. Gera má ráð fyrir að hækkun á leyfilegum hámarksafla á úthafsrækju á fiskveiðiárinu í 35 þúsund tonn auki útflutningsverðmætið um rúmlega þrjá milljarða þ.e. úr 122 milljörðum í 125. Þá munu auknar veiðiheimildir ásamt bættum aflabrögðum væntanlega leiða til betri afkomu í rækjuveiðum á árinu 2002.
Sjávarútvegsráðuneytið
17. desember 2001


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum