Hoppa yfir valmynd
18. desember 2001 Dómsmálaráðuneytið

Heimsráðstefna gegn kynferðislegri misnotkun barna

Heimsráðstefna gegn kynferðislegri misnotkun barna

Fréttatilkynning

Nr. 45/ 2001



Í gær hófst 2. heimsráðstefna Sameinuðu þjóðanna gegn kynferðislegri misnotkun barna í ágóðaskyni í Yokohama í Japan (2nd. World Congress against Commercial Sexual Exploitation). Að ráðstefnunni standa ríkisstjórn Japan, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) og frjáls félagasamtök sem vinna að réttindum barna. Af hálfu Íslands sækir Sólveig Pétursdóttir dóms- og kirkjumálaráðherra fundinn í Yokohama.

Ráðstefnan er framhald heimsráðstefnu um sama efni sem haldin var í Stokkhólmi í ágústmánuði 1996. Þar var samþykkt yfirlýsing um víðtæka aðgerðaáætlun til þess að berjast gegn kynferðislegri misnotkun barna, einkum skipulögðu vændi barna og barnaklámi. Sólveig Pétursdóttir sagði í ræðu sem hún flutti á ráðstefnunni síðdegis í gær að þjóðir heims hefðu sameinast um mikilvægar aðgerðir til þess að berjast gegn kynferðislegri misnotkun barna fyrir fimm árum í Stokkhólmi. Nú væri tímabært að strengja ný heit til þess að færast nær sameiginlegu markmiði þjóðanna. Nefndi Sólveig fjögur lykilatriði sem forsendur fyrir því að árangur næðist. Í fyrsta lagi þyrftu ríkin að fullgilda alþjóðasamninga á þessu sviði sem beinast gegn kynferðislegri misnotkun barna, þar sem í þeim væri að finna skilgreiningar og viðmið sem ríkin geta nýtt til þess að samræma löggjöf og aðgerðir í baráttu við glæpi sem ekki virða nein landamæri. Í öðru lagi þyrfti hvert ríki um sig að grípa til aðgerða heima fyrir og fjallaði hún meðal annars um lagabreytingar á Íslandi til þess að sporna við dreifingu barnakláms. Í þriðja lagi væri brýnt að veita lögreglu nægilega tæknilega þekkingu og þau tæki sem nauðsynleg eru til þess að hafa uppi á þeim sem misþyrma börnum. Það gæti hins vegar verið vandasamt, t.d. að hafa uppi á framleiðendum barnakláms sem oft starfa ekki þar sem efninu er dreift. Þetta endurspeglaði alþjóðlegt eðli þess vanda sem við væri að eiga og undirstrikaði í fjórða lagi þörfina fyrir aukna alþjóðlega lögreglusamvinnu á þessu sviði.

Á ráðstefnunni var sérstaklega kynnt samstarf Norðurlandanna og ríkja við Eystrasaltið á þessu sviði og kynnti dómsmálaráðherra þar breytingar sem gerðar hafa verið á löggjöf sem snýr að rannsókn mála þar sem grunur hefur vaknað um kynferðislega misnotkun barns. Lýsti hún þeirri aðstöðu til viðtala við börn sem komið hefur verið á fót í Barnahúsi og við héraðsdómstóla. Dómsmálaráðherra sótti jafnframt ráðherrafund sem Takamado prinsessa, verndari ráðstefnunnar, boðaði til. Ráðherrarnir lýstu þar stöðu mála í heimaríkjum sínum og aðgerðum sem gripið hefur verið til.

Fulltrúar 138 ríkja sækja ráðstefnuna í Yokohama auk fulltrúa fjölmargra alþjóðastofnana og félagasamtaka. Markmið ráðstefnunnar er að fara yfir það sem áunnist hefur á undanförnum árum í baráttunni gegn kynferðislegri misnotkun barna og leggja drög að næstu aðgerðum. Stefnt er að því að ríkin samþykki sérstaka yfirlýsingu þar sem lýst verði næstu skrefum í samstilltu átaki ríkja á þessu sviði, bæði á alþjóðlegum vettvangi og innan hvers ríkis. Ráðstefnunni lýkur 20. desember n.k.


Í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu,
18. desember 2001.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum