Hoppa yfir valmynd
19. desember 2001 Dómsmálaráðuneytið

Fundur dómsmálaráðherra Íslands og Japan.

Fundur dómsmálaráðherra Íslands og Japan.

Fréttatilkynning

Nr. 46/ 2001



Sólveig Pétursdóttir dóms- og kirkjumálaráðherra átti í dag fund með Mayumi Moriyama dómsmálaráðherra Japan. Á fundinum sem fór fram í dómsmálaráðuneyti Japans í Tokyo ræddu ráðherrarnir um aðgerðir gegn kynferðislegri misnotkun barna, baráttuna gegn hryðjuverkum og almennt um samskipti þjóðanna.

Ráðherrarnir ræddu um viðfangsefni heimsráðstefnunnar um kynferðislegt ofbeldi gegn börnum sem nú fer fram í Yokohama og Sólveig sækir fyrir Íslands hönd. Ráðherrarnir voru sammála um að aukið alþjóðlegt samstarf væri mikilvæg forsenda fyrir því að árangur næðist á þessu sviði. Japanir hafa á undanförnum árum gert viðamiklar breytingar á refsilöggjöf sinni til þess að takast á við kynferðislega misnotkun barna og nær refsilögsagan til slíkra afbrota gegn börnum sem japanskir ríkisborgarar fremja erlendis. Þar er að mörgu leyti um að ræða sambærilegar breytingar og gerðar hafa verið á íslenskri löggjöf, svo sem lögfesting ákvæða um viðurlög við framleiðslu og dreifingu barnakláms og bann við kaupum á kynlífsþjónustu barna innan 18 ára en slíkt frumvarp er einmitt nú til meðferðar á Alþingi Íslendinga. Jafnframt kynnti Sólveig aðstöðu til viðtala við börn í barnahúsi og við héraðsdómsstóla og þær breytingar sem gerðar hafa verið á lögum um meðferð opinberra mála sem ætlaðar eru til þess að tryggja að málsmeðferð íþyngi börnum ekki meira en nauðsynlegt er. Kom fram að sambærilegar breytingar hefðu nýlega verið gerðar á japanskri réttarfarslöggjöf og aðstaða til skýrslutöku af börnum verið stórlega bætt.

Japanir hafa reynslu af alvarlegum hryðjuverkum og ræddi japanski dómsmálaráðherrann meðal annars um saksóknina gegn þeim sem stóðu fyrir dreifingu á eitruðu gasi í neðanjarðarlestarkerfi Tokyo fyrir nokkrum árum en málið er enn til meðferðar í dómskerfinu. Ráðherrarnir voru sammála um að hryðjuverkin í Bandaríkjunum 11. september hefðu víðtæk áhrif og þjóðir heims þyrftu að sameinast í baráttunni gegn hryðjuverkum, meðal annars með samræmingu á löggjöf og aðgerðum. Japanir hafa fullgilt samninga Sameinuðu þjóðanna um hryðjuverk og fjármögnun þeirra og vinna að því að færa löggjöf sína til samræmis við þær skuldbindingar sem í þeim felast. Á Íslandi er nú unnið að frumvarpi sama efnis sem innan tíðar verður lagt fyrir Alþingi. Ráðherrarnir voru sammála um að setja þyrfti sérstaka refsilöggjöf og rannsóknarheimildir sem snúa að fjármögnun hryðjuverkastarfsemi. Kom jafnframt fram í máli Moriyama að Japanir hefðu hert eftirlit við landamæri eftir atburðina 11. september sl.

Mayuma Moriyama er lögfræðingur að mennt og á langan feril að baki í japönskum stjórnmálum. Hún var fyrst kosin á þing 1980 og hefur gegnt ýmsum embættum, þar á meðal sem aðstoðarforsætisráðherra og menntamálaráðherra. Hún er fyrsta konan sem gegnir embætti dómsmálaráðherra í Japan og hefur gegnt því frá apríl 2001.


Í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu,
19. desember 2001.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum