Hoppa yfir valmynd
18. janúar 2002 Matvælaráðuneytið

Virðisaukning í sjávarútvegi. 18.01.02

Fréttatilkynning


Í nóvember árið 1999 skipaði sjávarútvegsráðherra nefnd undir formennsku Einars Kristins Guðfinnsonar alþingismanns, sem var falið að skoða framtíðarmöguleika fiskvinnslunnar. Verksvið nefndarinnar var umfangsmikið en það snéri einkum að því að leggja mat á stöðu greinarinnar, líklega framtíðarþróun hennar og gera tillögur sem ætla má að bæta muni stöðu hennar. Tillögur nefndarinnar eru í níu liðum og þær fjalla m.a. um hvernig auka megi framboð af fiski til vinnslu hér á landi, sem ella færi til vinnslu annars staðar, verðmætaaukningu og nýsköpun, menntunarmál og kynningarstarfsemi. Í framhaldi af tillögunum fól ráðherra Rannsóknarstofnun fiskiðnaðarins að vinna greinargerð um það með hvaða hætti vinna varðandi veðmætaaukningu sjávarfangs og nýsköpun í greininni gæti farið fram.

Stofnunin hefur nú skilað tillögum sínum sem eru:

· Að mynda AVS stýrihóp 5-8 með sérhæfðan starfsmann á árinu 2002
· AVS hópur leggi fram aðgerðaáætlun um að auka verðmæti sjávarfangs með tilteknum hætti á 5 ára tímabili, hugsanlega með 10 ára markmið samhliða
· Stýrihópur skili niðurstöðum til ráðherra í lok október 2002
· AVS stýrihópur samanstæði af fólki sem hefði þekkingu, hagsmuni, áhuga og tíma til að vinna markvisst
· Leitað yrði til sérfræðinga og hagsmunaaðila á hverju sviði samhliða
· Áætla þarf útgjöld við störf AVS hópsins
· Á árinu 2002 þarf að leggja af stað með tiltekin verkefni og rannsóknir sem búa í haginn fyrir 5 ára tímabilið
· Samhliða stýrihópi mætti mynda "fagráð" sem stýrihópur leitaði til. Fagráð gæti komið frá útgerð, vinnslu, sjómönnum og vísindamönnum

Verkefni stýrihópsins á árinu 2002
· Að kortleggja sviðin 6, þ.e. hráefni, vinnsla, aukahráefni, fiskeldi, líftækni, búnaður og þekking, þar sem virðisauki gæti orðið þannig að úr verði "Topp 10" listi tækifæra á hverju sviði
· Að leita fyrirmynda í erlendum verkefnum sama eðlis
· Að ná samstöðu í greininni til átaks um AVS (30 stærstu fyrirtækin ráða 65% þorskígilda)
· Að afmarka þátt rannsókna í AVS á tímabilinu
· Að skilgreina verkefni sem skila myndu virðisauka
· Að gera tillögur um forgangsröðun og framgangsmáta verkefna
· Að benda á leiðir til fjármögnunar verkefna á 5 ára tímabilinu
· Að skilgreina hlutverk stjórnvalda, atvinnugreinarinnar, samtaka og annarra hagsmunaaðila
· Að setja mælanleg markmið fyrir 5 ára átak sjávarútvegsráðherra til aukins verðmætis sjávarfangs. Hvar viljum við vera eftir fimm ár.
· Að kynna AVS vinnuna innanlands og utan eftir atvikum á árinu 2002
· Að gera tillögur um verkefnahópa og stjórn AVS á fimm ára tímabilinu 2003-2007

Ráðherra hefur nú þegar skipað stýrihóp í samræmi við ofangreint og er hann skipaður eftirtöldum aðilum:

Friðrik Friðriksson, formaður stýrihóps
Ágústa Guðmundsdóttir, prófessor í matvælaefnafræði við HÍ
Elínbjörg Magnúsdóttir, sérhæfður fiskvinnslumaður
Guðbrandur Sigurðsson, forstjóri ÚA
Kristján Hjaltason, framkvæmdastjóri markaðsmála SH
Rannveig Sigurðardóttir, hagfræðingur hjá ASÍ
Snorri Rúnar Pálmason, skrifstofustjóri
Úlfar Steindórsson, framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs
Starfsmaður stýrihópsins verður Páll Gunnar Pálsson matvælafræðingur hjá Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins og hefur ráðherra falið stýrihópnum að skila niðurstöðum sínum í september 2002.

Í samræmi við tillögur nefndar um framtíðarmöguleika fiskvinnslunnar verður einnig skipað fagráð sem stýrihópurinn getur leitað til en í því munu m.a. sitja fulltrúar hagsmunasamtaka í greininni.

Þá hefur verið stofnuð ný skrifstofa í ráðuneytinu sem fer með vinnslu sjávarafurða, nýsköpun og þróun eins og fram kemur í nýju skipuriti ráðuneytisins sem kynnt var í síðustu viku. Skrifstofustjóri hennar er Snorri Rúnar Pálmason, sjávarútvegsfræðingur. Þá er í nýju skipuriti lögð aukin áhersla á eldi sjávardýra og mun Kristinn Hugason kynbóta- og stjórnsýslufræðingur sem starfar á skrifstofu afkomu, viðskipta og fiskeldis fara með þau mál.
Sjávarútvegsráðuneytið 18/1, 2002

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum