Hoppa yfir valmynd
1. febrúar 2002 Dómsmálaráðuneytið

Íslenska upplýsingasamfélagið

Íslenska upplýsingasamfélagið, birting lagagagna á netinu

Fréttatilkynning

Nr. 3/2002


Á vegum dómsmálaráðuneytisins hefur birting lagagagna á netinu verið til sérstakrar athugunar. Í þessu skyni hefur meðal annars verið skipuð nefnd til að huga að framtíðarskipulagi á birtingu laga og stjórnvaldserinda og endurskoða gildandi lög á þessu sviði. Verkefni nefndarinnar er meðal annars að undirbúa rafræna birtingu laga, reglna og opinberra tilkynninga á Netinu, en slík birting er liður í því að hrinda í framkvæmd stefnu ríkisstjórnarinnar um málefni upplýsingasamfélagsins.

Á vegum umræddrar nefndar og í samráði við dómsmálaráðuneytið hefur nú verið undirbúin rafræn útgáfa af Stjórnartíðindum og Lögbirtingablaði. Er gert ráð fyrir að Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað verði birt rafrænt á Netinu samhliða því að hinni prentuðu útgáfu verður haldið áfram með hefðbundnum hætti. Þannig mun rafræn útgáfan fela í sér hreina aukaþjónustu og kemur ekki í stað hefðbundinnar útgáfu.

Í ljósi tölvueignar og netnotkunar verða lög, reglur og opinberar tilkynningar mun aðgengilegri öllum almenningi með útgáfu Stjórnartíðinda og Lögbirtingablaðs á Netinu. Þessi útgáfa gerir þeim sem hafa aðgang að Netinu kleift að nálgast lagagögn um leið og þau hafa verið birt. Útgáfan er því vel til þess fallin að ná því markmiði birtingar að efni sem á erindi við allan almenning verði kunnugt og aðgengilegt. Einnig felur útgáfan í sér mikilvæga viðbót við lagasafn á Netinu milli þess sem það er uppfært reglulega með nýrri löggjöf.

Dómsmálaráðherra mun opna vefinn 1. febrúar n.k., kl. 14.00 í Borgartúni 6 (Rúgbrauðsgerðin). Slóðin á vefnum verður www.lagabirting.is. Þar verður einnig hægt að nálgast EES-samninginn.


Í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu,
31. janúar 2002.


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum