Hoppa yfir valmynd
7. febrúar 2002 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Um könnun á Almennri námsbraut

Um könnun á almennri námsbraut haustið 2001



Könnun um almenna námsbraut var send skólameisturum 27 framhaldsskóla með bréfi 20. sept.2001 og um mánaðamótin okt./nóv. höfðu svör borist frá öllum skólunum.


Í gildandi lögum um framhaldsskóla segir svo um Almenna námsbraut: Almenn námsbraut er ætluð nemendum sem ekki hafa gert upp hug sinn varðandi áframhaldandi nám og nemendum sem uppfylla ekki skilyrði til inngöngu á lengri námsbrautir framhaldsskólans. Nám á brautinni getur veitt undirbúning fyrir nám á bók-, list- eða starfsnámsbrautum og getur jafnframt verið hluti af því.

Í Aðalnámskrá framhaldsskóla sem út kom 1999 segir: Hver maður á rétt til menntunar eins og staðfest er í stjórnarskrá íslenska lýðveldisins og mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem Íslendingar eru aðilar að. Til samræmis við þetta er í lögum um framhaldsskóla kveðið á um að allir, sem lokið hafa grunnskólanámi eða hlotið jafngilda undirstöðumenntun, skuli eiga kost á að hefja nám í framhaldsskóla.

Einnig segir: Höfuðskylda framhaldsskóla er að veita nemendum góða alhliða menntun auk þess sem þeim ber að veita nemendum markvissan undirbúning til starfa og áframhaldandi náms í sérskólum og skólum á háskólastigi.

Í Aðalnámskrá segir enn fremur á bls. 15: Skólum ber að gæta jafnréttis nemenda til náms. Þetta felst m.a. í því að bjóða nemendum nám og kennslu við hæfi og gefa þeim tækifæri til að spreyta sig á viðfangsefnum að eigin vali eftir því sem við verður komið....
Eitt mikilvægasta úrlausnarefnið í þessu sambandi er að finna leiðir til að koma til móts við ólíka getu og ólík áhugamál nemenda, þ.e. að veita nemendum menntun við hæfi hvers og eins.

Svo segir enn fremur: Miklu máli skiptir að allir nemendur fái tækifæri til að leggja stund á það nám sem hentar áhuga þeirra, getu og framtíðaráformum....
Skólar skulu því leitast við að draga úr brottfallinu m.a. með skýrari námskröfum til nemenda, aukinni upplýsingamiðlun um námskröfur og störf og fjölbreyttara námsframboði, ekki síst starfsnáms.

Í Aðalnámskrá fyrir framhaldsskóla frá 1999 er almenn námsbraut ekki skilgreind. Rétt þótti að gefa skólum frjálsar hendur við undirbúning hennar svo betur mætti aðlaga hana einstökum skólum og þörfum á hverjum stað.

Um langt skeið höfðu svo kallaðar fornámsdeildir verið starfandi í ýmsum skólum sem bjuggu nemendur undir að geta hafið nám á hefðbundnum brautum skólanna. Fornám sóttu þeir nemendur sem ekki höfðu hlotið nauðsynlegar lágmarkseinkunnir í samræmdum greinum, íslensku, stærðfræði, ensku og dönsku, svo og þeir sem áttu við lestrarörðugleika að stríða eða aðrar hamlanir. Í kjölfar útgáfu Aðalnámskrár 1999 fóru svo skólar af stað með almenna námsbraut.

Könnun ráðuneytisins sl. haust leiddi í ljós að 21 skóli býður uppá almenna námsbraut, einn rekur vísi að henni en fimm hafa ekki stofnað þessa braut. Framhaldsskólar sem bjóða uppá almenna námsbraut eru:
Borgarholtsskóli, Fjölbrautaskólinn við Ármúla, Fjölbrautaskólinn í Breiðholti, Fjölbrautaskólinn í Garðabæ, Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra, Fjölbrautaskóli, Suðurlands, Fjölbrautaskóli Suðurnesja, Fjölbrautaskóli Vesturlands, Flensborg, Framhaldsskólinn í Austur Skaftafellssýslu, Framhaldsskólinn á Húsavík, Framhaldsskólinn á Laugum, Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum, Iðnskólinn í Hafnarfirði, Iðnskólinn í Reykjavík, Menntaskólinn á Ísafirði, Menntaskólinn í Kópavogi, Verkmenntaskólinn á Akureyri,Verkmenntaskóli Austurlands, Vélskóli Íslands. Menntaskólinn við Sund rekur vísi að almennri námsbraut. Hjá flestum skólanna er skólaárið 2001 – 2002 annað árið sem sem boðið er uppá þennan valkost. Fjórir fyrrgreindra skóla eru að reka námsbrautina í fyrsta sinn.

Kvennaskólinní Reykjavík, Menntaskólinn á Akureyri, Menntaskólinn við Hamrahlíð, Menntaskólinn á Laugarvatni og Menntaskólinn í Reykjavík bjóða ekki uppá almenna námsbraut.

Hverjir fara á almenna námsbraut?
Eins og áður segir er það höfuðskylda framhaldsskóla að veita nemendum góða alhliða menntun svo og að veita markvissan undirbúning til starfa og frekara náms. Greinin sem vitnað er til hér á undan úr lögum um framhaldsskóla fjallar ekki um almenna námsbraut eingöngu sem leið fyrir þá sem þurfa frekari undirbúning undir nám í framhaldsskóla. Þar á einnig að gefa kost á námsleið sem tekur mið af áhugamálum, getu og framtíðaráformum eins og segir í Aðalnámskrá.

Í könnun ráðuneytisins kemur fram að um skólavist á almennri námsbraut sækja einkum þeir nemendur sem þurfa aukinn undirbúning til þess að geta haldið áfram á venjulegum brautum innan skólans. Markmið með almennri námsbraut ætti því að vera að búa nemendur undir frekara skólanám, finna námsleið við hæfi og leiðbeina þeim um frekara nám eða starf.

Fram kemur í könnuninni að sumir skólar bjóða upp á tveggja ára nám á almennri námsbraut en aðrir eins vetrar. Námsbrautinni er yfirleitt skipt í tvennt (einstaka sinnum þrennt), aðalhópar eru því hópar 1 og 2. Í hóp 1 fara þeir sem ekki hafa náð einkunninni 5 á samræmdu prófi, eða samræmdu prófi og skólaeinkunn, í íslensku, ensku, dönsku og stærðfræði en í hóp 2 þeir sem ekki hafa næga undirstöðu í einni eða tveimur þessara greina.

Nemendur eru oft 15 – 16 í hóp en færri í sumum. Fyrir kemur að áfangar eru samnýttir ef um mjög fámenna hópa er að ræða. Einingar á önn eru að jafnaði 15 eða ögn færri en nemendur annarra námsbrauta taka að meðaltali. Samt sem áður verður að telja að einingafjöldi á almennri námsbraut sé oft á tíðum full mikill þegar tekið er tillit til undirstöðu nemenda í námi og samsetningar hópsins. Greinilegt er á könnun ráðuneytisins að fremur lítið svigrúm gefst fyrir valgreinar. Því má líka velta fyrir sér hvort 15 manna hópar séu ekki of fjölmennir þegar nemendur eiga í hlut sem þurfa mikla aðstoð. Nemendum er yfirleitt ekki synjað um inngöngu á almenna námsbraut en sé það gert
eru ástæður þær að nemendur eru búsettir utan skólahverfis eða brautin er talin fullmönnuð.

Þar sem stutt er síðan almenn námsbraut hóf göngu sína hefur takmörkuð reynsla fengist af rekstri hennar. Lítið er vitað um það hve margir nemendur halda áfram námi á öðrum brautum. Þó er vitað að nokkur fjöldi hefur haldið áfram í þeim skólum sem eru að reka brautina annað árið í röð en nákvæmar tölur skortir. Ekki er heldur vitað hvað verður um þá sem hætta á almennri námsbraut. Fróðlegt væri að vita hvernig nemendasamsetningin er og hversu margir halda áfram námi. Velta má fyrir sér hve margir heltast úr lestinni og hvert þeir fara. Ekki er vitað hvernig nemendum gagnast undirbúningur á almennri námsbraut ef þeir kjósa að halda áfram námi á öðrum brautum skólans eða í öðrum skólum. Í þessu sambandi er og rétt að velta fyrir sér hvort tveggja ára nám á almennri námsbraut er ekki full langur tími til að láta á það reyna hvort nemendur geta eða vilja halda áfram námi, nemendur sem hafa takmarkaðan grunn að baki.


Inntak náms.
Á almennri námsbraut er lögð áhersla á að bæta við kunnáttu í grunngreinunum, íslensku, stærðfræði, ensku og dönsku, og kenndir eru undirstöðuáfangar í greinunum. Víða er bætt við aukinni lestrarþjálfun, náms- og starfsfræðslu, lífsleikni, námstækni. Þessir þættir eru liður í aukinni sjálfsstyrkingu og því að rækta upp jákvætt viðhorf gagnvart námi, læra á eigin getu. Lestrarþjálfun hlýtur ekki síst að vera mikilvæg í því sambandi því að undirstaða alls náms er að vera læs og geta nýtt sér texta hvort sem hann er á bók eða neti. Oft kemur í ljós þegar nám í framhaldsskóla hefst að nemendur hafa takmarkaða lestrarkunnáttu og þjálfun í lestri enda eftirfylgni takmörkuð á seinni stigum grunnskólans og oft gengið út frá því að menn kunni að lesa þegar komið er á unglingsár. En reyndin virðist önnur og því er afar mikilvægt að bjóða þeim nemendum uppá lestrarþjálfun sem þurfa.
Grunngreinarnar hafa mestan tímafjölda, einstaka skólar bjóða einungis upp á kennslu í einu erlendu tungumáli í einu. Náms- og starfsfræðslu er víða getið sem mikilvægs þáttar en upplýsingar skortir um hversu fyrirferðarmiklir aðrir þættir en grunngreinar eru skortir. Þar sem tímafjöldi grunngreina er mikill er svigrúm fyrir valgreinar takmarkað. Þær greinar sem oftast eru minnst á að nemendur geti valið sér eru nokkrar verklegar greinar í iðnskólum og einnig er minnst á tölvugreinar. List og verkgreina er sjaldan getið.


Umsjón.
Það virðist almenn regla að skipa sérstakan umsjónarmann eða kennslustjóra með námi nemenda á almennri námsbraut og er umsjónin meiri en með nemendum annarra brauta. Algengt er að umsjónarkennarar hafi umsjón með færri nemendum en venja er og stundum skipta tveir kennarar 15 manna hópi á milli sín. Hlutverk umsjónarmanna virðist margþætt og eru tilgreindir þættir eins og að fylgjast með mætingum nemenda, halda utan um heimanám þeirra, leiðbeina og hvetja. Algengt er að umsjónarkennari kenni lífsleikni. Umsjónarkennarar boða nemendur í viðtöl til að fylgjast með framvindu náms og bjóða uppá viðtalstíma einu sinni í viku eða oftar svo og símatíma. Reglulegir samráðsfundir eru haldnir með umsjónarkennurum, náms-/starfsráðgjöfum og kennurum brautar. Fram kemur í könnuninni að menn telja að öflugri umsjón dragi m.a. úr brottfalli og skipti jafnvel sköpum til að nemendur gefist ekki upp.

Náms- og starfsráðgjöf.
Nemendur á almennri námsbraut fá meiri náms/starfsráðgjöf en nemendur annarra brauta. Svo virðist sem námsráðgjafi hafi oft fasta tíma á töflu og sé stundum falin umsjón, hann fylgist með nemendum og leiðbeinir um val og nemendur leita óspart til hans. Námsráðgjafi sér um þætti eins og námstækni og sjálfsstyrkingu og virðist hlutverk hans sýnilegra þegar þessir nemendur eiga í hlut og jafnvel nauðsynlegra að mati skóla

Samstarf við foreldra.
Foreldrasamstarf er nýjung í framhaldsskólum. Nokkrir skólar minnast á það og hvernig það er skipulagt. Sums staðar var foreldrum nýnema sent bréf og þeir boðaðir á kynningarfund í skólanum í upphafi haustannar. Á stöku stað voru foreldrar nemenda á almennri námsbraut boðaðir til sérstaks fundar í skólanum. Í nokkrum tilvikum er greint frá því að skólinn hafi reglulega samband við foreldra út af mætingum, þeir boðaðir á fundi og í viðtöl.
Í sumum skólum er gerður samningur milli heimilis, nemenda og skóla við upphaf skólagöngu. Með samningnum skuldbindur nemandi sig til að mæta í allar kennslustundir og foreldrar heita að styðja við bakið á honum. Örfáir skólar minnast á dagbók í sambandi við heimanám.

Mat skóla.
Í lok könnunar um almenna námsbraut voru skólameistarar beðnir um að meta kosti hennar og galla, jákvæða þætti og neikvæða.
Þegar talað er um jákvæða þætti er einkum minnst á aukna fjölbreytni í námi, nemendur fái viðfangsefni við hæfi, færri hrökklist frá námi og nemendur fái tækifæri til að bæta við sig í undirstöðuþáttum. Enn fremur er sagt að kennsla sé einstaklingsmiðaðri, nemendur fái aukið sjálfstraust, líti nám jákvæðari augum og brautin styrki þá sem eiga við námsörðugleika að etja. Loks er þess getið að foreldrar hafi lýst yfir ánægju með brautina.

Þegar minnst er á neikvæða þætti er einkum nefnt að nemendur séu brokkgengir og erfiðir, kennarar séu óvanir að sinna nemendum af þessum toga og mikill tími sagður fara í eftirlit og umsjón með nemendum. Enn fremur er minnst á erfiðan bakgrunn nemenda bæði félagslegan og námslegan, tossastimpill loði gjarnan við nemendur og því sé erfitt að byggja upp jákvætt viðhorf gagnvart námi. Nemendum á almennri námsbraut hætti við að flosna upp og þeir einangrist. Minnst er á skort á sveigjanleika og þess getið að kennsla á almennri braut sé erfið og henti ekki öllum kennurum.

Hvers vegna ekki almenn námsbraut?
Eins og fram hefur komið bjóða nokkrir skólar ekki uppá almenna námsbraut. Ástæður þess eru tilgreindar í könnuninni. Eftirfarandi þættir eru m.a. nefndir í því sambandi: Almenn námsbraut henti ekki í bekkjarkerfi, skólinn sé bóknámsskóli sem undirbúi fólk undir háskólanám en almennri námsbraut sé ætlað að undribúa nemendur undir annars konar nám. Einnig er minnst á að mannafla og húsnæði skorti, ástæðulaust sé að dreifa kröftum um of og skynsamlegra að skólar skipti með sér verkum.

Hugleiðingar
Þó að könnun um almenna námsbraut veiti mörg svör vekur hún upp mun fleiri spurningar en lagt var upp með. Einkum vekur hún upp spurningar um innihald náms og hvernig það nýtist nemendum á brautinni svo og hvað verður um þá eftir að þeir ljúka námi á brautinni ef þeir ljúka því. Þeim spurningum er enn ósvarað.

Hversu stór hluti nemenda heldur áfram námi og hve stór hluti hverfur frá því? Hvernig vegnar þeim nemendum sem halda áfram á öðrum brautum innan skólans? Og hvernig nýtist námið þeim sem ekki halda áfram námi?
Hvað halda nemendur sjálfir að þeim gagnist helst og hversu raunhæft er mat þeirra? Hvernig nýtast þeim þættir eins og náms- og starfsfræðsla og aðrir þættir sem notaðir eru til að auka sjálfstraust þeirra og bæta sjálfsmynd?
Eru grunngreinar of viðamiklar í náminu og sveigjanleiki of lítill? Er ekki nóg að kenna eitt erlent tungumál á almennri námsbraut? Eru 15 einingar ekki of mikið fyrir þessa nemendur þegar megnið er bóklegt nám? Er nægilegt val og hvers vegna eru list- og verkmenntir jafn veigalitlir á almennri námsbraut og könnunin bendir til ? Er það ef til vill umhugsunarefni? Er það ef til vill mat skólamanna að mestu skipti að rifja upp námsefni í grunngreinum svo fleyta megi nemendum áfram í námi? Því má velta fyrir sér í þessu sambandi hvers vegna talan 15 er jafn algeng og raun ber vitni þegar talað er um hópastærðir. Trúlega er reiknilíkanið svokallaða hluti skýringar. Svona mætti lengi telja.

Allir skólar minnast á umsjón sem veigamikinn þátt. Hvers vegna er hún mun sýnilegri á almennri námsbraut en öðrum brautum, er þörfin meiri í raun eða frekar viðurkennd? Hvert er hlutverk námssamnings, hvaðan er sú hugmynd ættuð og hvers vegna er hann jafn algengur og raun ber vitni? Er það af því að skólinn þarf fremur á liðsinni foreldra þessara nemenda að halda til að halda utan um nám þeirra? Er skynsamlegt að sýna meiri sveigjanleika?
Hvers vegna er ekki gerður námssamningur við fleiri nemendur?
Margar þessara spurninga eru þess eðlis að nákvæmari upplýsinga er þörf. Í mörgum svörum framhaldsskóla speglast vandi sem finna þarf lausn á ef takast á að koma markmiðum almennrar námsbrautar til skila.

Hér verður látið staðar numið en umræðan þarf að halda áfram.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum