Hoppa yfir valmynd
11. febrúar 2002 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Sameining sveitarfélaga

Ráðuneytið staðfesti þann 6. febrúar 2002 sameiningu sex sveitarfélaga í austanverðri Rangárvallasýslu. Sveitarfélögin sem sameinuðust eru Austur-Eyjafjallahreppur, Vestur-Eyjafjallahreppur, Austur-Landeyjahreppur, Vestur-Landeyjahreppur, Fljótshlíðarhreppur og Hvolhreppur. Sameiningin tekur gildi 9. júní 2002 en ný sveitarstjórn verður kjörin 25. maí 2002.

Nafn hefur ekki enn verið ákveðið á sveitarfélagið en á næstunni mun samstarfsnefnd um sameininguna láta fara fram póstkosningu þar sem íbúum sveitarfélaganna verður gefinn kostur á að velja á milli eftirfarandi nafna: Hlíðarbyggð, Merkurbyggð, Rangárþing eystra og Þverárþing.
    Ráðuneytið hefur jafnframt ákveðið að Þórsmerkursvæðið skuli falla innan marka hins sameinaða sveitarfélags, en um er að ræða landsvæði sem Fljótshlíðarhreppur og Vestur-Eyjafjallahreppur hafa deilt um lögsögu á. Þar sem sveitarfélögin hafa ákveðið að sameinast er ágreiningi um stjórnsýslumörk þeirra nú lokið.

    Mörkum hins umdeilda landsvæðis er lýst með svohljóðandi hætti í dómi Hæstaréttar frá 28. september 1995, í máli nr. 296/1994 (Hrd. 1995:2091):

    "…landsvæði austan Markarfljóts milli Almenninga að norðan og Merkurtungna, Stakkholts og Steinsholts að sunnan, þ.e. Þórsmörk, Goðaland, Teigstungur, Múlatungur og Guðrúnartungur."

    Auglýsing um mörk hins sameinaða sveitarfélags öðlast gildi sama dag og sameiningin, þ.e. hinn 9. júní 2002.


    Hafa samband

    Ábending / fyrirspurn
    Ruslvörn
    Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum