Hoppa yfir valmynd
11. febrúar 2002 Matvælaráðuneytið

Svar viðskiptaráðherra við erindi Verslunarráðs Íslands

Reykjavík, 11. febrúar 2002


Vísað er til erindis Verslunarráðs Íslands, er barst viðskiptaráðuneytinu 1. febrúar sl., þar sem þess er farið á leit að gerð verði á vegum ráðuneytisins sérstök athugun á aðgerðum Samkeppnisstofnunar gagnvart olíufélögunum á grundvelli 40. gr. samkeppnislaga nr. 8/1993 þann 18. desember sl. Þá er þess farið á leit að viðskiptaráðherra beiti sér fyrir því að öllum þeim gögnum sem Samkeppnisstofnun lagði hald á, og afritum þeirra, verði skilað til baka "en málið gegn olíufélögunum hafið á nýjan leik á löglegum forsendum ef ástæða þykir til." Loks er þess óskað að gerðar verði ráðstafanir til þess að framkvæmd aðgerða af þessum toga verði með eðlilegum hætti ef til þeirra kemur í framtíðinni.

Heimildir Samkeppnisstofnunar til húsleitar og haldlagningar af því tagi sem um er fjallað í bréfi Verslunarráðs er að finna í 40. gr. samkeppnislaga. Í 2. mgr. þess ákvæðis er tekið fram að við framkvæmd slíkra aðgerða skuli fylgt ákvæðum laga um meðferð opinberra mála um leit og hald á munum.

Eins og ljóst má vera af tilvísun ákvæðisins til ákvæða laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála (oml.) eru bæði leit og haldlagning lögregluaðgerðir. Af því leiðir í fyrsta lagi, að stjórn húsleitar er á forræði lögreglumanna, sbr. 1. mgr. 94. gr. oml., en þar segir: "Lögreglumenn stjórna leit samkvæmt ákvæðum þessa kafla." Ef ágallar eru á framkvæmd leitar eru þeir almennt á ábyrgð lögreglu. Í öðru lagi gilda reglur oml. um réttindi þeirra, er þurfa að þola leit og haldlagningu, þ. á m. um rétt þessara aðila til að skjóta ákvörðun um haldlagningu til dómara, sbr. 79. gr. oml., og til að bera ágreining um lögmæti rannsóknarathafna undir dómara, sbr. 75. gr. oml. Skal hér einnig bent á skaðabótaúrræði samkvæmt XXI. kafla oml., ef lagaskilyrði hefur brostið til leitar/haldlagningar eða hún framkvæmd með ótilhlýðilegum hætti.

Þá varðar það opinberan starfsmann refsingu, eins og réttilega er bent á í bréfi Verslunarráðs, ef hann misbeitir heimildum sínum til m.a. húsleitar og haldlagningar, sbr. 131. og 132. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Hafi þolandi leitar ástæðu til að ætla að brotið hafi verið gegn hegningarlögum að þessu leyti, er viðkomandi rétt að leita til lögregluyfirvalda eins og ella þegar grunur leikur á um refsilagabrot.

Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. samkeppnislaga annast Samkeppnisstofnun dagleg störf samkeppnisráðs. Af ákvæðum III. kafla laganna leiðir að samkeppnisráð hefur stöðu sjálfstæðrar stjórnsýslunefndar, og getur viðskiptaráðherra því ekki gefið samkeppnisráði bindandi fyrirmæli um úrlausn einstakra mála. Að þessu virtu telur ráðuneytið sig ekki hafa heimild til að hafa afskipti af málsmeðferð í því máli, sem vísað er til í erindi Verslunarráðs, þ.m.t. varðandi afhendingu haldlagðra gagna eða nýja málsmeðferð. Aftur skal hins vegar bent á ákvæði 79. gr. oml. um rétt vörsluhafa haldlagðs munar til að bera ágreining um haldlagningu undir dómara.

Ákvarðanir samkeppnisráðs og Samkeppnisstofnunar sæta hins vegar kæru til áfrýjunarnefndar samkeppnismála á grundvelli 9. gr. samkeppnislaga. Í samræmi við meginreglur stjórnsýsluréttarins er áfrýjunarnefnd bær til þess að endurskoða alla þætti í málsmeðferð Samkeppnisstofnunar og samkeppnisráðs við efnislega meðferð máls fyrir nefndinni. Af því leiðir að ef rannsókn Samkeppnisstofnunar leiðir til þess að tekin verður íþyngjandi ákvörðun gagnvart olíufélögunum, er unnt að hafa uppi athugasemdir við málsmeðferð stofnunarinnar í kæru til áfrýjunarnefndar í þeim tilgangi að fá slíka ákvörðun fellda úr gildi eða henni breytt. Þar sem aðgerðir Samkeppnisstofnunar kunna að sæta slíkri stjórnsýslulegri skoðun af hálfu æðra stjórnvalds, telur ráðuneytið ekki tilefni til sérstakrar athugunar þess á framkvæmd leitar hjá olíufélögunum þann 18. desember sl. Skal einnig á það minnt í þessu sambandi, að úrlausnir áfrýjunarnefndar samkeppnismála er unnt að bera undir dómstóla.

Samkvæmt framansögðu eru þolendum leitar og/eða haldlagningar tryggð réttarfarsleg úrræði í ákvæðum laga um meðferð opinberra mála og almennra hegningarlaga. Ef um alvarleg brot samkeppnisyfirvalda á málsmeðferðarreglum er að ræða, getur það leitt til þess að ákvarðanir sem kunna að vera teknar í framhaldi af leit og/eða haldlagningu verði ógiltar eða þeim breytt af áfrýjunarnefnd samkeppnismála við efnismeðferð máls. Að mati viðskiptaráðuneytisins mynda framangreind úrræði fullnægjandi ramma utan um framkvæmd aðgerða samkvæmt 40. gr. samkeppnislaga og tryggja að framkvæmd þeirra sé með eðlilegum hætti með tilliti til réttaröryggis, ef til þeirra kemur í framtíðinni. Telur ráðuneytið því ekki efni til ráðstafana af þess hálfu í þessu tilliti.


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum