Hoppa yfir valmynd
12. febrúar 2002 Matvælaráðuneytið

Aukafundur NAFO í Kaupmannahöfn 12.02.02

Fréttatilkynning


Dagana 29. janúar - 1. febrúar sl. var haldinn í Danmörku aukafundur Norðvestur-Atlantshafs fiskveiðistofnunarinnar, NAFO. Fundurinn var haldinn á þessum tíma þar sem fresta varð ársfundinum sem vera átti í september síðastliðinn, vegna hryðjuverkanna í Bandaríkjunum.
Á dagskrá fundarins var m.a. að ákveða fyrirkomulag rækjuveiða á Flæmingjagrunni fyrir árið 2002, að ræða mögulegar leiðir til að stjórna veiðunum og auk þess var fjallað um stjórnun veiða á úthafskarfa á samningssvæði NAFO.

Rækja
Í ljós hefur komið að sóknarstýring við rækjuveiðar hefur ekki skilað þeim árangri sem NAFO hafði vonast eftir í upphafi, og er nú mikill stuðningur innan NAFO við það sjónarmið Íslands að veiðunum sé stjórnað með aflamarkskerfi. Þrátt fyrir þennan stuðning náðist ekki samkomulag á þessum fundi um skiptingu heildarafla milli aðildarríkja NAFO. Þar sem ekki náðist samkomulag um kvótaskiptingu var ákveðið að stjórna áfram veiðunum með sóknarmarkskerfi.
Fram kom tillaga um að auka sókn í rækju á Flæmingjagrunni frá því sem verið hefur þannig að sókn hverrar þátttökuþjóðar á árinu 2002 verði allt að 90% af því sem hún var mest eitthvert áranna 1993-1995. Þetta er aukning úr 75% sóknar viðmiðunaráranna sem verið hefur sl. ár.
Ísland hefur frá því að NAFO samþykkti að taka upp sóknarstýringu til stjórnunar á rækjuveiðum á Flæmingjagrunni árið 1995 mótmælt því fyrirkomulagi. Mótmæli þessi voru tilkomin vegna efasemda íslenskra stjórnvalda um að hægt væri að stjórna veiðunum með sóknarstýringu en Ísland hefur frá upphafi lagt til að veiðunum væri stjórnað með aflamarki. Ísland mótmælti því tillögunni um aukna sókn, bæði á ofangreindum forsendum, en einnig vegna þess að þessi aukning mun væntanlega valda verulegri veiði umfram ráðgjöf fiskifræðinga sem hljóðar uppá 45.000 tonn fyrir árið 2002. Áætlað var að veiðin á árinu 2001 hafi verið um 50.000 tonn en ráðgjöfin var 30.000 tonn.
Ísland ítrekaði mótmæli sín við sóknarmarkskerfið og mun áfram stjórna veiðunum einhliða með aflamarki. Sjávarútvegsráðuneytið gaf út reglugerð um veiðar íslenskra skipa á Flæmingjagrunni í janúar síðastliðinn og kemur þar fram að heimilaður heildarafli íslenskra skipa ársins 2002 er 9.000 tonn, en sú ákvörðun var til bráðabrigða og skildi koma til endurskoðunar í framhaldi af þessum fundi.
Á fundinum bar Ísland fram tillögu um breytt eftirlit með rækjuveiðum á Flæmingjagrunni. Tillagan hljóðaði uppá að í þeim tilfellum þar sem gervihnattaeftirlit væri til staðar mætti fækka eftirlitsmönnum í 20%, þannig að aðeins væri einn eftirlitsmaður um borð í hverjum fimm skipum sem veiðar stunda á hverjum tíma. Sú tillaga náði þó ekki fram að ganga að þessu sinni.

Úthafskarfi
Fram kom tillaga frá Kanadamönnum um að 25% af þeim heildarafla sem NEFAC – Norðaustur-Atlantshafs fiskveiðinefndin hefur ákveðið, verði veitt innan NAFO svæðisins og stjórnað af NAFO. Þessi tilllaga fékk ekki brautargengi, né aðrar tillögur sem fram komu varðandi stjórnun veiða á úthafskarfa árið 2002. Því munu á þessu ári gilda sömu reglur varðandi veiðarnar á NAFO svæðinu og á síðasta ári.

Formaður íslensku sendinefndarinnar var Þórir Skarphéðinsson, lögfræðingur í sjávarútvegsráðuneytinu.
Sjávarútvegsráðuneytið, 8. febrúar 2002

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum