Velferðarráðuneytið

Mál nr. 18/2001: Dómur frá 15. febrúar 2002.

Ár 2002, föstudaginn 15. febrúar, var í Félagsdómi í málinu nr. 18/2001.

Stéttarfélag sálfræðinga á Íslandi

(Gísli Tryggvason hdl.)

gegn

Landspítala Háskólasjúkrahúsi og

íslenska ríkinu

(Óskar Norðmann hdl.)

kveðinn upp svofelldur

D Ó M U R :

Mál þetta var dómtekið að loknum munnlegum málflutningi hinn 21. janúar sl.

Málið dæma Eggert Óskarsson, Gylfi Knudsen, Kristjana Jónsdóttir, Magnús I. Erlingsson og Kristján Torfason.

Stefnandi er Stéttarfélag sálfræðinga á Íslandi, Lágmúla 7, Reykjavík.

Stefndu eru Landspítali Háskólasjúkrahús, Eiríksgötu 5, Reykjavík og íslenska ríkið.

 

Dómkröfur stefnanda

A. Skylda að gefa upp forsendur.

Stefnandi krefst viðurkenningar á að stefnda, Landspítala Háskólasjúkrahúsi, beri samkvæmt aðlögunarúrskurðum, dags. 14. og 30. september 1998, að gefa stefnanda og hlutaðeigandi félagsmönnum stefnanda upp forsendur fyrir

  1. röðun starfa hvers og eins þeirra samkvæmt 2. mgr. ákvæða 2.1, 2.2 og 2.3 í úrskurðunum og
  2. röðun starfsmanna persónulega samkvæmt ákvæði 2.4 og samkvæmt 4. mgr. ákvæða 2.1, 2.2 og 2.3 í úrskurðunum

eins og störfum og starfsmönnum hefur verið raðað á hverjum tíma.

B. Viðurkenning á afturvirkni.

Þá krefst stefnandi viðurkenningar á að skilja beri kjarasamning og aðlögunarúrskurði, dags. 14. og 30. september 1998, svo að forsendur samkvæmt úrskurðunum, sem krafist er í A-lið að gefnar verði upp, gildi afturvirkt gagnvart þeim félagsmönnum stefnanda sem starfað hafa hjá stefnda, Landspítala Háskólasjúkrahúsi, á samningstímanum, þ.e. afturvirkt

  1. aðallega frá og með 1. desember 1997 en
  2. til vara frá og með 1. febrúar 1998 og
  3. til þrautavara frá og með 1. nóvember 1998.

Þá krefst stefnandi málskostnaðar að skaðlausu að mati dómsins.

 

Dómkröfur stefndu

Stefndu krefjast þess að þeir verði sýknaðir af öllum kröfum stefnanda og

gera kröfu um málskostnað úr hendi stefnanda að mati dómsins.

Með úrskurði uppkveðnum 22. október sl. var hafnað frávísunarkröfu stefndu í málinu.

 

Málsatvik

Málavextir eru þeir að í júlímánuði 1997 undirrituðu fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs og Reykjavíkurborg annars vegar og Stéttarfélag sálfræðinga hins vegar kjarasamning með gildistíma frá 1. júní 1997 til 31. október 2000. Með gerð kjarasamninga þessara voru gerðar verulegar breytingar á launakerfi opinberra starfsmanna. Kjarasamningar aðila fólu í sér að tekið var upp nýtt launakerfi og var í samningi fjallað um tilteknar forsendur þess.

Samkvæmt greinum 0.1.2. og 0.1.3. var tilgangur hins nýja launakerfis tvíþættur. Annars vegar að hækka hlut dagvinnulauna og breyta samsetningu heildarlauna þannig að dregið yrði úr yfirvinnu, án þess að dregið yrði úr vinnuskilum og hins vegar að fela stofnun útfærslu og daglega framkvæmd kjarasamninga, sbr. grein 0.1.3. í sama kjarasamningi.

Í kjarasamningi segir að hið nýja launakerfi skuli taka gildi þann 1. desember 1997 og vera að fullu komið til framkvæmda þann l. febrúar 1998. Með kjarasamningi var fylgiskjal, merkt 1, sem kvað á um að sérstök nefnd, aðlögunarnefnd hjá hlutaðeigandi stofnun, skyldi koma sér saman um nánari forsendur, um skilgreiningu starfa og röðun starfsmanna í launaramma og launaflokk. Samkvæmt nefndu fylgiskjali skyldi aðlögunarnefnd ljúka störfum eigi síðar en 31. október 1997. Tækist ekki að ljúka störfum nefndarinnar fyrir tilgreint tímamark skyldi vísa ágreiningi til sérstakrar úrskurðarnefndar. Samkomulag náðist ekki í aðlögunarnefndum og var málum því vísað til úrskurðarnefnda.

Þann 14. september 1998 kvað úrskurðarnefnd Stéttarfélags sálfræðinga á Íslandi og Ríkisspítala upp úrskurð sinn og þann 30. september 1998 kvað úrskurðarnefnd Stéttarfélags sálfræðinga á Íslandi og Sjúkrahúss Reykjavíkur upp úrskurð sinn. Samkvæmt ákvæðum nefndra úrskurða skyldu þeir taka gildi þann 1. desember 1997 og vera að fullu komnir til framkvæmda þann 1. nóvember 1998. Gert var ráð fyrir að sérstök nefnd, samstarfsnefnd, sbr. 11. kafla kjarasamnings aðila, gæti síðan fjallað um breytingar á forsendum starfaflokkunar sem nauðsynlegar kynnu að reynast eða ágreiningsmál sem upp kynnu að rísa út af samningnum.

Í fyrrnefndum úrskurðum var m.a. kveðið á um launaramma og forsendur röðunar, sbr. 2. gr. Þá var kveðið á um að taka skyldi mið af persónubundnum þáttum og þáttum í starfi sem skipta máli fyrir deild/stofnun og hún ákveður. Enn fremur var í úrskurðum úrskurðarnefnda kveðið á um tiltekna lágmarksgrunnröðun starfsheita og voru starfsheiti eldri kjarasamnings lögð til grundvallar. Stefndu benda á að fyrrnefndir úrskurðir hafi um margt verið á annan veg í samanburði við aðra úrskurði sem kveðnir voru upp af úrskurðarnefndum, sbr. t.d. ákvæði um lágmarksgrunnröðun starfsheita o.fl.

Í kjölfar hins nýja launakerfis, sem grundvallaðist á kjarasamningi og fyrrnefndum úrskurðum úrskurðarnefnda, reis ágreiningur með stefnanda og stefnda, Landspítala Háskólasjúkrahúsi, og gerði stefnandi athugasemdir við framkvæmd sjúkrahússins á úrskurðum úrskurðarnefnda frá 14. og 30. september 1998. Af hálfu stefnanda varðaði ágreiningsefnið kröfu um að stefndi, Landspítali Háskólasjúkrahús, gæfi upp forsendur röðunar starfa sálfræðinga í launaflokka svo og þá staðhæfingu að notast hafi verið við eldri starfsheiti útrunnins kjarasamnings og nýjum sálfræðingum hafi ekki verið raðað samkvæmt gildandi kjarasamningi.

Í því skyni að fá Landspítala Háskólasjúkrahús til þess að gefa upp forsendur fyrir röðun einstakra félagsmanna beindi stefnandi stjórnsýslukæru til fjármálaráðherra, dags. 11. október 2000, en henni var vísað frá ráðuneytinu með úrskurði, dags. 12. desember 2000. Í bréfi ráðuneytisins til Bandalags háskólamanna, dags. sama dag, kemur fram að ráðuneytið telur að spítalinn hafi hagað tilfærslu starfsmanna í hið nýja launakerfi í samræmi við nefnda úrskurði. Þá freistaði stefnandi þess með kvörtun, dags. 28. desember 2000, að fá álit umboðsmanns Alþingis á efniságreiningi málsins en umboðsmaður vísaði málinu efnislega frá sér og taldi dómstóla betur til þess fallna en umboðsmann að taka afstöðu til túlkunar kjarasamningsins að þessu leyti og atvika málsins að öðru leyti, sbr. bréf, dags. 13. mars 2001. Þá voru fundir haldnir í samstarfsnefnd stefnanda og stefnda, Landspítala Háskólasjúkrahús um ágreiningsefnin en ekki tókst að leysa úr þeim. Stefnandi höfðaði síðan mál þetta í júlí 2001.

 

Málsástæður stefnanda og lagarök

A Skylda til að gefa upp forsendur

Stefnandi kveður ágreining aðila lúta að því hvort stefnda, Landspítala Háskólasjúkrahúsi, sem ríkisstofnun og framkvæmdaraðila kjarasamnings og beinum aðila stofnanaþáttar kjarasamnings (úrskurðarhluta), beri að gefa upp forsendur fyrir röðun sálfræðinga þ.e. félagsmanna stefnanda í starfi hjá þessum stefnda. Stefnandi telur þetta skylt en stefndu ekki. Auk tilvitnaðra ákvæða í úrskurðum úrskurðarnefndar Stéttarfélags sálfræðinga á Íslandi og Ríkisspítala er vitnað til ákvæða um röðun starfs og ákvæða um "persónubundna þætti" í fylgiskjali 2 með samkomulagi frá 5. júlí 1997.

Kröfuliður 1.

Kröfu stefnanda til viðurkenningar á að skylt sé að gefa upp forsendur fyrir röðun að því er störfin varðar kveður stefnandi styðjast við 2. mgr. ákvæða 2.1, 2.2 og 2.3 í framangreindum úrskurðum en þar segi:

"Við röðun starfa innan launarammans skal taka tillit til þess hvers það krefst af starfsmanni og því raðað að teknu tilliti til eftirfarandi þátta í starfinu. Raðað skal eftir styrk þáttanna umfram lágmarkskröfur [A][B][C] rammans skv. gildandi starfslýsingu:"

Í framhaldinu séu svo taldir upp 6-7 þættir sem geti haft mismunandi styrk samkvæmt framansögðu.

Kröfuliður 2.

Hvað varðar forsendur fyrir röðun starfsmanna persónulega kveðst stefnandi styðja kröfu sína við ákvæði 2.4 og 4. mgr. ákvæða 2.1, 2.2 og 2.3 í úrskurðunum um að enn fremur skuli taka mið af persónubundum þáttum og þáttum í starfi sem skipta máli fyrir deild/stofnun og hún ákveður."

Stefnandi kveður úrskurðina og nýja launakerfið sem samið hafi verið um 5. júlí 1997 missa þýðingu sína ef stefnda Landspítala Háskólasjúkrahúsi beri ekki að gefa upp forsendur fyrir röðun. Hefðu stefndu á réttu að standa hefði öll vinnan við aðlögunarsamninga eða úrskurði um röðunarforsendur verið til einskis unnin og geðþótti vinnuveitenda og eftir atvikum markaðsaðstæður hverju sinni ráðið röðun, en ekki kjarasamningar eins og lög geri ráð fyrir. Stefnandi kveður kjarna málsins vera að stefndi, Landspítali Háskólasjúkrahús, hafi beitt einhliða ákvörðunarvaldi og stjórnunarrétti sínum til þess að raða starfsmönnum sínum, þ.m.t. hlutaðeigandi félagsmönnum stefnanda, til launa og beri því að sinna þeirri kjarasamningsbundnu og úrskurðuðu skyldu sinni að veita upplýsingar um þau málefnalegu og umsömdu sjónarmið sem liggi eða eigi að liggja að baki þeim einhliða ákvörðunum.

Meðan forsendur fyrir röðun starfa og starfsmanna hafi ekki verið gefnar upp kveður stefnandi hlutaðeigandi félagsmenn stefnanda hvorki geta nýtt sér jafnræðisreglu né málskotsrétt sinn samkvæmt ákvæðum úrskurðanna sjálfra og stefnandi geti þá engan veginn gætt lögvarinna hagsmuna félagsmanna sinna í samræmi við lögbundið og stjórnarskrárvarið hlutverk stéttarfélaga, sbr. 1.4. og 9. gr. laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna og ákvæði 1. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar og 2. mgr. 75. gr. stjórnarskrárinnar en þar segi:

"Í lögum skal kveða á um rétt manna til að semja um starfskjör sín og önnur réttindi tengd vinnu."

Sé skylda til þess að gefa upp forsendur röðunar ekki virt sé ekki unnt að leggja mat á hvort efnisreglum kjarasamnings hafi verið fylgt. Nánar tiltekið kveður stefnandi ljóst að félagsmenn stefnanda sem í hlut eigi geti ekki nýtt sér jafnræðisreglu í niðurlagi ákvæðis 2 í úrskurðunum, en þar segi:

"Ákvörðun sem tekin er um hvaða þættir hafa áhrif á laun og með hvaða hætti skal skoðast sem fordæmi gagnvart öðrum félagsmönnum, svo tryggt verði að þeir njóti jafnræðis."

Þá njóti þeir ekki málskotsréttar til samstarfsnefndar. Skortur á röðunarforsendum hvað varði einstök störf og starfsmenn ónýti ákvæði 3 í úrskurðunum, en þar segi undir fyrirsögninni Réttur til endurmats á röðun starfs:"

"Telji starfsmaður að honum sé ekki rétt raðað miðað við fyrirliggjandi forsendur á hann rétt á að fá röðun sína endurmetna. Ágreiningsmálum skal skotið til samstarfsnefndar, sbr. 11. gr. kjarasamnings og fylgiskjal 2."

Sambærileg ákvæði um málskotsrétt sé að finna í tilvitnuðu fylgiskjali 2 með samkomulaginu frá 5. júlí 1997, sbr. einnig 11. kafla kjarasamnings milli fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs og Reykjavíkurborgar og Stéttarfélags sálfræðinga á Íslandi.

Þá er því jafnframt haldið fram af hálfu stefnanda að auk ofangreindra lagaröksemda hafi um þennan skilning verið rætt í úrskurðarnefnd þeirri sem kveðið hafi upp nefnda úrskurði og sú hafi verið sjálfsögð ætlun meirihlutans, þ.m.t. oddamanns, sem tilnefndur hafi verið af ríkissáttasemjara, að forsendur skyldu gefnar upp, enda hafi sömuleiðis verið á því byggt í öllum stofnanasamningum (aðlögunarsamningum) sem gerðir hafi verið um sama leyti.

Loks kveðst stefnandi byggja kröfur sínar á framkvæmd gagnvart öðrum stéttarfélögum og félagsmönnum þeirra sem hafi fengið gefnar upp forsendur fyrir röðun.

B Viðurkenning á afturvirkni

Stefnandi kveður félagsmenn stefnanda kunna að hafa orðið fyrir fjárhagslegum skaða. Þetta sé nú óumdeilt, sbr. bókun fulltrúa stefnda, Landspítala Háskólasjúkrahúss, um augljósa launahækkun í 4. málslið 1. tl. í fundargerð frá 29. maí 2001. Þá virðist ekki vera ágreiningur um hvort eða að hve miklu leyti hækkun launa vegna upp gefinna forsendna skuli vera afturvirk, sbr. bréf annars fulltrúa stefnda í samstarfsnefnd, dags. 24. nóvember 2000, þar sem fullyrt sé í 2. tl. að ef ekki liggi fyrir skýr rökstuðningur um hvernig störf tilgreindra sálfræðinga hafi breyst sem réttlætti launahækkun þeirra, þá ber að greiða þeim afturvirk laun frá 1.12. 1997." Þvínæst séu nefndir tveir möguleikar til lausnar annað hvort greiðsla eða góður rökstuðningur fyrir því að störf þeirra hafi breyst. Þessi afstaða samstarfsnefndarfulltrúans komi í kjölfar endurtekinna krafna fulltrúa stefnanda í samstarfsnefnd um úrlausn samanburðarmála þar sem vísað er til jafnræðisreglunnar og mál[a] sem snúast um kröfu á afturvirkni launaflokkahækkana frá 1. des. 1997," sbr. 4. tl. fundargerðar frá 13. nóvember 2000, þar sem fulltrúar stefnda, Landspítala Háskólasjúkrahúss, í samstarfsnefnd bóki síðan að unnið sé að lausn þeirra. Af einhverjum ástæðum kveður stefnandi stefnda, Landspítala Háskólasjúkrahús, síðan hafa dregið í land og neitað að gefa upp forsendur fyrir röðun tilgreindra starfsmanna og starfa þeirra og vísað til ákvæða í eldri útrunnum kjarasamningi og þess að störfin hafi breyst smátt og smátt, sbr. 2. tl. fundargerðar frá 22. desember 2000.

Í þeim tilvikum sem mat á röðun starfs eða starfsmanna, eftir að forsendur væru gefnar upp eins og stefnandi krefjist, myndi leiða til hærri röðunar en ella hljóti hlutaðeigandi sálfræðingar, félagsmenn stefnanda, að eiga kröfu á afturvirkri greiðslu á mismuninum.

Auk ofangreindrar viðurkenningar annars fulltrúa stefnda, Landspítala Háskólasjúkrahúss, í samstarfsnefnd og neðangreindra lagaraka kveður stefnandi þetta hafa verið sameiginlegan skilning meirihluta þeirrar úrskurðarnefndar sem kveðið hafi upp fyrrgreinda úrskurði, þ.m.t. oddamanns, sem tilnefndur hafi verið af ríkissáttasemjara, þ.e. að röðun samkvæmt upp gefnum forsendum skyldi gilda afturvirkt enda hafi raunin orðið sú við framkvæmd sambærilegra úrskurða og stofnanasamninga (aðlögunarsamninga).

Loks kveður stefnandi kröfu um að forsendur verði ekki aðeins gefnar upp heldur einnig látnar gilda afturvirkt styðjast við framkvæmd stefnda, Landspítala Háskólasjúkrahúss, gagnvart öðrum stéttarfélögum með sambærilegt launakerfi og aðlögunarúrskurði. Mismunun milli félaga eigi sér enga stoð en þessi stefndi hafi, t.a.m. gagnvart Félagi íslenskra náttúrufræðinga, lofað að Ríkisspítalar leiðrétti laun líffræðinga afturvirkt frá 1. desember 1997 og hafi það verið efnt.

Aðalkrafa í 1. tl. B-liðar

Stefnandi kveður eðlilegast að sú afturvirkni, sem krafist sé, miðist við 1. desember 1997, eða frá þeim degi er félagsmaður stefnanda hóf störf ef um það sé að ræða. Um þennan gildistökutíma sé kveðið á í kjarasamningnum sjálfum, ákvæði 0.1.4, og hjá því verði, að mati stefnanda, ekki vikist. Þessi gildistökudagsetning sé jafnframt endurtekin í ákvæði 4 í úrskurðunum. Þar sé í báðum tilvikum rætt um að hið nýja launakerfi skuli taka gildi þennan dag. Síðari dagsetningin kveði ekki á um efnislega gildistöku heldur áætlaða formlega framkvæmd nýja launakerfisins, enda hafi sú áætlun verið lagfærð er úrskurðurinn var kveðinn upp í september 1998 og þá hefði verið rökleysa að ræða um framkvæmdardagsetningu kjarasamningsins, 1. febrúar 1998. Því sé framkvæmdinni samkvæmt úrskurðunum skotið á frest í 1 - 1 1/2 mánuð, þ.e. til 1. nóvember 1998. Gildistökudagsetningin, 1. desember 1997, sé hins vegar höfð óbreytt og afturvirk þegar úrskurðirnir séu kveðnir upp.

Varakrafa í 2. tl. B-liðar

Verði ekki fallist á þetta byggir stefnandi á því til vara að ekki verði vikið frá síðari dagsetningunni, framkvæmdardagsetningunni, í kjarasamningnum, 1. febrúar 1998, sem hljóti að fela í sér bindandi loforð samningsaðila um lágmarksafturvirkni, telji dómurinn hina fyrri af einhverjum ástæðum ekki eiga við.

Þrautavarakrafa í 3. tl. B-liðar

Fallist dómurinn ekki á varakröfuna byggir stefnandi á því að framkvæmdardagsetning úrskurðarins, 1. nóvember 1998, hljóti a.m.k. að fela í sér afturvirkniskröfu því ella væru allar dagsetningar í kjarasamningi og úrskurðuðum stofnanaþætti haldlausar og án tilgangs. Sömu dagsetningu sé jafnframt að finna í ákvæði til bráðabirgða sem stefndi, Landspítali Háskólasjúkrahús, hafi ítrekað vísað til, sbr. bls. 3 í svarbréfi þessa stefnda til stefnanda, dags. 7. október 2000. Þar sé um að ræða svonefnt "Fylgiskjal 2" með úrskurðunum þar sem segi í 2. mgr. að hin nýju röðunarákvæði muni koma til framkvæmda þá fyrst "er endurskoðun á slíkum einstaklingsbundnum ráðningarkjörum hefur átt sér stað, eigi síðar en 1. nóvember 1998, sbr. m.a. yfirlýsingu samningsaðila frá 10. 10. 1997."

Krafa stefnanda um málskostnað styðst aðallega við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 en til vara við 2. ml. 3. mgr. 130. gr. eml. en við 129. gr. sömu laga að því er fjárhæð varðar. Stefnandi telur að líta beri til þess að hann og félagsmenn hans eigi samkvæmt ákvæði 11.1.4 í kjarasamningi rétt á því að erindi félagsmanna séu afgreidd innan 5 vikna frá formlegri fyrirtöku í samstarfsnefnd.

Lögsögu Félagsdóms í máli þessu kveður stefnandi byggjast á því að stefndi, Landspítali Háskólasjúkrahús hafi með atbeina meðstefnda, fjármálaráðherra, ítrekað synjað um réttar efndir á kjarasamningi og aðlögunarúrskurðum eins og stefnandi túlki ákvæði þeirra samkvæmt framansögðu. Málið lúti því að ágreiningi um skilning á kjarasamningi.

Sóknaraðild stefnanda byggist á 4. og 5. gr. laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna.

Ríkið hafi yfirtekið rekstur Sjúkrahúss Reykjavíkur hinn 1. janúar 1999. Ríkisspítalar og Sjúkrahús Reykjavíkur hafi, í byrjun mars 2000, verið sameinuð sem Landspítali Háskólasjúkrahús, sbr. reglugerð nr. 127/2000 um sameiningu heilbrigðisstofnana. Varnaraðild Landspítala Háskólasjúkrahúss byggist á því að sá stefndi hafi synjað um þær efndir sem stefnandi krefjist og hafi á valdi sínu að verða við kröfum stefnanda, sbr. framsal stefnda, fjármálaráðherra, á umboði til þess að framkvæma kjarasamninga til stefnda, Landspítala Háskólasjúkrahúss, samkvæmt 2. mgr. 3. gr. laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Aðild stefnda, Landspítala Háskólasjúkrahúss, byggist jafnframt á því að í sambærilegu máli Meinatæknafélags Íslands gegn stefnda hafi Félagsdómur byggt á því að sú aðild væri rétt en einungis gerð sú athugasemd að rétt hefði verið að stefna fjármálaráðherra til aðildar í málinu fyrir hönd ríkissjóðs ásamt stefnda" í því máli, þ.e. ásamt Landspítala - Háskólasjúkrahúsi, sbr. úrskurð Félagsdóms í máli nr. F-5/2000 frá 8. júní 2000 þar sem því máli var vísað frá dómi vegna annmarka "á kröfugerð og málatilbúnaði."

Af sömu ástæðum er ríkinu stefnt til aðildar í máli þessu ásamt stefnda, Landspítala Háskólasjúkrahúsi.

Stefnandi byggir á því að úrskurðirnir frá 14. og 30. september 1998 séu eins og aðrir hlutar kjarasamnings útrunnir miðað við 1. nóvember 2000 en eftir þeim skuli farið þar til nýr sé gerður, sbr. meginreglu 2. mgr. 12. gr. laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Kröfur stefnanda styðjist jafnframt við skráðar og óskráðar reglur íslensks réttar um að samninga beri að halda og kaupgjald að gjalda þegar um sé samið eða krafist sé og að lög og kjarasamninga beri að túlka í samræmi við vilja aðila og af jafnræði og sanngirni.

 

Málsástæður og lagarök stefndu

Af hálfu stefndu eru sýknukröfur á því reistar að stefndu, Landspítali Háskólasjúkrahús og fjármálaráðherra fh. ríkissjóðs, hafi uppfyllt alla lög- og samningsbundnar skyldur gagnvart stefnanda. Stefndu hafi framkvæmt úrskurði úrskurðarnefnda frá 14. og 30. september 1998 í samræmi við efni þeirra. Samkvæmt því beri stefndu engar frekari skyldur gagnvart stefnanda, hvorki til upplýsingagjafar né annars.

Af hálfu stefndu eru sýknukröfur enn fremur á því byggðar að ákvæði úrskurða úrskurðarnefnda hafi haft að geyma skýr fyrirmæli um efni og innihald samninga. Af ákvæðum kjarasamninga verði ekki annað ráðið en að þeir hafi átt að kveða á um þær forsendur sem leggja skyldi til grundvallar við röðun eða tilfærslu starfa innan hvers starfshóps eða milli starfshópa í hinu nýja launakerfi en nánari útfærsla hafi verið í höndum aðlögunarnefnda, eftir atvikum úrskurðarnefnda. Umræddir úrskurðir úrskurðarnefnda hafi verið undirritaðir þann 14. og 30. september 1998 með atkvæðum tveggja fulltrúa stefnanda, Stéttarfélags sálfræðinga auk atkvæðis oddamanns, skipuðum af ríkissáttasemjara en fulltrúar Ríkisspítala/Sjúkrahúss Reykjavíkur og heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis greiddu atkvæði gegn úrskurðum. Í samræmi við þau fyrirmæli sem aðlögunarnefndir og síðar úrskurðarnefndir störfuðu eftir hafi úrskurðir haft að geyma fullnaðaryfirlýsingu og lokafrágang hins nýja launakerfis. Verði að telja að úrskurðarnefndir hafi litið svo á að úrskurðir hafi verið nægjanlega skýrir og að fullu og öllu leyti í samræmi við þau fyrirmæli sem nefndunum voru gefnar. Hafi engar skyldur hvílt á stefndu umfram það sem efni umræddra úrskurða kvað á um.

Stefndi, Landspítali Háskólasjúkrahús, hafi í viðræðum við stefnanda, Stéttarfélag sálfræðinga, lýst því yfir að vinna við þróun matskerfis hafi verið í gangi en slíkt kerfi hafi enn ekki verið tekið í notkun. Umbeðnar upplýsingar um forsendur röðunar og vægi matsþátta í einstökum störfum sálfræðinga liggi því ekki fyrir og séu ekki til hjá stefnda í því formi sem beðið hafi verið um. Byggja stefndu á því að samkvæmt ákvæði 2. gr. úrskurðanna skuli stofnun raða starfsmönnum í launaflokka. Forræði slíkrar ákvörðunar sé hjá hlutaðeigandi stofnun og í ljósi þess að fyrir liggi upplýsingar, þess efnis, að allir félagsmenn stefnanda fái greidd laun sem nemi a.m.k. lágmarkskjörum samkvæmt fyrrnefndum úrskurðum, sbr. framlagt yfirlit yfir röðun sálfræðinga hjá stefnda, beri að sýkna stefndu af öllum kröfum stefnanda.

Af hálfu stefndu, Landspítala Háskólasjúkrahúss, hafi verið bent á að matskerfi sé nauðsynleg forsenda þess að unnt sé að leggja fram nánari forsendur röðunar. Í því sambandi skuli haft í huga að stefnda, Landspítala Háskólasjúkrahúsi, beri engin skylda til að taka upp slíkt matskerfi, hvorki samkvæmt kjarasamningum né úrskurðum úrskurðarnefnda. Þegar af þeirri ástæðu beri að sýkna stefndu af dómkröfum stefnanda, enda verði stefndu ekki gert með dómi að gefa upp nánari forsendur röðunar samkvæmt matskerfi sem engin skylda hvíli á að setja upp. Í þessu er enn fremur áréttað að samkvæmt nefndum úrskurðum sé það stofnunar að ákvarða röðun starfa. Þá beri að hafa í huga að fyrrnefndir úrskurðir úrskurðarnefnda séu byggðir á hinu nýja launakerfi sem samið var um í kjarasamningum á árinu 1997. Í umræddum kjarasamningum hafi verið gert ráð fyrir að vinnuveitandi gæti raðað störfum til launa á grundvelli matskerfis. Fyrirliggjandi úrskurði úrskurðarnefnda verði að skilja svo að verði slíkt matskerfi tekið upp beri vinnuveitanda að taka sérstaklega á þeim þáttum sem tilgreindir séu í úrskurðunum. Ákvæði fyrrnefndra úrskurða hafi á hinn bóginn að geyma skýr fyrirmæli um það hvernig raða skuli störfum sálfræðinga á meðan matskerfi sé ekki fyrir hendi. Ákvæði greina 2.1., 2.2. og 2.3. í fyrirliggjandi úrskurðum tilgreini 9 starfsheiti sálfræðinga og samhliða sé tilgreind grunn- eða lágmarksröðun þeirra. Samkvæmt því hafi t.d. lágmarksgrunnröðun sálfræðings 1 verið talin A4, sálfræðings 4 talin B6, yfirsálfræðings 1 talin B8 o.s.frv. Í fylgiskjali 2 með úrskurðunum segi orðrétt: "Þegar tillit er tekið til rammaskilgreininga og matsþátta í núverandi störfum sálfræðinga er eldri starfsheitum grunnraðað skv. 2.l. - 2.3". Skilgreiningar á starfsheitunum sé að finna í röðunarskjali sem var fylgiskjal með kjarasamningi aðila frá 27. október 1995. Byggja stefndu á því að á meðan matskerfið hafi ekki tekið gildi skuli notast við það röðunarkerfi sem úrskurðir kveði á um og lýst hafi verið hér að framan. Af hálfu stefndu er m.a. á því byggt að skylda til röðunar og greiðslu launa taki einungis til lágmarksröðunar samkvæmt kjarasamningi og úrskurðum úrskurðarnefnda og að svo miklu leyti sem stefndu hafi uppfyllt þá skyldu beri þeim undir engum kringumstæðum að leggja fram frekari upplýsingar né geti stefnandi eða félagsmenn hans sem starfa hjá stefndu haft uppi frekari kröfur.

Af hálfu stefndu eru sýknukröfur enn fremur á því byggðar að ákvæði í úrskurðum úrskurðarnefnda um lágmarksröðun tiltekinna starfsheita feli í reynd í sér að búið sé að vega inn og meta alla þætti hlutaðeigandi starfa til lágmarksröðunar. Í fylgiskjali 1 með úrskurðum úrskurðarnefnda komi fram að tryggt skuli að enginn lækki í mánaðarlaunum fyrir dagvinnu vegna yfirfærslu í nýtt launakerfi þrátt fyrir gildistöku nýrra forsendna og reglna um röðun í launaflokka í nýju launakerfi. Í framangreindu felist að umrætt mat taki til allra þátta er fram koma í ákvæðum gr. 2.1., 2.2. og 2.3. í fyrirliggjandi úrskurðum úrskurðarnefnda. Ef litið sé til röðunar einstakra félagsmanna stefnanda, samkvæmt yfirliti yfir röðun þeirra hjá stefnda, sé óumdeilt að stefndi, Landspítali Háskólasjúkrahús, hafi greitt umræddum starfsmönnum laun sem svari til a.m.k. lágmarkskjara skv. fyrrnefndum ákvæðum auk launaflokka samkvæmt ákvæði gr. 2.4. Í þessu sambandi beri að hafa í huga að í gildistíð eldra launakerfis hafi starfsmönnum verið greiddir viðbótarlaunaflokkar vegna þátta er vörðuðu störf eða starfstíma hlutaðeigandi starfsmanna. Með vísan til þess sem að framan greinir hafi stefndu uppfyllt allar lög- og samningsbundnar skyldur og beri því að sýkna þá af dómkröfum í máli þessu.

Af hálfu stefndu er bent á að ákvæði 2. gr. úrskurða úrskurðarnefnda hafi að geyma umfjöllun um þá þætti sem lagðir skulu til grundvallar ákvörðun launa. Í lokamálslið 2. gr. segir: "Ákvörðun, sem tekin er um hvaða þættir hafa áhrif á laun og með hvaða hætti skal skoðast sem fordæmi gagnvart öðrum félagsmönnum, svo tryggt sé að þeir njóti jafnræðis. " Stefndu mótmæla alfarið þeim skilningi sem stefnandi hefur lagt fram á orðalagi þessu í málatilbúnaði sínum. Af hálfu stefndu er á því byggt að framangreind orð verði að túlka í ljósi kjarasamnings og úrskurða aðlögunarnefnda, eftir atvikum úrskurðarnefnda. Nánar tiltekið hafi það verið hlutverk aðlögunarnefnda, eftir atvikum úrskurðarnefnda, að leggja fram nánari forsendur fyrir röðun. Þannig beri að skilja ummæli í úrskurðum svo, að sömu þættir skuli lagðir til grundvallar röðun starfa í fyrirliggjandi ramma, þ.e. sambærileg viðmið skuli lögð til grundvallar. Á sama hátt skuli sambærileg viðmið lögð til grundvallar röðun byggðum á persónubundnum þáttum fari svo að matskerfi verði tekið upp. Með umræddu ákvæði sé á engan hátt lögð aukin upplýsingaskylda á vinnuveitanda heldur einungis kveðið á um viðmið röðunar. Á grundvelli framangreindra viðmiða hafi úrskurðarnefndir tekið ákvarðanir um að leggja sömu þætti til grundvallar röðun í A, B, og C ramma samkvæmt fyrirliggjandi úrskurðum og á þann hátt hafi úrskurðarnefndir tryggt jafnræði allra sem laun taki samkvæmt nefndum úrskurðum. Af hálfu stefndu þyki sýnt að matskerfi geti, til framtíðar litið, ráðið nokkru fyrir um þá þætti sem lagðir verði til grundvallar mati. Byggjast sýknukröfur í máli þessu m.a., því að vinnuveitanda sé óskylt að gefa upp þætti sem ákvörðun um launaröðun einstakra starfsmanna byggist á og enn fremur að verði talið að slík skylda sé fyrir hendi geti hún ekki orðið virk fyrr en matskerfi hafi komist í gagnið.

Af hálfu stefndu byggja sýknukröfur enn fremur á því að kröfur, eins og þær liggja fyrir í máli þessu, séu a.m.k. að hluta til hafðar uppi af röngum aðila. Byggist það m.a. á því að tilteknir þættir dómkrafna varði upplýsingar um röðun starfsmanna persónulega samkvæmt ákvæði 2.4. og samkvæmt 4. mgr. ákvæða 2.1., 2.2. og 2.3. í úrskurðunum. Stefnandi, Stéttarfélag sálfræðinga, sé ekki bært til að hafa uppi slíkar kröfur er varða persónubundna þætti við röðun starfa. Ef fallist yrði á skyldu stofnunar til að láta slíkar upplýsingar í té gætu einungis hlutaðeigandi einstaklingar persónulega haft uppi slíkar kröfur.

Þá byggja stefndu sýknukröfur á því að stefnandi hafi ásamt oddamanni, skipuðum af ríkissáttasemjara, staðið að umdeildum úrskurðum, gegn mótmælum stefnda, Landspítala Háskólasjúkrahúsi (Ríkisspítali og Sjúkrahús Reykjavíkur), og heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis og við túlkun þeirra beri að leggja til grundvallar að það hafi verið á færi þeirra sem stóðu að gerð nefndra úrskurða að gera þá svo skýra úr garði að fullnægjandi mætti telja. Að svo miklu leyti sem hvorki kjarasamningar né úrskurðir kveði ótvírætt á um skyldu vinnuveitanda til að leggja fram forsendur fyrir röðun í launaflokka, og slíkt verði heldur ekki ráðið af gildandi lögum eða meginreglum á hlutaðeigandi réttarsviði, verði að líta svo á að slík skylda sé ekki fyrir hendi. Hljóti að verða að líta svo á að úrskurðarnefndir hafi sjálfar talið úrskurði nægjanlega skýra.

Til viðbótar framangreindu benda stefndu á að stefnandi, svo og félagsmenn hans hafi með háttalagi sínu fallist á efni og skilning kjarasamnings svo og fyrrnefndra úrskurða, þ.m.t. forsendur röðunar o.s.frv. Vísast um það efni til yfirlýsinga sem stefndi, Landspítali Háskólasjúkrahús, undirritaði ásamt stefnanda, frá 11.11.1998, um röðun sálfræðinga í starfi hjá stefnda í nýtt launakerfi, svo og samhljóða yfirlýsingar allra starfandi sálfræðinga hjá stefnda, Landspítala Háskólasjúkrahúsi. Í umræddum yfirlýsingum felist fyrirvaralaus viðurkenning stefnanda og félagsmanna hans á efni, túlkun, forsendum og skilningi á hlutaðeigandi kjarasamningum og úrskurðum úrskurðarnefnda. Með fyrrnefndum gerningum hafi stefnandi samþykkt aðferðir við framkvæmd samninga eða úrskurða. Geti stefnandi samkvæmt því engar frekari kröfur haft uppi á hendur stefndu vegna þessa.

Varðandi kröfur um viðurkenningu á afturvirkni, samkvæmt B-lið kröfugerðar, vísa stefndu til þeirra málsástæðna og sjónarmiða sem að framan greinir. Af hálfu stefndu er á því byggt að þeir hafi nú þegar efnt ákvæði úrskurða úrskurðarnefnda að því er afturvirkni varðar. Allar frekari breytingar á röðun starfsmanna muni einungis taka mið af þeim forsendum sem fyrir liggi á tilgreindu tímamarki og gildistaka miða við þá ákvörðun sem liggi fyrir á hverjum tíma, þ.e. miðast við það tímamark þegar ákvörðun sé tekin.

Þá mótmæla stefndu þeim fullyrðingum og sjónarmiðum sem koma að öðru leyti fram í málatilbúnaði stefnanda, þ.m.t. fullyrðingum um yfirburðastöðu opinberra vinnuveitenda gagnvart einstökum launamönnum svo og meintan forgangsrétt til túlkunar á kjarasamningum. Fullyrðingum þessa efnis er mótmælt sem röngum og órökstuddum.

Stefndu vísa til ákvæða laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, ákvæða laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, sbr. t.d. ákvæði gr. 129. gr. og 130. gr. um málskostnað. Þá vísa stefndu til meginreglna íslensks vinnuréttar.

Stefndu vísa enn fremur til dóms Félagsdóms í máli nr. 5/1998.

 

Niðurstaða

Hinn 5. júlí 1997 undirritaði stefnandi, Stéttarfélag sálfræðinga á Íslandi, annars vegar og stefndi, fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs, svo og Reykjavíkurborg hins vegar samkomulag um breytingar og framlengingu á kjarasamningi aðila. Með samkomulagi þessu var gildandi kjarasamningur aðila framlengdur til 30. október 2000 með þeim breytingum og fyrirvörum sem fólust í samkomulagi þessu.

Með greindu samkomulagi var samið um að taka upp nýtt launakerfi. Samkvæmt samkomulaginu var tilgangurinn með þeirri breytingu tvíþættur. Annars vegar var markmiðið að hækka hlut dagvinnulauna svo sem nánar var skýrt og hins vegar að fela stofnun útfærslu og daglega framkvæmd kjarasamninga eftir því sem nánar greindi í samkomulaginu. Hið nýja launakerfi skyldi taka gildi 1. desember 1997, en vera að fullu komið til framkvæmda 1. febrúar 1998.

Í fylgiskjali 1 með samkomulaginu er gerð grein fyrir því með hvaða hætti yfirfærsla í nýtt launakerfi skyldi vera. Sérstök nefnd, aðlögunarnefnd, skyldi koma sér saman um nánari forsendur en þær, sem greinir í greinum 1.3.1-1.3.3 í kjarasamningnum, þ.e. þargreindar skilgreiningar í launaramma A, B og C. Í fylgiskjali 2 með samkomulaginu er síðan getið um nánari forsendur sem hafa skuli til hliðsjónar við röðun starfa innan hverrar stofnunar til viðbótar því sem fram kemur í grein 1.3, þ.á m. persónubundna þætti. Þær forsendur sem aðlögunarnefnd ákvæði skyldi leggja til grundvallar við röðun eða tilfærslu starfa innan hvers starfshóps eða milli starfshópa í hinu nýja launakerfi. Hefði aðlögunarnefnd ekki náð samkomulagi innan tilgreinds tíma skyldi ágreiningi aðila vísað til úrskurðarnefndar. Samkomulag náðist ekki í aðlögunarnefndum og var málinu því vísað til úrskurðarnefnda sem kváðu upp úrskurði sína 14. og 30. september 1998. Í úrskurðunum er tekið fram að þeir séu hluti af kjarasamningi aðila.

Í úrskurðum úrskurðarnefndanna er tekið fram um launaramma og forsendur röðunar. Við ákvörðun um röðun starfa í ramma og innan ramma skuli taka tillit til staðsetningar starfs í skipuriti, eðlis starfsins, ábyrgðar og umfangs og miða við að um sé að ræða viðvarandi/stöðugt verksvið. Taka skuli tillit til faglegrar, stjórnunarlegrar og/eða fjárhagslegrar umsjónar og ábyrgðar og álags og hvaða kröfur starfið gerir til faglegrar/fræðilegrar hæfni/færni starfsmanns. Röðun skuli byggð á hlutlægum mælikvörðum eftir því sem unnt er. Stofnun skuli raða störfum/starfsmönnum í launaramma og launaflokka á grundvelli: 1. skilgreininga á römmum A, B og C í kjarasamningi. 2. reglna um röðun eins og þær eru skilgreindar í 2.1-2.4 í úrskurðunum. 3. breytinga og viðbóta sem kunna að verða ákveðnar í samstarfsnefnd. Þá er tekið fram að ákvörðun, sem tekin sé um hvaða þættir hafi áhrif á laun og með hvaða hætti, skuli skoðast sem fordæmi gagnvart öðrum félagsmönnum svo að tryggt verði að þeir njóti jafnræðis. Í greinum 2.1-2.3 í úrskurðunum eru síðan tilgreindar forsendur fyrir röðun starfs í ramma með sama hætti og í greinum 1.3.1-1.3.3 í kjarasamningnum, auk þess sem ákvarðaðar eru forsendur fyrir röðun starfa innan launarammanna. Þá er og tekið fram að enn fremur skuli taka mið af persónubundnum þáttum og þáttum í starfi sem skipta máli fyrir deild/stofnun og hún ákveði. Þá er lágmarksgrunnröðun sálfræðinga ákvörðuð. Í grein 2.4 í úrskurðunum er fjallað um mat á þáttum er varða starfsmann (einstaklingsbundnum þáttum) og tilgreint mat á slíkum þáttum sem varða menntun. Í grein 3 í úrskurðunum er fjallað um rétt starfsmanns til endurmats á röðun starfs, þ. á m. um málskot til samstarfsnefndar. Í fylgiskjali 1 með úrskurðunum er mælt svo fyrir að tryggt skuli að enginn lækki í mánaðarlaunum fyrir dagvinnu vegna yfirfærslu í nýtt launakerfi þrátt fyrir gildistöku nýrra forsendna og reglna um röðun í launaflokka í nýju launakerfi. Í fylgiskjali 2 með úrskurðunum segir m.a. svo: "Þegar tillit er tekið til rammaskilgreininga og matsþátta í núverandi störfum sálfræðinga er eldri starfsheitum grunnraðað skv. 2.1-2.3."

Samkvæmt A-lið í dómkröfum stefnanda er krafist viðurkenningar á því að stefnda Landspítala Háskólasjúkrahúsi, beri samkvæmt "aðlögunarúrskurðum dags. 14. og 30. september 1998" að gefa stefnanda og hlutaðeigandi félagsmönnum stéttarfélagsins upp forsendur fyrir röðun starfa hvers og eins þeirra samkvæmt 2. mgr. í 2.1, 2.2 og 2.3 í úrskurðunum og röðun starfsmanna persónulega samkvæmt 2.4 og 4. mgr. í 2.1, 2.2 og 2.3 í úrskurðunum.

Fyrir liggur að lágmarksgrunnröðun hefur verið framkvæmd samkvæmt ákvæðum úrskurða úrskurðarnefndanna. Hins vegar hefur röðun ekki farið fram með tilliti til einstakra starfa og persónubundinna þátta að undanskilinni menntun í samræmi við ákvæði kjarasamnings aðila og fylgiskjala nr. 1 og 2 með honum svo og greindum úrskurðum úrskurðarnefnda. Kemur þetta fram í greinargerð stefnda og gildandi röðunarreglum sálfræðinga á Landspítala Háskólasjúkrahúsi, dags. 9. október 2000. Þá kemur fram í bréfi stefnda, Landspítala Háskólasjúkrahúss, dags. 7. október 2000, til stefnanda að umkrafðar upplýsingar um vægi matsþáttanna í einstökum störfum sálfræðinga liggi ekki fyrir. Séu þessar upplýsingar ekki til hjá spítalanum í því formi sem um sé beðið. Er þetta út af fyrir sig óumdeilt í málinu og eins að ekkert starfsmat hafi farið fram. Þá verður ekki annað ráðið en aðila greini ekki á um það að engin skylda sé til að taka upp slíkt matskerfi.

Þegar framangreint er virt þykir stefnandi ekki hafa sýnt fram á með málatilbúnaði sínum að stefnda, Landspítala Háskólasjúkrahúsi, sé unnt að gefa stefnanda upp frekari forsendur fyrir röðun umfram það sem þegar liggur fyrir í máli þessu. Ber því að sýkna stefndu af kröfum stefnanda í málinu.

Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.

 

D Ó M S O R Ð

Stefndu, Landspítali Háskólasjúkrahús og íslenska ríkið, skulu vera sýkn af kröfum stefnanda, Stéttarfélags sálfræðinga á Íslandi.

Málskostnaður fellur niður.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn