Hoppa yfir valmynd
15. febrúar 2002 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Upplýsingar um UT2002 - ráðstefnu um upplýsingatækni í skólastarfi.

Til skóla


Upplýsingar um UT2002 - ráðstefnu um upplýsingatækni í skólastarfi.


Menntamálaráðuneytið stendur fyrir ráðstefnunni UT2002 dagana 1. – 2. mars nk. í Menntaskólanum við Hamrahlíð. Þema ráðstefnunnar er "Dreifmenntun fyrir alla – alls staðar" og verður fjallað um nýjungar í notkun upplýsingatækni á öllum skólastigum.

Á ráðstefnunni munu yfir 100 sérfræðingar flytja fjölbreytta fyrirlestra sem veita yfirsýn yfir notkun upplýsingatækni í skólastarfi. Fyrri dagurinn hefst með ávarpi menntamálaráðherra og tónlistarviðburði. Wim Veen er aðalfyrirlesari ráðstefnunnar en hann er yfirmaður miðstöðvar um nýjungar í menntamálum við Delft háskólann í Hollandi. Aðrir aðalfyrirlesarar eru Angela McFarlane, prófessor við kennslufræðideild háskólans í Bristol, og Øystein Johannessen frá norska menntamálaráðuneytinu. Fjöldi fyrirlestra hefur aldrei verið meiri á UT ráðstefnunum og lýsir mikilli grósku í notkun upplýsingatækni í háskólum, framhaldsskólum, grunnskólum og leikskólum. Að auki býðst gestum að kynnast starfi nemenda, prófa nýjungar í kennsluhugbúnaði og skoða tæknilausnir. Sérfræðingar í heildarlausnum fyrir skóla á sviði tenginga og búnaðar veita upplýsingar og notendur slíks búnaðar greina frá reynslu sinni.

Skráning á ráðstefnuna fer fram á heimasíðunni: www.menntagatt.is/ut2002 og þar er einnig að finna upplýsingar um dagskrá. Mennt sér um framkvæmd ráðstefnunnar og tekur á móti skráningu í síma 5112660 eða í netfangið [email protected]. Þátttökugjald er 2.500 krónur, kaffi og te innifalið. Menntamálaráðuneytið hvetur kennara og aðra áhugasama um upplýsingatækni í skólastarfi til að taka þátt í ráðstefnunni.

Meðfylgjandi er veggspjald UT2002 sem óskað er að fari á viðeigandi staði í skólanum.

Menntamálaráðuneytið, 15. febrúar 2002

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum