Hoppa yfir valmynd
18. febrúar 2002 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Verkefnum reynslusveitarfélaga lauk formlega nú um áramótin 2001/2002

Reynslusveitarfélög hafa frá árinu 1995 starfað á grundvelli laga um reynslusveitarfélög, nr. 82/1994. Á árinu 1999 var verkefnið framlengt um tvö ár með breytingarlögum nr. 114/1999. Verkefni reynslusveitarfélaga lauk formlega nú um áramótin 2001/2002. Síðustu tvö ár hafa það aðallega verið sveitarfélögin Akureyri, Reykjavík, Sveitarfélagið Hornafjörður og Vestmannaeyjar sem hafa unnið að reynslusveitarfélaga-verkefninu. Góður árangur hefur náðst af starfi þeirra. Verkefnisstjórn reynslusveitarfélaga hefur hvatt reynslusveitarfélögin til þess að framhald verði á tilrauna- og nýsköpunarstarfsemi þeirra.

PricewaterhouseCoopers hefur skilað skýrslu sinni "Mat á árangri, Úttekt á verkefnum reynslusveitarfélaga árið 2000" frá október 2001. Í skýrslunni setur PwC fram mat sitt á árangri reynslusveitarfélaga-verkefnisins vegna ársins 2000. Skýrslugjafi er óháður úttektaraðili verkefnisins og er tilgangur skýrslunnar að leggja mat á árangur einstakra verkefna reynslusveitarfélaganna. Skýrslan ásamt öðrum fróðleik um reynslusveitarfélaga-verkefnið er að finna á heimasíðu ráðuneytisins: felagsmalaraduneyti.is / Sveitarstjórnarmál /Reynslusveitarfélög.

Á næstunni mun PricewaterhouseCoopers skila lokaskýrslu sinni um reynslusveitarfélagaverkefnið. Sú skýrsla tekur til heildartímabils verkefnisins, þ.e. frá ársbyrjun 1995 til ársloka 2001. Einnig mun verkefnisstjórn reynslusveitarfélaga, sem umsjón hefur haft með verkefninu, rita sína eigin lokaskýrslu. Geta má þess að stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga hefur ákveðið að skipa sérstaka Þróunarnefnd til að fylgjast með og fjalla um nýsköpun og þróunarverkefni í sveitarfélögum og reynslunni af þeim. Verkefnisstjórn fagnar skipun Þróunarnefndar og gerir miklar vonir til nefndarinnar um framhald þessa verkefnis.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum