Hoppa yfir valmynd
21. febrúar 2002 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Vinnuvernd á Íslandi

Erlendum starfsmönnum á Íslandi hefur fjölgað mjög á síðustu árum. Ljóst er að tungumálaerfiðleikar valda því að margir þeirra þekkja ekki rétt sinn eða skyldur varðandi vinnuvernd. Hugtakið vinnuvernd er einnig framandi fyrir marga þeirra því að sumir hinna erlendu starfsmanna koma frá löndum þar sem vinnuvernd er lítt þróuð. Fjöldi erlendra starfsmanna sem slasast í vinnuslysum segir einnig sína sögu (sjá töflu á næstu síðu). Þörfin var því mikil á að gefa út leiðbeiningar um vinnuvernd fyrir erlenda starfsmenn.

Sjö tungumál auk íslensku

Til að ákveða á hvaða tungumálum skyldi gefa leiðbeiningarnar út var aflað upplýsinga um fjölda erlendra starfsmanna hér á landi af mismunandi þjóðernum. Leitað var ráðgjafar til Útlendingaeftirlitsins, Vinnumálastofnunar, Hagstofu Íslands og Alþjóðahúss (áður Miðstöð nýbúa) við val á tungumálum. Niðurstaðan varð sú að eftirfarandi tungumál urðu fyrir valinu:

* enska (en gert er ráð fyrir að flestir Norðurlandabúar geti lesið hana sér til gagns, svo og margir aðrir Evrópubúar auk Breta, Kanadamanna og Bandaríkjamanna)

* pólska

* rússneska

* serbneska/króatíska

* spænska (Suður-Ameríkumenn (nema Brasilíumenn) lesa spænsku auk Spánverja)

* tælenska

* víetnamska

Að sjálfsögðu eru erlendir starfsmenn á Íslandi af fleiri þjóðernum en hér er upp talið en hóparnir eru það fámennir að útgáfa á viðkomandi tungumálum verður af kostnaðarástæðum að bíða betri tíma. Stærsti hópur erlendra starfsmanna er frá Póllandi og sker fjöldi þeirra sig úr miðað við aðra hópa.

Ekki þótti hentugt að gefa efnið út á öllum tungumálunum í sama heftinu og var því ákveðið að hafa heftin fjögur, þannig:

a) á pólsku og íslensku c) á tælensku, víetnömsku og íslensku
b) á ensku, spænsku og íslensku d) á rússnesku, serbnesku/króatísku og íslensku

Eins og sjá má verður íslenski textinn prentaður í öllum heftunum og er það gert til að íslenskir starfsmenn geti lesið textann með erlendum starfsmönnum og verið þeim til aðstoðar við að glöggva sig á innihaldinu.

Fyrstnefndu tvö heftin eru þegar komin út.
Félagsmálaráðuneytið veitti góðfúslega styrk til þessa kostnaðarsama verkefnis.

Efni bæklingsins
Eins og gefur að skilja er ekki hægt í einu litlu hefti að gefa tæmandi upplýsingar um öll ákvæði laga, reglna og reglugerða sem gilda um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á hinum fjölmörgu, mismunandi vinnustöðum. Því var valin sú leið að greina frá þeim þáttum vinnuverndar sem snerta flesta vinnustaði og skírskota því til breiðs hóps starfsmanna. Sem dæmi má nefna ábyrgð og skyldur atvinnurekenda, verkstjóra og starfsmanna, tilkynningu vinnuslysa, innra vinnuverndarstarf í fyrirtækjum, öryggisbúnað véla, hávaðavarnir á vinnustöðum, húsnæði vinnustaða, vinnuumhverfi þungaðra kvenna, að handleika byrðar, skjávinnu, félagslega áhættuþætti o.m.fl.

Útgáfa þessi mun vonandi auka þekkingu erlendra starfsmanna á réttindum þeirra og skyldum varðandi vinnuvernd og bæta þar með vinnuaðstæður þeirra.

Bæklinginn er hægt að nálgast hjá Vinnueftirliti ríkisins.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum