Hoppa yfir valmynd
5. mars 2002 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Reglur um undanþágubeiðnir vegna íþróttaiðkunar.

Til grunnskóla, skólaskrifstofa og
ýmissa annarra aðila


Reglur um undanþágubeiðnir vegna íþróttaiðkunar

Íþrótta- og ólympíusamband Íslands óskaði eftir því að ráðherra kannaði hvort hægt væri að marka skýrar reglur um undanþágubeiðnir er snúa að íþróttaiðkun í grunnskóla.

Öðru hvoru hafa komið upp umræður innan ráðuneytisins um undanþágur frá skyldunámi, ekki síst vegna fjölgunar undanþágubeiðna. Slíkar beiðnir hafa verið býsna margbreytilegar, en í eðli sínu eru þær tvíþættar. Annars vegar er um að ræða undanþágubeiðni fyrir nemendur frá ákveðinni námsgrein vegna afburðaárangurs hans á því sviði. Sem dæmi um slíkt má nefna Listdansskólanemendur og afreksmenn í sundi. Hins vegar er um að ræða nemendur sem eiga á einhvern hátt í erfiðleikum að ná tökum á náminu. Sem dæmi má nefna nemendur með ýmsar sérþarfir og nemendur með annað móðurmál en íslensku, tvítyngdir nemendur. Sótt hefur verið um undanþágu fyrir þennan hóp nemenda frá skyldunámi í ákveðinni grein eða nokkrum greinum, allt eftir mati sérfræðinga hverju sinni. Algengt er að nemendur með annað móðurmál en íslensku óski eftir undanþágu frá dönsku og einnig nemendur með sérþarfir en í þessum málum kennir ýmissa grasa. Niðurstaðan hefur oftast orðið sú að nemendur með sérþarfir og tvítyngdir nemendur fá umbeðnar undanþágur og í auknum mæli hefur verið orðið við óskum um undanþágu fyrir nemendur sem hafa náð árangri á einhverju sviði, einkum í listdansi og sundi.

Fyrir nokkrum árum felldi ráðuneytið þann úrskurð að listdans í framhaldshópi í Listdansskóla Íslands gæti verið jafngildi skólaleikfimi og voru umræddir nemendur undanþegnir skólaíþróttum en ekki skólasundi. Ef höfð er hliðsjón af þeim úrskurði ætti ekki að heimila að sund komi í stað annarra skólaíþrótta.

Á undanförnum árum hafa nokkrir nemendur á unglingastigi grunnskóla fengið undanþágu frá skólasundi á þeim rökum að þeir stundi markvissa sundþjálfun hjá íþróttafélagi og hafi náð góðum tökum á sundi. Umræddir nemendur hafa þá almennt ekki fengið samhliða undanþágu frá skólaíþróttum í heild, einungis sundþættinum.

Skólastefnan sem ný aðalnámskrá grundvallast á og stuðlar að sveigjanlegri skilum grunn- og framhaldsskóla og viðurkenningu á góðum námsárangri með möguleikum á að flýta námi. Viðurkenning á afburðaárangri t.d. í íþróttum er af sama toga.

Með 35. gr. grunnskólalaga nr. 66/1995 fékkst að vísu mun skýrari afstaða en áður. Engu að síður vefjast ýmis útfærsluatriði fyrir. Eitt þeirra varðar sund vegna þess að grundvöllur sundskyldunnar er tilkominn með íþróttalögunum.

Í 35. gr. grunnskólaganna eru tvær heimildir til handa ráðherra. Annars vegar að veita nemanda undanþágu frá því að stunda skyldunám í tiltekinni námsgrein ef gild rök mæla með því. Hins vegar til að viðurkenna nám utan grunnskóla sem jafngildi náms í tiltekinni skyldunámsgrein. Einnig er rétt að vekja athygli á því að þegar um er að ræða tímabundnar undanþágur er skólastjóra heimilt að veita slíka undanþágu í samræmi við 8. gr. laga um grunnskóla nr. 66/1995. Í athugasemd við 8. grein laganna segir m.a. að tímabundnar undanþágur eru m.a. tímabundnar fjarvistir vegna keppnisferða í íþróttum og aðrar ástæður sem skólastjóri metur gildar. Vel má hugsa sér að skólastjórar geti á grundvelli þessarar lagagreinar veitt nemendum tímabundna undanþágu frá ákveðnum tímum í skólaíþróttum þegar stangast á skyldunámstímar og æfingatímar hjá íþróttafélagi.

Samkvæmt grunnskólalögum hefur enginn annar en menntamálaráðherra formlega heimild til að veita undanágu frá skyldunámi, skólastjórnendur grunnskóla hafa ekki slíka heimild eða sveitarfélög.

Ekki hafa verið til skýrar reglur í ráðuneytinu um undanþágubeiðnir vegna skólaíþrótta í grunnskólum. Í ljósi erindis frá ÍSÍ hafa þessi mál verið til skoðunar undanfarið í ráðuneytinu. Niðurstaða þeirrar umfjöllunar er sú að útbúa leiðbeiningar vegna undanþágubeiðna á grunnskólastigi vegna skólaíþrótta sem kynntar verði grunnskólum og skólaskrifstofum og settar á netið, þannig að öllum sé ljóst hvernig standa eigi að slíkum beiðnum og eru þær leiðbeiningar hér hjálagðar.


Leiðbeinandi reglur um undanþágu frá skólaíþróttum á grunnskólastigi,
með vísan í 35. gr. laga um grunnskóla nr. 66/1995.

1. Formleg undanþágubeiðni frá skólaíþróttum skal berast menntamálaráðuneyti undirrituð af foreldrum/forráðamönnum nemandans, einnig undirrituð af viðkomandi nemanda. Fram skulu koma upplýsingar um nemandann, þ.e. nafn, kennitala, heimilisfang, grunnskóli, íþróttafélag og íþróttagrein með skýrum rökum fyrir undanþágubeiðninni.

2. Meðfylgjandi skal vera staðfesting skólastjóra viðkomandi grunnskóla að skólinn sé samþykkur slíkri beiðni.

3. Meðfylgjandi skal vera staðfesting frá viðkomandi íþróttafélagi um íþróttaiðkun nemandans í viðkomandi íþróttagrein.

4. Fylgja skal greinargerð frá viðkomandi þjálfara um stöðu nemandans.

5. Nemandi sem náð hefur afburðaárangri í sundþjálfun hjá íþróttafélagi fær að öllu jöfnu einungis undanþágu frá skólasundi, ekki öðrum þáttum skólaíþrótta.

6. Nemandi sem náð hefur afburðaárangri í íþróttagrein sinni (önnur grein en sund) fær að öllu jöfnu ekki undanþágu frá skólasundi.

7. Menntamálaráðuneytið veitir að öllu jöfnu einungis nemendum í 9. og 10. bekk grunnskóla undanþágu frá skólaíþróttum sem náð hafa afburðaárangri í þeirri íþróttagrein sem þeir stunda. Ef um yngri nemendur er að ræða þarf sérstaklega að rökstyðja slíka undanþágubeiðni og er hún einungis veitt til árs í senn.

8. Menntamálaráðuneytið veitir nemendum í 1.-6. bekk grunnskóla ekki undanþágu frá skólaíþróttum vegna íþróttaþjálfunar hjá íþróttafélagi.

9. Menntamálaráðuneytið tekur undanþágubeiðni ekki til afgreiðslu nema fullnægjandi upplýsingar liggi fyrir.

10. Skólastjórar grunnskóla hafa heimild, með vísan í 8. gr. laga um grunnskóla nr. 66/1995 til að veita einstökum nemendum tímabundna undanþágu frá skólaíþróttum að hluta til, án afskipta ráðuneytisins, enda sjái foreldrar/forráðamenn viðkomandi nemanda um að hann vinni upp það sem hann kann að missa úr námi á meðan á undanþágu stendur.

(Mars 2002)






Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum