Hoppa yfir valmynd
8. apríl 2002 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Frumvarp til laga um breytingar á lögum um húsnæðismál, nr. 44/1998, með síðari breytingum

Víða á landsbyggðinni glíma sveitarfélög við mikinn vanda vegna reksturs félagslegs húsnæðis. Bæði stafar vandinn af of mörgum félagslegum íbúðum og lágum tekjum af rekstri þeirra, og einnig af því að íbúðir standa auðar og ekki er grundvöllur til útleigu þeirra.

Með lögunum nr. 44/1998 var eldra félagslega húsnæðiskerfinu lokað, en sett voru bráðabirgðaákvæði um hvernig meðhöndla bæri þær íbúðir sem áður höfðu verið reistar. Frá 1999 hafa því engar félaglegar eignaríbúðir bæst við, en viðbótarlánin leyst þau af hólmi.

Varasjóður viðbótarlána hefur aðstoðað sveitarfélög við að selja íbúðir úr hinu félagslega kerfi á almennan markað og hefur hagnaður af sölu félagslegra íbúða á höfuðborgarsvæðinu runnið til þessa verkefnis ásamt framlagi ríkissjóðs. Ljóst er hins vegar að hagnaður af sölu íbúða er hverfandi og vandi sumra sveitarfélaga það mikill að nauðsynlegt er að gera ákveðnar breytingar á þessari aðstoð og fjármögnun hennar.

Í því skyni að taka á ofangreindum vanda hefur félagsmálaráðherra nú lagt fram frumvarp á Alþingi til breytinga á lögum um húsnæðismál, nr. 44/1998 með síðari breytingum.

Frumvarpið byggir annars vegar á tillögum nefndar sem félagsmálaráðherra skipaði í desember árið 2000 til þess að endurskoða ofangreind lög um húsnæðismál. Nefndin var skipuð fulltrúum félags- og fjármálaráðuneytis, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborgar og Íbúðalánasjóðs. Nefndinni var meðal annars falið að koma með tillögur um fyrirkomulag við aðstoð til sveitarfélaga sem glíma við vanda vegna reksturs félagslegra leiguíbúða. Þá var nefndinni einnig falið að fjalla um ákvæði laganna um kaupskyldu og er með frumvarpinu lagt til að sveitarfélögum sé heimilt að falla frá kaupskyldu að vissum skilyrðum uppfylltum.

Hins vegar byggir frumvarpið á samkomulagi sem félagsmálaráðherra og fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs og Samband íslenskra sveitarfélaga gerðu þann 4. apríl síðastliðinn. Í samkomulaginu er kveðið á um hver skuli vera verkefni Varasjóðs viðbótarlána (Varasjóði húsnæðismála) og hvernig þau skuli fjármögnuð.

Um er að ræða rammasamkomulag til fimm ára. Með samkomulaginu er tryggt að samtals renna 700 milljónir króna á tímabilinu til að aðstoða sveitarfélög vegna rekstur félagslegra leiguíbúða þar sem slíkur rekstur stendur höllum fæti og sölu þeirra á almennan markað. Samkvæmt samkomulaginu mun ríkissjóður leggja árlega fram 60 milljónir króna, úr Tyggingarsjóði vegna byggingargalla (sbr. x. ákv. laga um húnsæðismál) renna árlega 60 m.kr og beint frá sveitarfélögunum renna 20 m.kr. árlega. Samtímis falla niður önnur framlög ríkisins í Varasjóð viðbótarlána og greiðslur sveitarfélaga til Varasjóðs viðbótarlána vegna íbúða sem seljast með hagnaði.

Auk þess felur samkomulagið í sér að Íbúðalánasjóði heimilað, í samstarfi við viðkomandi sveitarfélög að afskrifa lán fyrir allt að 200 m.kr. á tímabilinu, eða 40 m.kr. á ári, vegna íbúða í eigu sveitarfélaga sem ráðlegt er að afskrifa vegna lélegs ástands og þegar ekki svarar kostnaði að endurbyggja.

Með frumvarpinu er eftirfarandi lagt til:

Breytt nafn og hlutverk Varasjóðs viðbótarlána

Að nafni Varasjóðs viðbótarlána verði breytt í Varasjóð húsnæðismála og hlutverk hins nýja sjóðs verði að veita:

1. Rekstrarframlög til sveitarfélaga vegna hallareksturs félagslegra leiguíbúða eða íbúða sem hafa staðið auðar í lengri tíma. Rekstrarframlög til sveitarfélaga skulu reiknuð út í samræmi við sérstakt reiknilíkan.

2. Framlög til sveitarfélaga vegna sölu félagslegra eignar- og leiguíbúða út á hinn almenna markað. Sjóðurinn skal taka þátt í niðurgreiðslu við sölu á innleystum félagslegum íbúðum út á almennan markað í þeim tilvikum þar sem innlausnarverð er yfir markaðsverði íbúðanna. Heimild þessi tekur einnig til félagslegra leiguíbúða sem sveitarfélagið hefur áður innleyst en breytt síðan í félagslega leiguíbúð.

    3. Umsýslu með varasjóði viðbótarlána skv. 45. gr. Varasjóður húsnæðismála skal taka yfir allar eignir, réttindi og skyldur eldri varasjóðs viðbótarlána samkvæmt lögum um húsnæðismál.

    4. Umsýslu með Tryggingarsjóði vegna byggingargalla skv. 81. gr. laga um Húsnæðisstofnun ríkisins, nr. 97/1993. Varasjóður húsnæðismála skal taka yfir allar eignir, réttindi og skyldur Tryggingarsjóðs vegna byggingargalla.
      5. Ráðgjöf og leiðbeiningar við þau sveitarfélög sem vilja breyta um rekstrarform fyrir félagslegar leiguíbúðir eða hagræða í rekstri þeirra.
        6. Upplýsingavinnslu og úttekt á árangri á verkefnum sjóðsins.

        Þá skal Varasjóður húsnæðismála starfa í sjálfstæðum og aðskildum deildum vegna verkefna skv. 1., 2., 3. og 4. tölul. en heimilt er að færa fé á milli verkefna skv. 1., 2., og 4. tölul.

        Afnám kaupskyldu

        Ennfremur er með frumvarpinu lagt til að sveitarfélögum verði heimilað að falla frá ákvæðum laga um kaupskyldu að vissum skilyrðum uppfylltum og með staðfestingu félagsmálaráðuneytis.

        Undanþáguheimild þessi frá kaupskyldu hefur þó ekki áhrif á rétt eigenda félagslegra eignaríbúða til að óska sérstaklega eftir því að sveitarfélög leysi til sín félagslegar eignaríbúðir sem kaupskylda varir á. Réttur eigenda félagslegra eignaríbúða til að óska sérstaklega eftir því að sveitarfélag innleysi eign þeirra sem kaupskylda sveitarfélagsins hvílir á myndi því áfram vera fyrir hendi. Myndi þetta sérstaklega eiga við um fasteignir staðsettar í minni sveitarfélögum á landsbyggðinni þar sem fasteignaverð hefur farið lækkandi.


        Hafa samband

        Ábending / fyrirspurn
        Ruslvörn
        Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum