Hoppa yfir valmynd
12. apríl 2002 Matvælaráðuneytið

Fræðsluþing verktaka á Austurlandi

Valgerður Sverrisdóttir,
iðnaðar- og viðskiptaráðherra


Ávarp við setningu fræðsluþings verktaka á Austurlandi
11. apríl 2002.


Góðir þinggestir

Þegar þetta þing var undirbúið bjuggust flestir við því að tímasetningar varðandi Noral verkefnið myndu standast. Miðað við stöðu mála í dag þá eru ekki líkur á því. Það þýðir hins vegar ekki að við eigum að leggja árar í bát. Þvert á móti eigum við að halda áfram að vinna að undirbúningi þess að farið verði í Kárahnjúkavirkjun og byggingu álvers á Reyðarfirði.

Af hálfu stjórnvalda, sveitarfélaganna á svæðinu og Landsvirkjunar er málið eins vel undirbúið og frekast er kostur. Allir samningar liggja meira og minna fyrir í drögum og Alþingi samþykkti fyrr í þessari viku lög sem heimila iðnaðarráðherra að gefa út virkjanaleyfi vegna Kárahnjúkavirkjunar.

Sveitarfélögin á svæðinu hafa verið að styrkja innviði sína til undirbúnings stórframkvæmdum á Austurlandi og þau munu halda því áfram. Ráðuneytin munu, eftir því sem hægt er, aðstoða sveitarfélögin í þeirri vinnu sem er framundan. Þá hefur verið unnið að nauðsynlegum samgöngubótum. Í því sambandi má nefna að unnið er að endurbótum á veginum milli Reyðarfjarðar og Sómastaða, en áætlað er að sú framkvæmd kosti um 185 milljónir króna. Þá lýkur vegarframkvæmdum í Fljótsdal um mitt sumar en kostnaður við þær framkvæmdir nemur um 650 millj. kr. Áfram þarf að vinna að endurbótum á veginum milli Reyðarfjarðar og Eskifjarðar.

Athygli vekur að framangreind verkefni hafa öll komið í hlut austfirskra verktaka að undangengnu útboði. Þá liggur fyrir mat á umhverfisáhrifum vegna byggingar jarðganga milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar. Unnið er að hönnun og forvalsgögn verða tilbúin í sumar. Stór verkefni eru því framundan á sviði samgangna á Austurlandi.

Vel hefur verið staðið að undirbúningi atvinnulífsins á Austurlandi fyrir uppbyggingu orkufreks iðnaðar. Faghópar skiluðu tillögum sínum í formi ályktana um miðjan nóvember sl. Í framhaldi af því var skipuð framkvæmdanefnd til að vinna að framgangi málsins. Fjárfestingarstofan orkusvið sem er í eigu iðnaðarráðuneytisins og Landsvirkjunar hefur stutt við bakið á þeirri vinnu sem fram hefur farið.

Góðir þinggestir

Undirbúningur að því að fá nýja aðila að uppbyggingu álversins er kominn í fullan gang. Sá mikli undirbúningur sem fram hefur farið mun hjálpa mikið í þeirri vinnu og það ætti ekki að taka marga mánuði áður en niðurstaða fæst um það hvort einhverjir aðrir en Norsk Hydro og Reyðarál hafi áhuga á að koma að þessu verkefni. Ég er bjartsýn á að verkefnið muni ná fram að ganga og tel fulla ástæða fyrir austfirska verktaka og atvinnulífið í heild að halda áfram að vinna að nauðsynlegum undirbúningi. Ég vona að þingið í dag muni verða til þess að styrkja þennan undirbúning en frekar.

Með þessum orðum segi ég fræðsluþingið sett.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum