Hoppa yfir valmynd
23. apríl 2002 Matvælaráðuneytið

Norrænn ráðherrafundur á Svalbarða - Upplýsingatækni

Norrænn ráðherrafundur á Svalbarða 25.-26. apríl 2001
- Upplýsingatækni og viðskipti á Netinu.



Á fundinum var lagt fram til umræðu innlegg viðskiptaráðherra um upplýsingatækni og viðskipti á Netinu.
ÍSLAND
Innlegg til umræðu
Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar - og viðskiptaráðherra

Upplýsingatækni - og viðskipti á Netinu

I. Inngangur

1. Á síðasta ráðherrafundi sem haldinn var í Helsinki í fyrra þá var einmitt sami dagskrárliður á sameiginlega fundinum þ.e. upplýsingatæknin og viðskipti á Netinu. Það sýnir glöggt mikilvægi þessa málefnis og að erfitt er að komast hjá umræðu um það þegar ræða á um mikilvæg hagsmunamál fyrir neytendur og viðskiptalífið í dag. Því hefur verið haldið fram að Netbyltinguna megi telja vera þriðju stærstu byltingu mannkynsins eftir þá fyrstu sem fólst í myndun borgarsamfélagsins og svo iðnbyltingarinnar. Almennt er nú viðurkennt að forsendur þess að ná megi betri árangri með hinni nýju tækni liggi ekki í hinum tæknilegu þáttum heldur hvernig við getum fengið fólk til þess að nota og beita þessari tækni á sem skilvirkastan hátt. Hversu oft höfum við ekki heyrt um þá kosti sem felast í hinni nýju tækni, s.s sparnað, aukin velta í viðskiptum, betri samskiptamöguleikar milli þeirra sem stunda viðskipti sín á milli og almennt meiri yfirsýn. Margar rannsóknir og reynsla úr viðskiptalífinu sýna að þetta er ekki goðsögn heldur er margvíslegur sannleikur í þessu fólginn. Rannsóknir hafa einnig sýnt að Netið getur fært okkur margháttaðan samfélagslegan ávinning. Mestur verður þó ávinningurinn í þeim samfélögum sem byggja nú þegar á góðum grunngildum í félagslegu tilliti og notfæra sér Netið til þess að þróa enn frekar þær góðu vinnuaðferðir og hið þróaða verklag sem þær styðast nú þegar við án notkunar á tölvutækninni.

II. Sameiginleg norræn stefna um vefviðskipti

2. Norrænu ríkin standa þjóða fremst í heimi m.t.t. aðgangs og notkunar almennings að Netinu. Norðurlöndin hafa jafnframt verið að þróa löggjöf sína og þannig lagt grunn að því að neytendur og viðskiptalífið öðlist traust og notfæri sér meira hina nýju tækni. Allar þær lagareglur sem hér er vikið að og eru að meira eða minna leyti samræmdar eru mikilvægar byggingareiningar í þeirri heildar skilvirkni sem að er stefnt með fullkominni hagnýtingu hinnar nýju tækni. Á síðustu árum tuttugustu aldar sáum við mikinn vöxt hjá netfyrirtækjum sem síðan féll saman með tilheyrandi verðfalli á hlutabréfum þessara fyrirtækja og vonbrigðum fjárfesta í þessum fyrirtækjum. Samhliða þessari þróun hefur jafnframt verið að mótast alveg ný hugsun í viðskiptalífinu varðandi þá aðferð sem vænlegust er til þess að ná hámarks árangri með hinni nýju tækni. Til þess að svo megi verða er mikilvægt að sameiginlega takist aðilum í viðskiptalífinu að greina og verða sammála um þá almennu staðla sem þeir vilja nota í viðskiptum sín á milli. Hér á ég við staðla í víðasta skilningi þess orðs þ.e. a.s. ekki aðeins tæknilegu staðlana heldur einnig samræmt verklag sem nauðsynlegt er að viðhafa til að ná árangri í vefviðskiptum og rafrænni stjórnsýslu.

Spurningar: Að hvaða leyti telja hin Norðurlöndin að mikilvægt sé að auka samræmingu og samruna verkferla til þess að unnt sé að ná betri árangri í netviðskiptum? Geta þau nefnt dæmi um þetta?

3. Til þess að unnt sé að skapa traust og trúverðugleika á netviðskiptum er mikilvægt að samvinna komist á milli þeirra er fara með málefni neytenda annars vegar og þeirra sem fara með málefni atvinnulífsins sem hafi það að markmiði að leggja drög að víðtækri og "saumlausri" lausn og heildarsýn á netviðskipti. Slík sameiginleg norræn stefnuáætlun um vefviðskipti ætti að hafa til hliðsjónar öll þau einstöku atriði sem nú þegar hafa náð fram að ganga og eiga að tryggja skilvirk og örugg netviðskipti samkvæmt ákvæðum í þegar samþykktum lögum. Slík saumlaus lausn á þó ekki aðeins að byggja á lagaákvæðum heldur taka tillit til viðskiptaumhverfisins í heild og hvaða atriði liggja til grundvallar að velheppnaðri áætlun um framgang netviðskipta. Í þessu sambandi vakna einnig mikilvægar spurningar um hvaða kröfur muni stjórnvöld gera í sambandi við rafrænar undirskriftir? Er það í hlutverki stjórnvalda að tryggja að allir samfélagsþegnarnir eigi rétt á að minnsta kosti einni rafrænni undirritun sem unnt er að nota í samskiptum þeirra og stjórnvalda? Mikilvægt er að allir þátttakendur þ.e. frá viðskiptalífinu, neytendur og fulltrúar hins opinbera skiptist á skoðunum og taki þannig sameiginlega þátt í að vefa slíka saumlausa lausn fyrir viðskiptalífið á Norðurlöndum. Í kjölfar samþykktar á fundi okkar í fyrra að skoða nánar þau skilyrði sem ligga til grundvallar að netverslanir nái árangri þá var sett á laggirnar þverfagleg nefnd milli neytendasviðs og fulltrúa er huga að sjónarmiðum atvinnulífsins. Það getur því verið ákjósanlegt að fela þessum vinnuhópi að draga betur fram en hér hefur verið gert hvaða þættir það eru sem Norðurlöndin telja að séu mikilvægir og eigi að falla inn í heildarstefnumótun um vefviðskipti á Norðurlöndum. Ég hlakka til að sjá þær niðurstöður sem þessi vinnuhópur mun skila í framtíðinni.

Spurningar: Hver eru sjónarmið hinna Norðurlandanna um gerð samnorrænnar stefnuáætlunar um vefviðskipti? Hvaða meginþættir eiga þar heima og ber að taka tillit til við mótun og undirbúning stefnunnar?


III. Skilvirkni við meðferð kvörtunarmála vegna viðskipta milli landa

4. Mikilvægur hlekkur í þróun netviðskipta innan og yfir landamæri ríkja er að neytendur eigi greiðan aðgang að ódýrum lausnum við úrlausn kvörtunarmála þegar vanefndir koma upp í viðskiptum við seljendur á vörum og þjónstu. Í október mánuði í fyrra ýtti Evrópusambandið úr vör sameiginlegu samstarfsneti sem ætlað er að greiða fyrir meðferð mála sem leggja á fyrir úrskurðarnefndir sem starfa að úrlausn deilumála utan dómstóla (e. EEJ Net og sbr. Evrópska neytendaaðstoðin á Íslandi). Þetta sameiginlega samstarfsnet nær til allra þátttökuríkja á Innri markaði ESB og þar með talið til Íslands vegna EES-samstarfsins. Í hverju ríki hafa því nú verið tilnefndir tengiliðir sem munu hafa það hlutverk að tryggja að ágreiningsmál berist með greiðum hætti hlutaðeigandi úrskurðarnefndum sem starfa í hverju aðildarríki fyrir sig. Þetta er mikilvæg þróun jafnt fyrir neytendur sem og viðskiptalífið sem vilja nýta sér aukin tækifæri sem felast í netviðskiptum. Það má telja nokkuð ljóst að hraðinn í þróun netviðskipta í einstökum greinum verður mismunandi og þannig er t.d. sanngjarnt að ætla að ferðaþjónustan verði e.t.v. framar öðrum atvinnugreinum sem kunna að þróa sína viðskiptahætti smám saman í átt að auknum netviðskiptum. Því má þó slá föstu að til lengri tíma litið þá hafa allir þátttakendur í viðskiptalífinu mikilla hagsmuna að gæta að þetta samstarf sé eins skilvirkt og kostur er.

5. Í þessu sambandi er því mikilvægt að þeir sem bera ábyrgð á uppbyggingu samstarfsins taki tillit til allra nýjustu tækni sem völ er á og er nothæf til að byggja upp stjórnsýslu yfir landamæri þátttökuríkjanna. Það kann að vera erfitt viðfangs að byggja upp skilvirka stjórnsýslu innan landamæra ríkja og því kann það að vera enn meiri áskorun að takast megi að byggja upp skilvirkt stjórnsýslukerfi að þessu leyti yfir landamæri ríkjanna í Evrópu. Norrænu ríkin verða því að tryggja að við uppbygginguna verði reynt að styðjast við nýjustu tækni við notkun Netsins og hugbúnaðarkerfa sem styðja við heildstæðar lausnir. Það á þó ekki að koma í veg fyrir að unnt verði að nota samhliða venjulegar og hefðbundnar aðferðir sem neytendur nota og þekkja í dag þegar mál eru lögð fram hjá úrskurðarnefndum. Jafnframt ætti slík lausn að auðvelda og gera öllum skrifstofum tengiliðanna fært að vinna sameiginlega að stjórnsýslunni eins og unnt er. Samtímis verður einnig að gæta að því að aðrir aðilar sem hafa hagsmuna að gæta, t.d. neytendur, aðilar í viðskiptalífinu og úrskurðarnefndir sem eru starfandi í hverju ríki fyrir sig, hafi greiðan aðgang að samstarfsnetinu og þeim upplýsingum sem þar verða til.

Spurningar: Mun heildstæð hugbúnaðarlausn sem styður stjórnsýslu vegna meðferðar mála sem leggja á fyrir úrskurðarnefndir yfir landamæri vera mikilvægt tæki til þess að tryggja hagsmunaðilum greiðan aðgang að samstarfsnetinu svo og umsjónaraðilum þess mikilvægt stjórntæki til umsýslunnar? Telja löndin að með notkun á slíkum lausnum verði meira öryggi tryggt varðandi meðferð mála og almennt stuðla að betra réttaröryggi vegna slíkra mála á hinum sameiginlega Innri markaði?

IV. Upplýsingatækni og netviðskipti: Hið norræna sjónarhorn

6. Á öllum Norðurlöndunum fer nú fram einhver vinna hjá mörgum mismunandi aðilum þar sem rannsakaðar eru og undirbúnar áætlanir um með hvaða hætti megi ná meiri og betri árangri í netviðskiptum. Okkar skoðun er að það sé mikilvægt að norrænu ríkin tryggi að embættismenn þeirra vinni að svo miklu leyti sem unnt er að slíkri stefnumótun. Auk þess er jafn mikilvægt að við á Norðurlöndunum hyggjum að því hvernig okkur hefur tekist í raun að setja í framkvæmd ýmsar stefnuáætlanir, aðgerðir og eða tilmæli sem hafa verið ákveðin í lögum eða af aðilum viðskiptalífsins. Takist okkur á Norðurlöndum að setja fram tillögur um áhrifaríkar og saumlausar lausnir þá má telja öruggt að þær megi endurnýta og setja fram á hinum alþjóðlega Internetmarkaði. Áhugavert verður að heyra sjónarmið annarra Norðurlanda og tillögur á þessum fundi um þau sjónarmið sem hér hafa verið sett fram.










Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum