Hoppa yfir valmynd
26. apríl 2002 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Viðurkenning til leikskólans Norðurbergs

Umhverfisráðuneytinu, 26. apríl 2002


Fréttatilkynning nr. 6/2002

Efni: Umhverfisráðherra veitir leikskólanum Norðurbergi viðurkenningu í tilefni af Degi umhverfisins


Siv Friðleifsdóttir umhverfisráðherra veitti í dag leikskólanum Norðurbergi í Hafnarfirði viðurkenningu fyrir brautryðjendastarf í umhverfismálum leikskóla.

Leikskólar hafa í miklum og vaxandi mæli sinnt umhverfisfræðslu á síðustu árum og standa fyllilega jafnfætis öðrum skólastigum hvað varðar áhuga og framtak á sviði umhverfismála. Norðurberg í Hafnarfirði hefur þar unnið brautryðjendastarf undir forystu leikskólastjórans þar, Önnu Borg Harðardóttur.

Starf að umhverfismálum í Norðurbergi hófst fyrir sex árum, fljótlega eftir að Anna réðst til starfa við leikskólann. Leikskólinn fékk styrk til að vinna að þróunarverkefni, sem hlaut nafnið Umhverfismennt í leikskóla. Skýrslu um verkefnið var skilað til menntamálaráðuneytisins árið 1998 og hefur það nýst öðrum leikskólum til þess að hefja starf að umhverfismálum. Leikskólastjórinn hefur einnig heimsótt leikskóla víða á höfuðborgarsvæðinu til að fræða þá um starfið á Norðurbergi. Á Norðurbergi eru börnin frædd um náttúruna á þann hátt sem hentar ungum börnum best, með því að fara með þeim um nánasta umhverfi sitt og segja þeim frá því sem ber fyrir augu. Allt sorp er flokkað og allar matarleifar og annar lífrænn úrgangur jarðgerður. Fernur eru skolaðar og börnin læra að láta ekki vatn renna að óþörfu eða ljós loga í dagsbirtu.

Nú er haldið upp á Dag umhverfisins í fjórða sinn frá því að ríkisstjórnin ákvað að halda hann hátíðlegan 25. apríl ár hvert, á fæðingardegi Sveins Pálssonar, fyrsta íslenska náttúrufræðingsins og þess manns sem einna fyrstur Íslendinga hvatti til aðgerða gegn skógareyðingu. Norðurberg hefur frá upphafi verið með sérstakan hreinsunardag í tilefni af Degi umhverfisins. Þar sem daginn bar að þessu sinni upp á sumardaginn fyrsta var ákveðið að bíða í einn með að afhenda viðurkenninguna, til þess að hún færi fram meðan á hreinsunardeginum og skólastarfi stendur.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum