Hoppa yfir valmynd
7. maí 2002 Dómsmálaráðuneytið

Samstarf gegn skipulagðri glæpastarfsemi - ráðherrafundur

Samstarf gegn skipulagðri glæpastarfsemi, ráðherrafundur

Fréttatilkynning
Nr. 8/ 2002


Sólveig Pétursdóttir dómsmálaráðherra sækir í dag og á morgun (6.-7. maí) fund ráðherra Eystrasaltsráðsríkjanna sem fara með lögreglusamvinnu. Til fundarins eru boðaðir, af hálfu þýska innanríkisráðherrans Otto Schily, dóms- og innanríkisráðherrar Norðurlandanna fimm, Póllands, Eistlands, Lettlands, Litháens og Rússlands, en ríkin eru öll aðilar að Eystrasaltsráðinu.

Meginefni fundarins er umræður um samstarfsverkefni Eystrasaltsríkjanna gegn skipulagðri glæpastarfsemi, en á vettvangi Eystrasaltsráðsins, sem Ísland á aðild að, hefur starfað sérstakur starfshópur sem skipuleggur baráttuna gegn alþjóðlegri glæpastarfsemi.

Samvinna ríkjanna á þessum vettvangi hefur verið mjög víðtæk og náð til margra þátta. Fjölmörgum verkefnum hefur verið hrint í framkvæmd frá því að samstarfið hófst á leiðtogafundi Eystrasaltsríkja árið 1996. Hefur sjónum meðal annars verið beint að smygli á fíkniefnum, mansali, baráttunni gegn skipulögðum glæpasamtökum og fleira. Nánari upplýsingar um starfsemina má finna á heimasíðu starfshópsins, www.balticseataskforce.dk.

Á fundinum verða ræddar hugmyndir um útvíkkun á samstarfi ríkjanna og framtíðarskipulag á því. Verður meðal annars fjallað um tengsl skipulagðrar glæpastarfsemi og hryðjuverka, aukna þjálfun lögreglumanna og hvernig unnt er að efla upplýsingaskipti lögregluliðanna í ríkjunum.

Í för með ráðherra eru Ingvi Hrafn Óskarsson aðstoðarmaður ráðherra og Stefán Eiríksson skrifstofustjóri.

Nánari upplýsingar gefur aðstoðarmaður dómsmálaráðherra, Ingvi Hrafn Óskarsson, í síma 863-2365.


Í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu,
6. maí 2002.


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum