Hoppa yfir valmynd
15. maí 2002 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Fréttatilkynning nr. 17/2002. Fundur fjármálaráðherra OECD 15. maí 2002 í París.

Dagana 15.-16. maí er haldinn í París árlegur ráðherrafundur Efnahagssamvinnu- og þróunarstofnunarinnar, OECD. Fyrri daginn var einkum fjallað um almenn efnahags- og ríkisfjármál og sótti Geir H. Haarde, fjármálaráðherra, þann hluta fundarins fyrir Íslands hönd.

Fjallað var um stöðu og horfur í efnahagsmálum, m.a. í ljósi þess að þeirri niðursveiflu sem gætt hefur í alþjóðaefnahagsmálum að undanförnu virðist nú vera að ljúka. Sérstaklega var rætt um mikilvægi aðgerða stjórnvalda á sviði peninga- og ríkisfjármála án þess að ganga of langt og ýta undir þenslu. Einnig var fjallað um leiðir til þess að auka hagvöxt og samkeppnishæfi þjóða með áframhaldandi kerfisbreytingum og afnámi ýmissa markaðshafta. Sérstaklega var rætt um efnahagsstöðuna í Bandaríkjunum, Evrópu og Japan, sem og neikvæðar aðgerðir einstakra ríkja á viðskiptasviðinu.

Geir H. Haarde, fjármálaráðherra, benti á að víða væri þörf fyrir róttækar skipulagsbreytingar í efnahagslífinu, ekki síst í Evrópu, þ.á.m. á vinnumarkaði, í landbúnaði, skatta- og lífeyrismálum og í átt til einkavæðingar. Hann nefndi að á Íslandi hefði verið gripið til víðtækra skattkerfisbreytinga, m.a. lækkun á tekjuskatti fyrirtækja úr 30% í 18%. Staða lífeyrismála væri ekki sama vandamál á Íslandi og annars staðar enda hefðu breytingar á lífeyrissjóðakerfinu hafist á áttunda áratugnum. Ennfremur ítrekaði ráðherrann mikilvægi frjálsra alþjóðaviðskipta og hvatti Bandaríkin og Evrópusambandsríkin til að leysa ágreiningsmál sín á þessu sviði hið fyrsta.

Á síðari hluta fundar fjármálaráðherranna var rætt um hvernig skuli tryggja aukið gagnsæi í alþjóðaviðskiptum og fjármálum enda séu fyrirtæki nú í auknum mæli að starfa á alþjóðavettvangi. Meðal annars var rætt um hvernig bæta megi eftirlit með fyrirtækjum og fjármálum þeirra og hvernig hægt sé að sporna við mútum, peningaþvætti og fleiri glæpum.

Yfirlýsingu ráðherrafundarins í heild sinni er að finna á heimasíðu OECD: www.oecd.org


Fjármálaráðuneytinu, 15. maí 2002

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum