Hoppa yfir valmynd
23. maí 2002 Matvælaráðuneytið

Yfirlýsing Íslands á fundi Alþjóða hvalveiðiráðsins 21.05.02

Yfirlýsing Íslands


Í gær urðum við vitni að fjölda ólögmætra aðgerða. Þegar fjallað var um aðild Íslands að stofnsamningi Alþjóðahvalveiðiráðsins voru framin brot á almennum reglum þjóðaréttar, stofnsamningi ráðsins og fundarsköpum þess.

1. Bandaríkin brugðust skyldu sinni sem vörsluaðili stofnsamningsins. Ísland afhenti nýtt aðildarskjal 14. maí 2002. Samkvæmt 10. gr. samningsins hafa Bandaríkin sem vörsluaðili þá skyldu eina að tilkynna öðrum aðildarríkjum um aðildarskjöl sem tekið hefur verið við. Samkvæmt sömu grein verður ríki sjálfkrafa aðili að samningnum á afhendingardegi aðildarskjals þess. Bandaríkin fóru ekki með aðildarskjal Íslands á sama hátt og önnur ný aðildarskjöl og tilkynntu Ísland ekki sem aðildarríki að samningnum. Þar með misnotuðu Bandaríkin stöðu sína sem vörsluaðili og brutu gegn samningnum.

2. Formaður Alþjóðahvalveiðiráðsins, Bo Fernholm frá Svíþjóð, braut gegn stofnsamningnum með því að viðurkenna ekki aðild Íslands í samræmi við aðildarskjal þess.

3. Formaður Alþjóðahvalveiðiráðsins braut einnig fundarsköp ráðsins. Fulltrúi Noregs kvaddi sér hljóðs varðandi fundarsköp og véfengdi vald ráðsins til að samþykkja eða hafna aðild Íslands að ráðinu. Samkvæmt ákvæði F. 2 (b) í fundarsköpum ráðsins hefur formaðurinn þá skyldu að úrskurða um öll álitamál varðandi fundarsköp sem upp koma á fundum ráðsins. Formaðurinn ákvað að virða þessa skyldu að vettugi, að taka þetta mál ekki fyrir og að loka umræðu um viðkomandi dagskrárlið. Ákvörðun þessi kann að tengjast þeirri staðreynd að meirihluti aðildarríkja stofnsamningsins lítur nú svo á að Alþjóðahvalveiðiráðið hafi ekki vald til að samþykkja eða hafna aðild Íslands að ráðinu.

4. Með því að neita að viðurkenna Ísland sem aðila að Alþjóðahvalveiðiráðinu braut meirihluti aðila ráðsins gegn almennum reglum þjóðaréttar og stofnsamningi ráðsins.

Allar tilraunir til að viðurkenna Ísland ekki sem aðila að Alþjóðahvalveiðiráðinu eru ólögmætar og hafa því ekki áhrif á stöðu Íslands sem aðila. Nærri helmingur aðila ráðsins lítur á Ísland sem aðila að því. Ísland telur atburði gærdagsins algjörlega óásættanlega og hefur því ákveðið að taka ekki frekari þátt í þessum fundi Alþjóðahvalveiðiráðsins.


21. maí 2002

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum