Hoppa yfir valmynd
5. júní 2002 Matvælaráðuneytið

Leyfilegur heildarafli á fiskveiðiárinu 2002/2003

Fréttatilkynning

Leyfilegur heildarafli á fiskveiðiárinu 2002/2003


Ráðuneytið hefur í dag gefið út reglugerð um leyfilegan heildarafla á fiskveiðiárinu 2002/2003. Fyrir fiskveiðiárið er leyfilegur heildarafli sem hér segir:
          Tegund Lestir

          Þorskur 179.000
          Ýsa 55.000
          Ufsi 37.000
          Steinbítur 16.000
          Karfi 60.000
          Grálúða 23.000
          Sandkoli 4.000
          Skrápflúra 5.000
          Skarkoli 5.000
          Þykkvalúra 1.600
          Langlúra 1.500
          Keila 3.500
          Langa 3.000
          Skötuselur 1.500
          Síld 105.000
          Úthafsrækja 23.000
          Innfjarðarækja 1.400
          Hörpudiskur 4.150
          Humar 1.600


Ákvörðunin um leyfilegan heildarafla felur í sér liðlega 2,4% aukningu aflamagns í þorskígildum talið frá yfirstandandi fiskveiðiári og er þá miðað við upphafsúthlutun í rækju bæði árin. Á síðasta ári var upphafsúthlutun rækju 17 þúsund tonn. Sé gert ráð fyrir að heildarafli rækju verði sá sami á komandi fiskveiðiári og á yfirstandandi ári lætur nærri, miðað við áætlað útflutningsverðmæti í dag, að útflutningsverðmæti þeirra tegunda sem ákvörðunin nær til verði óbreytt á milli fiskveiðiáranna 2001/2002 og 2002/2003.

Upphafsúthlutun á heildarafla úthafsrækju nemur 2/3 af leyfilegum heildarafla yfirstandandi fiskveiðiárs. Endanleg ákvörðun verður tekin að fengnum nýjum tillögum Hafrannsóknastofnunarinnar. Þá munu endanlegar ákvarðanir um heildarafla á innfjarðarækju einnig liggja fyrir í haust að loknum frekari rannsóknum á einstökum svæðum.

Heildaraflamarki í humri verður ekki skipt eftir svæðum að þessu sinni eins og Hafrannsóknastofnunin leggur til. Hins vegar mun sjávarútvegsráðherra skipa starfshóp sem mun hafa það hlutverk að fara ítarlegar yfir það mál svo og ýmis önnur mál er varða humarveiðarnar s.s. veiðarfæri, veiðitíma, meðafla og brottkas.
Sé litið til tillagna Hafrannsókastofnunarinnar þá verða veittar veiðiheimildir umfram tillögur í ufsa, skarkola og steinbít. Því verður heimilt að veiða 37.000 tonn af ufsa í stað 35.000 tonna, 5.000 tonn af skarkola í stað 4.000 tonna. Þá verður heildaraflamark í steinbít það sama og á yfirstandandi fiskveiðiári eða 16.000 tonn í stað 15.000 tonna skv. tillögum Hafrannsóknastofnunarinnar.

Verið er að fara betur yfir gögn er varða djúpkarfastofninn annars vegar og gullkarfastofninn hins vegar með það í huga að skipta úthlutuninni milli þeirra í stað óskiptrar úthlutunar eins og venja hefur verið.

Sjávarútvegsráðuneytið 5. júní 2002

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum