Hoppa yfir valmynd
10. júní 2002 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Bréf til skóla um evrópskan tungumáladag 26. september 2002

Til leik-, grunn-, framhalds- og háskóla



Evrópskur tungumáladagur 26. september 2002

Árið 2001 var Evrópskt tungumálaár og tók Ísland þátt ásamt 44 öðrum Evrópulöndum. Dagskrá ársins var fjölbreytt. Hæst bar Evrópskan tungumáladag 26. september síðastliðinn.

Evrópuráðið hefur nú ákveðið að halda Evrópskan tungumáladag hátíðlegan 26. september ár hvert og hefur hvatt aðildarlönd til þátttöku. Þema tungumáladagsins árið 2002 er: Símenntun í tungumálanámi. Evrópuráðið leggur áherslu á að framkvæmd tungumáladagsins taki mið af aðstæðum í hverju landi.

Markmið með Evrópska tungumáladeginum er að:
  • vekja athygli á mikilvægi tungumálakunnáttu og fjölbreytts tungumálanáms til að auka fjöltyngi og skilning á ólíkri menningu þjóða
  • stuðla að því að viðhalda fjölbreytileika tungumála og menningar í Evrópu
  • hvetja til símenntunar í tungumálanámi bæði innan skólakerfisins og utan þess.

    Menntamálaráðuneytið hvetur skóla og aðrar fræðslustofnanir til að bregðast með einhverjum hætti við ósk Evrópuráðsins um Evrópskan tungumáladag 2002 og vekja þannig athygli á mikilvægi tungumálakunnáttu og símenntunar í tungumálum. Á heimasíðu menntamálaráðuneytisins má finna ýmsar hugmyndir að aðgerðum á tungumáladeginum frá Evrópsku tungumálaári 2001 (http://menntamalaraduneyti.is/mrn/mrn.nsf/pages/Althjodlegt). Jafnframt er bent á heimasíðu Evrópuráðsins þar sem smám saman verða settar upplýsingar um Evrópskan tungumáladag. Þar mun m.a. verða að finna dæmi um áhugaverð verkefni og aðgerðir. Slóðin er: www.coe.int (Languages).

    Menntamálaráðuneytið væntir þess að Evrópskur tungumáladagur 26. september ár hvert hafi jákvæð áhrif á tungumálanám og tungumálakennslu í skólum og verði einstaklingum hvatning til símenntunar í tungumálanámi.



    Afrit sent skólaskrifstofum, skólanefndum og ýmsum fræðslustofnunum.

    (Maí 2002)
  • Hafa samband

    Ábending / fyrirspurn
    Ruslvörn
    Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum