Hoppa yfir valmynd
20. júní 2002 Matvælaráðuneytið

Aðalfundur Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar.

Valgerður Sverrisdóttir,
iðnaðar- og viðskiptaráðherra.


Ávarp á aðalfundi Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar
á Hótel KEA, Akureyri, 19. júní 2002



Góðir fundarmenn

Á undanförnum árum hefur höfuðborgarsvæðið verið langöflugasta vaxtarsvæðið á landinu, og raunar það svæði sem hlutfallslega hefur vaxið örast á Norðurlöndum og þótt víðar væri leitað. Mestur vöxtur hefur verið þar, í þekkingargreinum, þjónustugreinum og almennum fjárfestingum. Hinn öri vöxtur og fjölbreytni í atvinnu og þjónustu hefur laðað fjölda nýrra íbúa að svæðinu bæði af landsbyggðinni og í auknum mæli erlendis frá. Ekkert bendir til annars en að höfuðborgarsvæðið verði áfram helsta vaxtarsvæði landsins.

Við stefnumótun í byggðamálum er nauðsynlegt að taka raunsætt mið af yfirburðarstærð og vægi höfuðborgarsvæðisins í íslensku samfélagi. Annars vegar er höfuðborgarsvæðið alþjóðlega samkeppnishæft borgarsvæði sem þjónar öllu landinu. Það gegnir lykilhlutverki fyrir smáþjóð á borð við Ísland sem vill bjóða landsmönnum sambærileg lífsskilyrði, atvinnukosti, menntun, menningu og þjónustu og eru meðal stórþjóða. Á hinn bóginn er aðdráttarafl höfuðborgarsvæðisins fyrir fólk, fyrirtæki og fjármagn svo sterkt að önnur byggðarlög í landinu eiga í erfiðleikum með að halda sínum hlut í samkeppninni, einkum þau sem ekki njóta nálægðar við það.

Það er mat þeirra sem unnu að gerð þeirrar byggðaáætlunar sem Alþingi samþykkti sl. vor að sú stefna sé líklegust til árangurs hér á landi sem eflir þau byggðarlög sem eru fjölmennust og eiga mesta möguleika til vaxtar í samkeppni við höfuðborgarsvæðið. Fjölbreytni í atvinnulífi, menningu og opinberri þjónustu þrífst fyrst og fremst á fjölmennum þéttbýlisstöðum. Stærstu byggðarlögin hafa því að jafnaði mest aðdráttarafl fyrir fólk og geta jafnframt virkað sem þjónustukjarnar og þekkingarmiðstöðvar fyrir heila landshluta. Uppbygging öflugra byggðakjarna á þó ekki að vera á kostnað fámennari byggðarlaga. Reynslan sýnir að nálægð við fjölmenna og vaxandi þéttbýlisstaði hefur mjög jákvæð áhrif fyrir sveitir og minni þéttbýlisstaði. Má þar nefna sem dæmi Eyjafjarðarsveit og uppsveitir Árnessýslu.

Eftir því sem höfuðborgarsvæðið stækkar og samgöngur batna verða áhrif þess á byggð í næstu héruðum meiri og ná smám saman lengra. Horfur eru á að allt svæðið frá Rangárþingi til Snæfellsness verði smám saman að einni öflugri heild þar sem byggðin muni standa traustum fótum. Þótt Akureyri vaxi jafnt og þétt er bærinn enn það fámennur að áhrif hans á byggðarlög utan Eyjafjarðar eru fremur takmörkuð, þó meiri til austurs en vesturs.

Mikil samþjöppun byggðar á Suðvesturlandi undanfarna áratugi er alveg hliðstæð því sem hefur gerst í nágrannalöndunum. Fámenn afskekkt byggðarlög eiga almennt undir högg að sækja, en byggðir nálægt fjölmennum þéttbýlisstöðum eflast. Margir kjósa að búa í fámennu byggðarlagi ef þeir geta jafnframt notið atvinnukosta og þjónustu borgarsamfélagsins. Samþjöppun byggðar er ferli sem verður ekki stöðvað. Það er verkefni stjórnvalda að taka þátt í þeirri þróun og beina henni í skynsamlegan farveg en ekki að berjast gegn henni.

Í nýsamþykktri þingsályktun um stefnu í byggðamálum fyrir árin 2002-2005 er gert ráð fyrir að unnið verði að gerð sérstakrar byggðaáætlunar fyrir Eyjafjörð. Áætlunin þarf að lýsa því með raunhæfum hætti hvernig hægt verði að efla byggð við Eyjafjörð og skapa skilyrði fyrir því að fólki fjölgi hér um a.m.k. 2-3% á ári. Takist það, er lagður grunnur að því að Eyjafarðarsvæðið og Akureyri geti myndað öflugt mótvægi við höfuðborgarsvæðið. Styrking Eyjafarðar mun jafnframt styrkja nærliggjandi svæði bæði í vestri og austri.

Í byggðaáætluninni segir að unnið verði að eflingu Akureyrar sem skóla bæjar og menningarmiðstöðvar á svæðinu. Þá verði unnið að eflingu ferðaþjónustu, fiskeldis og fleiri atvinnugreina á svæðinu. Jafnframt verði unnið að flutningi starfa og verkefna í opinberri þjónustu til svæðisins og er í því sambandi sérstaklega bent á starfsemi tengda sjávarútvegi. Loks er bent á þau sóknarfæri sem felast í eflingu á starfsemi Fjórðungssjúkrahússins.

Áríðandi er að afrakstur þeirrar vinnu sem framundan er, verði hnitmiðaður og þær tillögur sem fram verða settar stuðli að því að ná markmiðum áætlunarinnar. Sagan segir okkur að oft séu áætlanir sem þessar einungis misjafnlega óábyrg bænaskjöl eða kröfugerðarbálkar þar sem farið er fram á að fá sem mest, á sem skemmstum tíma. Hins vegar er ljóst að til að ná árangri þurfa tillögur um uppbyggingu að vera raunhæfar, kostnaðarmetnar og falla vel að þeim meginmarkmiðum sem stefnt er að. Þetta kallar ekki einungis á að þær tillögur sem settar verða fram séu ábyrgar, heldur einnig að þær séu studdar málefnalegum rökum, byggðum á staðreyndum sem geta stuðst við athuganir og rannsóknir ef þörf krefur. Slíkt er mjög mikilvægt til þess að byggðaáætlun fyrir Eyjafjörð verði trúverðug í augum ekki bara Eyfirðinga, heldur þjóðarinnar allrar.

Undirbúningur vegna vinnu við byggðaáætlun fyrir Eyjafjörð er hafin. Byggðastofnun og Byggðarannsóknarstofnun hér á Akureyri eru að yfirfara þau gögn og upplýsingar sem eru til staðar og nýst geta í vinnunni. Við gerð áætlunarinnar verður m.a. tekið mið af því verklagi sem þróað hefur verið við gerð svæðisbundinna byggðaáætlana á dreifbýlum svæðum í Skotlandi og á Norðurlöndunum þar sem víða hefur náðst eftirtektarverður árangur. Kjarninn í þessu verklagi er langtímahugsun og markviss beiting þekkingar og rannsókna. Í samræmi við þetta er nú þegar hafin vinna við öflun þekkingar og samantekt rannsókna um svæðið sem ætlað er að verða grundvöllur að þeirri stefnumótunarvinnu sem í hönd fer.

Að vinnu við mótun hinnar nýju byggðaáætlunar komu fjölmargir einstaklingar með ólíkan bakgrunn og búsetu. Við í ráðuneytinu vorum mjög ánægð með vinnu alls þess fólks sem tók þátt í starfinu og höfum hugsað okkar að halda áfram á sömu braut og leita eftir hugmyndum og samstarfi við fólk sem víðast af landinu. Það munum við jafnframt gera við gerð byggðaáætlunar fyrir Eyjafjörð.

Til að vinna að gerð byggðaáætlunar fyrir Eyjafjörð þá hef ég ákveðið að skipa þriggja manna verkefnisstjórn. Formaður verkefnisstjórnarinnar verður Sigmundur Ernir Rúnarsson, ritstjóri á Dagblaðinu. Við munum jafnframt leita eftir samstarfi við sveitastjórnarmenn, aðila úr atvinnulífinu, starfsmenn atvinnuþróunarfélaga, fólkið sjálft og aðra. Sérstakir hópar verða eflaust settir á fót til að fjalla um einstök málefni. Ég vænti þess að á miðju næsta ári liggi fyrir raunhæf aðgerðaáætlun um hvernig standa beri að uppbyggingu Eyjafjarðarsvæðisins.

Í hinni nýju byggðaáætlun eru ýmis önnur verkefni sem verður unnið að á næstunni. Þar vil ég nefna endurskipulagningu á atvinnuþróunarstarfi á landsbyggðinni og nýsköpunarmiðstöð á Akureyri. Gert er ráð fyrir að nýsköpunarmiðstöðin fái samtals 1.000 milljónir kr. til verkefna á gildistíma byggðaáætlunarinnar. Stefnt er að því að nýsköpunarmiðstöðin taki til starfa í haust.

Við erum að undirbúa vinnu við gerð sérstakrar athugunar á búsetuskilyrðum fólks. Niðurstaða athugunarinnar á að liggja fyrir um næstu áramót og þá verður hægt að taka afstöðu til þess hvort rétt sé að beita frekari aðgerðum til jöfnunar. Sama á við um athugun á starfsskilyrðum atvinnuveganna og mun niðurstaða liggja fyrir um næstu áramót.

Ísland hefur nú gerst formlegur aðili að Northern Peripherry áætluninni, í samræmi við hina nýju byggðaáætlun. Á fundi í verkefnisstjórn áætlunarinnar sem fram fór um síðustu helgi hlutu tvö verkefni með íslenskri þátttöku styrk. Háskólinn á Akureyri er aðili að öðru verkefninu. Við í ráðneytinu teljum að Íslendingar geti tekið þátt í mörgum verkefnum í þessari áætlun. Á næstu vikum mun ráðuneytið í samvinnu við Byggðastofnun kynna áætlunina fyrir atvinnuþróunarfélögum, sveitafélögum og öðrum sem kunna að hafa áhuga á að taka þátt í verkefnum sem falla undir verksvið áætlunarinnar.

Góðir fundarmenn

Eyjafjarðarsvæðið hefur alla burði til að eflast og mynda öflugt mótvægi við höfðuborgarsvæðið. Til þess að svo geti orðið þarf að líta til fjölmargra þátta. Því er mikilvægt að vinna sérstaka byggðaáætlun fyrir Eyjafjörð, þar sem tekið verður á öllum þáttum málsins. Ég vænti þess að eiga gott samstarf við Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar í þeirri vinnu sem framundan er.


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum