Hoppa yfir valmynd
21. júní 2002 Heilbrigðisráðuneytið

Fréttapistill vikunnar 15. - 21. júní 2002

Fréttapistill vikunnar
15. - 21. júní 2002



Ný upplýsingakerfi marka tímamót við mat á heilsufari aldraðra

Tvö upplýsingakerfi sem verkfræðistofan Stiki hefur unnið að í samvinnu við heilbrigðisráðuneytið verða tekin í notkun á næstunni. Kerfin munu marka tímamót við mat á heilsufari aldraðra. Annars vegar er um að ræða vistunarmat aldraðra vegna vistunar á öldrunarstofnun og hins vegar RAI-mat eða s.k. mat á raunverulegum aðbúnaði íbúa á öldrunarstofnunum en með því er hægt að bregða stiku á hve mikla vinnu og aðföng hver vistmaður þarf til sín svo honum sé örugglega veitt tilhlýðileg þjónusta, gæði þjónustunnar séu tryggð og kostnaður við hana sanngjarn. Nú eru bæði RAI-mælingarnar og vistunarmatið komin á rafrænt form. Verið er að tengja allar öldrunarstofnanir við heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið og landlæknisembættið vegna RAI-mælinganna en vistunarmatið mun berast um sama kerfi til ráðuneytisins frá þjónustuhópum aldraðra um allt land. Varsla, dulkóðun og umsjón með tæknilegum málum verður á hendi Stika. Persónuvernd er tryggð m.a. með nýjustu dulritunartækni og er hér um að ræða tilraunaverkefni á sviði íslenska heilbrigðisnetsins. Upplýsingakerfin tvö eru hluti af íslenska heilbrigðisnetinu sem er í stöðugri þróun. Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið mótaði á árunum 1996-1998 stefnu sína í upplýsingamálum. Í framhaldi af því var ráðist í fjölmörg verkefni á sviði upplýsingamála heilbrigðiskerfisins. Stærsta verkefnið er uppbygging og þróun heilbrigðisnets heilbrigðiskerfisins. Því er ætlað að verða farvegur rafrænna samskipta milli aðila innan heilbrigðisþjónustunnar. Um sendingar milli aðila munu gilda strangar öryggis- og starfsreglur. Verkfræðistofan Stiki fagnaði í vikunni 10 ára afmæli. Tímamótin voru ekki síst merkileg fyrir það að Stiki hefur náð þeim áfanga að verða fyrsta íslenska fyrirtækið sem breska staðlastofnunin BSI (British Standards Institution) öryggisvottar. Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, flutti ræðu í tilefni tímamótanna hjá Stika og sagði þar meðal annars: ,,Það er afar mikilvægt fyrir heilbrigðisþjónustuna að hún geti nýtt sér upplýsingatækni í heilbrigðisþjónustunni til að bæta heilsufar þjóðarinnar á næstu árum. Gagnaöflun, aukið gagnaöryggi og greiður aðgangur að þeim ræður mestu um það hvort okkur tekst vel til eða illa á þessu sviði. Greiðari aðgangur að heilsufarsgögnum leiðir óhjákvæmlega til skjótari ákvarðana, fyrir utan að meðferð verður markvissari og áreiðanlegri."
RÆÐA RÁÐHERRA...

Útgjöld til heilbrigðismála hafa hækkað um 3,1 milljarð frá fyrra ári
Heildartekjur ríkissjóðs hækkuðu um sex milljarða króna eða 6,5% fyrstu fimm mánuði þessa árs frá sama tímabili í fyrra. Heildartekjur námu samtals 92 milljörðum króna. Skatttekjur ríkissjóðs hækkuðu hins vegar minna eða um 5,5% meðan almennar verðbreytingar námu 8% fyrstu fimm mánuði ársins. Á umræddu tímabili var handbært fé frá rekstri neikvætt um 8,9 milljarða miðað við 5,1 milljarð á sama tíma í fyrra og hreinn lánsfjárjöfnuður var neikvæður um 8,2 milljarða nú en 7,2 í fyrra. Helstu skýringar á lakari greiðsluafkomu eru raktar til umtalsverðrar útgjaldaaukningar til heilbrigðis- félags- og tryggingamála, auk vaxta. Þetta kemur fram í nýju vefriti fjármálaráðuneytisins þar sem fjallað er um greiðsluafkomu ríkissjóðs og skilvirkari ríkisrekstur. Þar má sjá að útgjöld til félagsmála eru 58,7 milljarðar króna og vega tæp 60% af heildarútgjöldum ríkissjóðs. Munar þar mestu um heilbrigðismál þar sem útgjöld hækka um 3,1 milljarð frá fyrra ári í samtals 24,4 milljarða króna. Útgjöld til almannatrryggingar hafa hækkað um 1,2 milljarða króna, þ.e. um 7% en það er hlutfallslega lægri hækkun en í öðrum málaflokkum.
VEFRIT FJÁRMÁLARÁÐUNEYTISINS...

Skipað í fagráð Heyrnar- og talmeinastöðvar Íslands
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hefur skipað í fagráð Heyrnar- og talmeinastöðvar Íslands, samkvæmt lögum nr. 97/1990 um heilbrigðisþjónustu. Fagráðið er skipað til fjögurra ára frá 1. júní 2002 til 31. maí 2006. Hlutverk þess er að vera framkvæmdastjóra til ráðuneytis um fagleg málefni og stefnumótun. Formaður fagráðsins er Jóhannes Pálmason, lögfræðingur, hjá Landspítala - háskólasjúkrahúsi. Varaformaður er Hannes Petersen, yfirlæknir hjá Landspítala - háskólasjúkrahúsi. Aðrir aðalmenn í fagráðinu eru Þóra Másdóttir, talmeinafræðingur hjá Talþjálfun Reykjavíkur, Málfríður Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri hjá Heyrnarhjálp og Ragnar Davíðsson hjá Nýrri rödd. Varamenn eru Sigurður Júlíusson, læknir hjá Landspítala - háskólasjúkrahúsi. Valgerður Stefánsdóttir, forstöðumaður Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra. Bryndís Guðmundsdóttir, talmeinafræðingur hjá Talþjálfun Reykjavíkur. Hafdís Gísladóttir, framkvæmdastjóri Félags heyrnarlausra og Björn Tryggvason hjá Málbjörg. Ákveðið hefur verið að varamenn verði boðaðir á fundi fagráðsins.

Nýr framkvæmdastjóri Vísindasiðanefndar
Ráðinn hefur verið nýr framkvæmdastjóri Vísindasiðanefndar, Ólöf Ýrr Atladóttir, M.Sc. Á skrifstofu Vísindasiðanefndar eru veittar upplýsingar um lög og reglur er varða framkvæmd vísindarannsókna, um afgreiðslu umsókna til Vísindasiðanefndar og um rétt þátttakenda í vísindarannsóknum. Helsta hlutverk Vísindasiðanefndar er að meta umsóknir um rannsóknir sem fyrirhugað er að gera á mönnum og sem varða heilsu þeirra á einn eða annan hátt. Sem dæmi má hér nefna rannsóknir sem varða erfðir sjúkdóma hjá mönnum, tilraunir með ný lyf eða nýjar meðferðir til að linna sjúkdómum, og rannsóknir sem lúta að söfnun og/eða úrvinnslu heilbrigðisupplýsinga, m.a. úr sjúkraskrám og spurninga- eða viðtalskönnunum. Skrifstofa Vísindasiðanefndar er að Laugavegi 103, 105 Reykjavík, 5. hæð.

Slysaskrá Íslands fær fimm milljóna króna styrk frá Rannís
Styrkveitingar úr markáætlun Rannsóknarráðs Íslands um upplýsingatækni og umhverfismál voru kynntar 13. júní s.l. Er það í fjórða skipti sem úthlutað er úr sjóðnum. Ellefu umsóknir um framhaldsstyrki bárust Rannís og þrjár umsóknir um ný verkefni. Tólf verkefni fengu úthlutað samtals 51,9 milljónum króna. Slysaskrá Íslands hlaut fimm milljóna króna framhaldsstyrk úr markáætluninni til að þróa frekar úrvinnslu upplýsinga og samræma verklag og vinnuferli þeirra sem meðhöndla upplýsingar um slys. Styrkurinn er mikil viðurkenning fyrir verkefnið, auk þess sem fjármunirnir koma að góðum notum til þess að gera Slysaskrá Íslands að því tölfræði- og rannsóknartæki sem vonir standa til. Ávinningurinn af þessu verður skipulagðari slysarannsóknir, markvissari forvarnir, þverfagleg samvinna og aukin meðvitund almennings um hættur í umhverfinu og afleiðingar áhættuhegðunar.

Kostnaður vegna sölu frumlyfja sem ekki eiga sér eftirlíkingar vex hraðar en annarra lyfja
Fróðlegt er að skoða hvernig þróunin hefur verið í samsetningu lyfjasölunnar undanfarin ár hvað varðar frumlyf og eftirlíkingalyf. Skrifstofa lyfjamála hjá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu hefur tekið saman upplýsingar um þetta. Þar kemur fram að síðustu þrjú ár hefur kostnaður vegna frumlyfja án eftirlíkinga vaxið mun hraðar en kostnaður vegna frumlyfja sem hafa samkeppni af eftirlíkingalyfjum.
NÁNAR...

...(pdf-skjal).

Reglugerð um eingreiðslur til elli- og örorkulífeyrisþega árið 2002
Tekið hefur gildi ný reglugerð um eingreiðslur til elli- og örorkulífeyrisþega árið 2002. Á fjárhæðir tekjutryggingar og tekjutryggingarauka skv. 17. gr. laga nr. 117/1993 um almannatryggingar, með síðari breytingum, og fjárhæð heimilisuppbótar skv. 9. gr. laga nr. 118/1993 um félagslega aðstoð, með síðari breytingum, skal greiða uppbætur sem hér segir á árinu 2002: a) Í júlí 2002 20% uppbót á þessar fjárhæðir vegna orlofsuppbótar. b) Í desember 2002 30% uppbót á þessar fjárhæðir vegna desemberuppbótar.
REGLUGERÐIN...

Félag áhugamanna ætlar að kortleggja íslenska velferðarkerfið
Fyrirhugað er að kortleggja velferðarkerfið á Íslandi með því að skrá eins og kostur er tiltækar upplýsingar um bætur, styrki og hlunnindi sem veitt eru til þess að ná fram almennri velferð. Að þessu verkefni stendur félagið Bætur sem er félag áhugamanna um kortlagningu bótakerfisins. Félagið hefur opnað heimasíðu þar sem er að finna upplýsingar um verkefnið. Þar er einnig spjallrás þar sem allir, almenningur jafnt sem sérfræðingar geta tekið þátt í umræðu um þessi mál. Á heimasíðu félagsins Bóta segir að markmið verkefnisins sé að átta sig á velferðarkerfinu og fá yfirlit yfir kosti þess og galla. ,,Til velferðarkerfisins teljast stofnanir, samtök og fyrirtæki sem ætlað er að veita skilgreinda tryggingavernd, styrki, þjónustu, hlunnindi, jöfnun eða eingreiðslu, í því skyni að bæta þegnum samfélagsins áföll sem þeir verða fyrir eða bæta félagslega stöðu þeirra í samfélaginu. Hér má nefna t.d. Tryggingastofnun, sveitarfélög, lífeyrissjóði, sjúkrasjóði, atvinnuleysistryggingar, LÍN og skattkerfið"
HEIMASÍÐAN BAETUR.IS...

Hagfræðistofnun Háskóla Íslands stendur fyrir ráðstefnum um eftirlaun í samvinnu við INPRS
Hagfræðistofnun Háskóla Íslands stendur fyrir tveimur ráðstefnum (workshops) um eftirlaun dagana 7. og 8. júní nk. í samvinnu við International Network of Pension Regulators and Supervisors (INPRS). Hvor ráðstefna stendur í hálfan dag. Sú fyrri er haldin undir yfirskriftinni The Future of Retirement og sú síðari ber titilinn Retirement Surveys. Skipuleggjendur ráðstefnanna eru Tryggvi Þór Herbertsson, Hagfræðistofnun og Mike Orszag, Watson Wyatt. Frummælendur á fyrri ráðstefnunni verða: Geir H. Haarde, fjármálaráðherra. Alicia Munnell, Director of Center for Retirement Research, Boston College. Jeff Brown, Harvard University. Richard Disney, University of Nottingham og Institute of Fiscal Studies. Sarah Harper, Director of Oxford Institute of Ageing. Frummælendur á síðari ráðstefnunni verða: James Banks, University College London og Institute for Fiscal Studies. Tryggvi Þór Herbertsson, forstöðumaður Hagfræðistofnunar. Mike Orszag, Watson Wyatt. Richard Hinz, US Department of Labor og Jean-Marc Salou, OECD.
NÁNAR...


Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu
21. júní 2002

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum