Hoppa yfir valmynd
26. júní 2002 Dómsmálaráðuneytið

Fundur dómsmálaráðherra Norðurlandanna á Svalbarða 24.-26. júní 2002.

Fundur dómsmálaráðherra Norðurlandanna á Svalbarða 24.-26. júní 2002


Fréttatilkynning

Nr. 16/ 2002


Sólveig Pétursdóttir dóms- og kirkjumálaráðherra situr nú fund dómsmálaráðherra Norðurlanda, sem í þetta sinn er haldinn á Svalbarða dagana 24. – 26. júní. Á fundinum er rætt um ýmis mál sem efst eru á baugi í einstökum Norðurlandaríkjum og í samstarfi þeirra. Danir verða í formennsku fyrir Evrópusambandinu á síðari hluta þessa árs og lýsti danski dómsmálaráðherrann áherslum Dana í samvinnu aðildarríkja ESB og Schengen – samstarfsins. Sólveig Pétursdóttir lagði í umræðum áherslu á aukna aðild Noregs og Íslands í viðræðum um ýmis mál sem upp hafa komið í Schengen-samstarfinu. Á fundinum var samþykkt að setja á fót sérstakan samstarfshóp til þess að endurskoða reglur um framsal sakamanna og manna grunaðra um alvarleg afbrot milli Norðurlandaríkjanna.

Rætt var um vitnavernd og samvinnu Norðurlandaríkjanna á því sviði. Um er að ræða úrræði sem auðvelda uppljóstrun á starfsemi skipulagðra glæpasamtaka með því að auðvelda vitnum að komast hjá hefndum þeirra glæpasamtaka , sem þau hafa vitnað gegn. Eitt úrræðanna er að vitnin flytjist til annars ríkis. Sérstök nefnd mun vinna að nánari tillögugerð á þessu sviði. Á fundinum var einnig fjallað um baráttuna gegn hryðjuverkastarfsemi og lýstu dómsmálaráðherrarnir þeim breytingum sem gerðar hafa verið á löggjöf ríkjanna í framhaldi af atburðunum í Bandaríkjunum 11. september s.l. Talin var þörf á því að efla samvinnu á þessu sviði og verður sérfræðingum falið að útfæra það nánar.

Sólveig Pétursdóttir ræddi um kynferðislegt ofbeldi gegn börnum og þróun refsinga fyrir slík brot og skýrði frá því að innan íslenska dómsmálaráðuneytisins væri verið að skoða refsirammann á því sviði. Í umræðum kom fram að dómar fyrir kynferðisafbrot hafa almennt verið að þyngjast á Norðurlöndum. Veltu menn því fyrir sér hvort nægilegt tillit væri tekið til sálrænna og félagslegra afleiðinga slíkra brota. Þá var rætt sérstaklega um ofbeldi gegn konum innan veggja heimilisins og rætt um framkvæmd nálgunarbanns sem sérstaks úrræðis í því sambandi. Ennfremur var fjallað um vanda , sem komið hefur upp meðal innflytjenda til Norðurlanda og snýr að því að konur eru neyddar til hjónabands. Höfðu fundarmenn áhyggjur af þessu máli og hvöttu til alþjóðlegrar samvinnu á því sviði. Loks voru á dagskrá fundarins umræður um skipulag dómstóla og leiðir til þess að stytta meðferðartíma mála hjá lögreglu og í dómskerfinu.


Í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu,
26. júní 2002.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum