Hoppa yfir valmynd
9. júlí 2002 Dómsmálaráðuneytið

Bréf dómsmálaráðuneytisins vegna kostnaðarþátttöku við löggæslu á útihátíðum

Bréf dómsmálaráðuneytisins dagsett 28, júní til ríkislögreglustjóra, allra lögreglustjóra og Lögregluskóla ríkisins

Ríkislögreglustjóri, allir lögreglustjórar, Lögregluskóli ríkisins


Með umburðarbréfi ráðuneytisins dags. 13. janúar 1999 var þeim fyrirmælum beint til embættanna að á árinu 1999 yrðu skemmtanaleyfi ekki bundin því skilyrði að leyfishafi greiddi kostnað af löggæslu nema í undantekningartilvikum í samráði við ráðuneytið. Þess í stað gætu embættin sótt um úthlutun vegna löggæslukostnaðar af sérstökum fjárlagalið í umsjón ráðuneytisins 06-390-1.22 löggæsla vegna skemmtanahalds. Fjárlagaliður þessi kom fyrst í fjárlög árið 2000, 7,5, m.kr. og hefur fjárhæð haldist óbreytt síðan í fjárlögum. Undanfarin tvö ár hefur verið úthlutað til embætta af þessum fjárlagalið í nær öllum tilvikum vegna stærri viðburða, s.s. skipulagðra staðbundinna útihátíða og íþróttamóta svo dæmi séu tekin, þar sem þörf er á verulega aukinni löggæslu. Ekki hefur verið greitt af liðnum vegna hátíðahalda á landsvísu, s.s. sjómanndags eða þjóðhátíðardags. Aðeins í undantekningartilvilum hefur verið úthlutað af liðnum vegna minni viðburða s.s. almennra dansleikja, þorrablóta o.þ.h., enda hafa aðeins fá smærri embætti sótt sérstaklega um úthlutun við þær aðstæður. Á árinu 1999 var úthlutað samtals 5,3 m.kr. til átta embætta, á árinu 2000 samtals 8,7 m.kr. til níu embætta og á árinu 2001 rúmlega 8,7 m.kr. til níu embætta. Af þessu má sjá að veruleg hækkun hefur orðið á umsóknum um úthlutun af liðnum sem má að mestu leyti rekja til verulegrar hækkunar löggæslukostnaðar vegna útihátíða.

Með dreifibréfi til allra lögreglustjóra frá 11. júní 2001 var kynnt nýtt fyrirkomulag varðandi umsóknir um úthlutun. Þrátt fyrir þessar nýju reglur reyndist þörf á að greiða umfram fjárheimild liðarins. Að undanförnu hefur ráðuneytið því haft til endurskoðunar fyrirkomulag um úthlutun af þessum fjárlagalið. Niðurstaða þeirrar skoðunar er að vegna takmarkaðrar fjárveitingar verði að takmarka enn frekar úthlutun af fjárlagaliðnum og að einungis verði greitt til stærri hátíða.

Með vísan til þessa hefur ráðuneytið ákveðið eftirfarandi fyrirkomulag varðandi umsóknir um úthlutun:
    • Fjárlagaliðurinn verður aðeins nýttur til þess að standa straum af fjölsóttari útihátíðum og stærri viðburðum t.d. landsmótum. Hámark úthlutaðrar fjárveitingar í hverju tilviki verður 1/3 af heildarlöggæslukostnaði en þó aldrei meira en 1,5 m.kr. Löggæslukostnað umfram þessa fjárhæð verða mótshaldarar að bera sjálfir og lögreglustjórar að krefja þá um þann kostnað.
    • Lögreglustjórar skulu óska eftir millifærslu af ofangreindum lið í síðasta lagi tveimur vikum fyrir viðkomandi hátíð. Í umsókn um úthlutun skulu koma fram upplýsingar um viðburðinn og áætlað umfang og kostnað vegna löggæslu í tengslum við hann.
    • Viðbótarkostnaður sem fellur til vegna almennra dansleikja fellur utan millifærslu af liðnum. Er því vísað til 34. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 um heimildir lögreglustjóra til binda skemmtanaleyfi því skilyrði að leyfishafi greiði slíkan kostnað, sbr. ákvæði reglugerðar nr. 587/1987 .

Ofangreint fyrirkomulag tekur gildi frá og með 1. júlí 2002.

Í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu
28. júní 2002

F. h. r.

Stefán Eiríksson / Jón Þór Ólason



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum