Hoppa yfir valmynd
17. júlí 2002 Dómsmálaráðuneytið

Skýrsla starfshóps um úrbætur vegna skemmtanahalds á útihátíðum

Skýrsla starfshóps sem skipaður var til að fara yfir reglur og lagaumgjörð varðandi útihátíðir.
Tillögur og ábendingar um atriði sem betur mættu fara í því skyni að auka öryggi samkomugesta á útihátíðum.



Þann 8. ágúst 2001 ákvað Sólveig Pétursdóttir dómsmálaráðherra að skipa starfshóp til að fara yfir núgildandi lög og reglur er snerta skemmtanahald á útihátíðum. Dómsmálaráðherra hafði dagana á undan fundað með fulltrúum lögregluyfirvalda, landlækni, Stígamótum og fulltrúum frá Neyðarmóttöku vegna nauðgana, til að fara yfir það ástand sem skapaðist á útihátíðum um verslunarmannahelgina árið 2001. Var það niðurstaða dómsmálaráðherra eftir þau fundahöld að nauðsynlegt væri að skipa faglegan starfshóp til þess fara yfir slíkt skemmtanahald í heild sinni.
Starfshópurinn lauk störfum 11. júlí síðastliðinn og skilaði dómsmálaráðherra skýrslu sinni.

Í starfshópinn voru skipuð Jón Þór Ólason lögfræðingur í dómsmálaráðuneytinu, sem var formaður starfshópsins, Rúna Jónsdóttir fræðslu- og kynningarfulltrúi hjá Stígamótum, tilnefnd af þeim samtökum, Karl Gauti Hjaltason sýslumaður í Vestmannaeyjum, tilnefndur af Sýslumannafélagi Íslands, Guðjón Hjörleifsson fráfarandi bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Eyrún B. Jónsdóttir hjúkrunarfræðingur, tilnefnd af Neyðarmóttöku vegna nauðgana, Jón Bjartmarz yfirlögregluþjónn, tilnefndur af embætti ríkislögreglustjóra og Haukur Valdimarsson yfirlæknir, tilnefndur af embætti landlæknis.

Í niðurstöðum starfshópsins er fjallað um ýmsar hliðar útihátíða og gerðar margvíslegar tillögur til úrbóta í því skyni að auka öryggi samkomugesta á slíkum hátíðum. Hér verða niðurstöður starfshópsins raktar í helstu atriðum:

1. Lagaumhverfi útihátíða
Vakin er athygli á því að lagaumhverfi það sem tengist útihátíðum og skemmtunum er dreift og sundurleitt. Starfshópurinn leggur til að samin verði heildstæð lög um skemmtanahald, þar sem m.a. yrði kveðið á um þau skilyrði sem rétt þætti að umsækjandi skemmtanaleyfis yrði að uppfylla til þess að fá leyfi fyrir skemmtun. Í lögunum eða reglugerð sem sett yrði með heimild í þeim, yrði einnig kveðið á um umsagnaraðila fyrir skemmtanaleyfi, afturköllun og synjun leyfisins, kæruheimildir, ábyrgð mótshaldara, tryggingu fyrir löggæslukostnaði o.fl.

2. Umsókn um Útihátíðarhald
Starfshópurinn leggur til að umsókn um útihátíðarhald berist lögreglustjóra eigi síðar en þremur mánuðum áður en fyrirhuguð útihátíð hefst. Lögreglustjóra sé þó heimilt að víkja frá ofangreindum tímamörkum ef ekki er um fjölmenna hátíð er að ræða. Starfshópurinn telur að með því að kveða á um slíkan lágmarksfrest megi tryggja betri skipulagningu á mótssvæði og á starfi þeirra sem koma að gæslu á útihátíðum.

3. Kynferðisbrot á útihátíðum
Í skýrslunni er að finna ítarlega umfjöllun um meðferð kynferðisbrota á útihátíðum. Sérstaklega er fjallað um viðbrögð lögreglu við slíkum brotum og lögð áhersla á að gott samstarf þurfi að vera milli lögreglu og heilsugæslu og þeirra aðila sem hafa sérstaka þjálfun í meðferð slíkra mála. Þá er ennfremur að finna í skýrslunni sérstaka umfjöllun um aðstöðu og þjónustu fyrir fyrir þolendur kynferðisbrota.

4. Fíkniefnaefnalöggæsla á útihátíðum
Starfshópurinn telur mikilvægt að áfram sé lögð sérstök áhersla á eftirlit lögreglu með fíkniefnum á helstu útihátíðum. Sýnileg löggæsla með þjálfaða fíkniefnahunda er að mati starfshópsins mjög mikilvæg og hefur mikið forvarnargildi. Starfshópurinn telur nauðsynlegt að sérhæfðir lögreglumenn í fíkniefnabrotum séu til staðar á hinum fjölsóttari hátíðum sem miðlað geta þekkingu sinni til þeirra aðila sem starfa að hvers konar gæslu á slíkum hátíðum.

5. Áætlun um fjölda gesta
Starfshópurinn telur mikilvægt að unnið sé útfrá áætlun um hámarksfjölda mótsgesta og að ekki skuli leyft aðgengi umframgesta nema tryggt sé að unnt verði að uppfylla allar auknar öryggis- og heilbrigðiskröfur. Viðkomandi lögreglustjóri skal meta hverju sinni þann viðbúnað sem hann telur nauðsynlegt að viðhafa og getur, ef svo ber undir, lagt sjálfstætt mat á áætlaðan fjölda samkomugesta ef mat mótshaldara virðist vera óraunhæft, m.a. með tilliti til dagskráratriða. Við slíkt mat ber lögreglustjóra að hafa samráð við þá aðila sem starfa við gæslu á hátíðinni og mótshaldara.

6. Samstarf þeirra er koma að útihátíðum
Starfshópurinn telur mjög brýnt að mótshaldarar og aðilar frá lögreglu, heilbrigðisstofnunum, björgunarsveitum og aðrir skipuleggjendur hittist á undirbúningstímanum og samþætti vinnubrögð sín á samráðsfundum sem viðkomandi lögreglustjóri boðar til.

7. Skipulag hátíðarsvæðis
Starfshópurinn telur að við skipulag hátíðarsvæða beri að hafa öryggi mótsgesta að leiðarljósi. Skipulagið skuli miða við þær forsendur sem leiða má af umsókn um útihátíðarhald, m.a. um áætlaðan fjölda gesta, staðsetningu hátíðar, lengd hennar, tímasetningu, samsetningu skemmtikrafta, aldursdreifingu þeirra gesta sem líklegastur er að sækja hátíðina o.sv.frv.

8. Skipulag tjaldsvæða
Starfshópurinn telur að þar sem því verður við komið sé æskilegt að skipta tjaldsvæðum upp í ákveðin hólf og afmarka þau sérstaklega. Á þetta sérstaklega við á hinum fjölsóttari hátíðum. Tjöld skal setja upp á skipulegan máta, með tveggja metra bili milli stakra tjalda sem gist er í næturlangt. Tjaldsvæði og bílastæði er að að mati starfshópsins mikilvægt að aðskilja vegna slysahættu.

9. Samráðsfundir á meðan á hátíð stendur
Í skýrslu starfshópsins er lagt til að haldnir verði daglegir samráðsfundir á meðan á hátíð stendur með fulltrúum lögreglu, heilsugæslu, gæsluliðum og mótshöldurum. Á fundum þessum skulu ofangreindir aðilar fara yfir stöðu mála á hátíðarsvæði og koma með tillögur til úrbóta hafi eitthvað misfarist í undirbúningi eða vegna einhverra atvika sem upp hafa komið í mótshaldi.

10. Aldursmörk á útihátíðum
Meirihluti starfshópsins leggur til að miða beri aðgang ungmenna, án forráðamanna, að útihátíðum við 16 ára aldur. Sérálit minnihluta starfshópsins er að finna í viðauka II. í skýrslunni.

11. Kröfur varðandi heilsugæslu á útihátíðum
Starfshópurinn telur að mótshaldara sé skylt í samráði við öryggis- og heilbrigðisaðila að tryggja að viðbúnaður verði nægilegur vegna slysa og óhappa. Skal miða búnað og mannafla við að unnt sé að sinna jafnt smáslysum sem og alvarlegri slysum. Ennfremur að tryggja beri samvinnu við nærliggjandi sjúkrahús og heilsugæslu og að unnt sé að leita eftir aðstoð í neyð ef mótssvæði er utan bæjarfélaga.

12. Hreinsun mótssvæðis
Starfshópurinn telur að gera þurfi skýrar kröfur um hreinsun mótssvæðis, bæði meðan á hátíð stendur yfir og að henni lokinni. Mikilvægt er að ruslagámar séu aðgengilegir og nógu margir á mótssvæði og hreinsun á rusli, glerbrotum og öðru sé næg til þess að halda mótssvæði hreinu svo ekki skapist slysahætta og sýkingarhætta vegna sorps.

13. Önnur atriði
Í skýrslunni er ennfremur að finna fjölda tillagna og ábendinga varðandi ýmis þau atriði sem eru órjúfanlegur hluti útihátíðarhalds. M.a. varðandi skipulag löggæslu og starfsaðstöðu lögreglu á mótssvæði, brunavarnir, skipulag bílastæða, ábyrgð mótshaldara, atriði tengd undirbúningi og aðdraganda útihátíðarhalds o.fl. eins og nánar er fjallað um í skýrslunni.

Skýrsluna er hægt að nálgast á heimasíðu dómsmálaráðuneytisins.
Skýrsla starfshóps sem skipaður var til að fara yfir reglur og lagaumgjörð varðandi útihátíðir
Skýrslan er á Adobe Acrobat Reader sniði. (.pdf)
Acrobat Reader má nálgast hér.

Í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu,
17. júlí 2002.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum