Hoppa yfir valmynd
23. júlí 2002 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Bréf til sveitarfélaga

Félagsmálaráðuneytið vill minna á ákvæði til bráðabirgða í reglugerð nr. 944/2000 um bókhald og ársreikninga sveitarfélaga, með síðari breytingum. Ákvæðið felur í megindráttum í sér, að fyrir 1. september nk. skulu öll sveitarfélög hafa sett fjárhagsáætlun ársins 2002 fram á formi er uppfyllir ákvæði fyrrgreindrar reglugerðar og reglur reikningsskila- og upplýsinganefndar sem settar hafa verið á grundvelli hennar.

Þetta þýðir, að ef fjárhagsáætlun ársins 2002 var upphaflega sett fram á grundvelli eldri reikningsskilareglna er sveitarfélögum skylt að setja hana fram á hinu nýja formi eigi síðar en 1. september nk. Verði fjárhagsáætlunin endurskoðuð fyrir þann tíma ber sveitarfélögum jafnhliða að setja hana fram á hinu nýja formi. Ákvæðið felur einnig í sér, að bæði endurskoðuð áætlun ársins og hin upphaflega skuli uppfylla ákvæði hinna nýju reikningsskilareglna.

Um stjórnsýslulega meðferð í þessu sambandi vill ráðuneytið benda á, að nægjanlegt er fyrir sveitarfélag að leggja fjárhagsáætlun til kynningar í sveitarstjórn enda sé einungis um breytta framsetningu áætlunarinnar að ræða og, að áfram sé byggt á sömu forsendum og í upphaflegri áætlun. Um endurskoðun fjárhagsáætlunar og aðrar breytingar gilda eins og verið hefur ákvæði 62. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998.

Að endingu vísar félagsmálaráðuneytið á heimasíðu reikningsskila- og upplýsinganefndar um nánari upplýsingar um framsetningu ársreikninga og fjárhagsáætlana sveitarfélaga undir vefsíðu ráðuneytisins á veffanginu http://felagsmalaraduneyti.is/reikningsskilanefnd.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum