Hoppa yfir valmynd
15. ágúst 2002 Dómsmálaráðuneytið

Dómsmálaráðherra hittir Hr. Gennady Kirillov

Nr. 16/ 2002


Fréttatilkynning




Sólveig Pétursdóttir dóms- og kirkjumálaráðherra átti í dag fund með Hr. Gennady Kirillov, fyrsta aðstoðarráðherra almannavarna og björgunarmála í Rússlandi (First Vice Minister of EMERCOM of Russia - Ministry of the Russian Federation for Civil Defence, Emergencies and Elimination of Consequences of Natural Disasters). Hr. Kirillov er staddur hér á landi ásamt sendinefnd í þeim tilgangi að vinna að gerð samkomulags við íslensk stjórnvöld um samvinnu við uppsetningu á samræmdu neyðarnúmer, 1-1-2, í Kaliningrad héraði í Rússlandi.

Forsaga málsins er sú að árið 1995 settu Íslendingar upp stjórnstöð fyrir eitt samræmt neyðarnúmer, 1-1-2, og voru með fyrstu ríkjum í Evrópu til að taka í notkun samræmt evrópskt neyðarnúmer. Frá þeim tíma hefur verið byggt upp fullkomið tölvu- og hugbúnaðarkerfi hjá Neyðarlínunni hf., sem vakið hefur athygli annars staðar í Evrópu. Mikil reynsla og þekking á notkun þessa kerfis hefur byggst upp á sama tíma.

Vilji er til þess af hálfu íslenskra stjórnvalda að deila þessari þekkingu og reynslu með öðrum Evrópuríkjum, og hefur Eystrasaltsráðið reynst kjörinn vettvangur í þeim tilgangi. Rússar eru meðal þeirra ríkja sem sýnt hafa íslenska kerfingu áhuga og vilja þeir koma slíku kerfi upp í Kaliningrad héraði í Rússlandi. Áhugi er einnig til staðar í Eystrasaltsríkjunum Eistlandi, Lettlandi og Litháen svo og í Póllandi, en viðræður við þau ríki eru skemmra á veg komnar. Afstaða íslenskra stjórnvalda er sú að láta samstarfsríkjunum við Eystrasalt í té grunnbúnað íslensku neyðarlínunnar endurgjaldslaust, en móttökuríkið mun greiða fyrir uppsetningu, aðlögun og rekstur kerfisins. Þannig hagnast báðir aðilar á slíku samkomulagi og í framtíðinni verður kerfið þróað sameiginlega á Íslandi og í Rússlandi og jafnvel fleiri ríkjum, til hagsbóta fyrir alla aðila. Hugbúnaðurinn sem hér um ræðir er þróaður af Verkfræðistofunni Hnit hf.

Samstarf á sviði löggæslu og öryggismála fer vaxandi í heiminum. Á vegum Eystrasaltsráðsins hafa nokkur slík verkefni verið í gangi og er 1-1-2 eitt þeirra. Var þetta verkefni eitt af áhersluatriðum Rússa meðan þeir fóru með formennsku í ráðinu. Samvinna Íslands og Rússlands er jafnframt gott dæmi um tvíhliða samvinnu ríkja, og það sem er sérstaklega ánægjulegt við þetta samstarf er að hér er verið að miðla íslenskri þekkingu og reynslu.

Samstarfverkefni Íslands og Rússlands um 1-1-2 er nú komið á lokastig. Vonast er til þess að heimsókn rússnesku sendinefndarinnar hingað til lands ljúki með undirritun samkomulags (Memorandum of Understanding) um þetta verkefni.



Í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu,
15. ágúst 2002.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum