Hoppa yfir valmynd
1. október 2002 Dómsmálaráðuneytið

Umferðarstofa tekur til starfa 1. október 2002

Umferðarstofa tekur til starfa 1. október 2002



Eftirfarandi fréttatilkynning er frá Umferðastofu:

"Síðasta vor samþykkti Alþingi tvenn merk nýmæli á sviði umferðarmála. Annars vegar þingsályktun um stefnumótun um aukið umferðaröryggi og hins vegar stofnun Umferðarstofu og breytta tilhögun Umferðarráðs.
Umferðarstofa er ný stofnun sem tekur til starfa í dag og er ætlað að fara með stjórnsýslu á sviði umferðarmála, einkum varðandi umferðarreglur, ökutæki, ökupróf og ökunám, umferðarfræðslu, slysarannsóknir og slysaskráningar og fleira. Í Umferðarstofu sameinast Skráningarstofan ehf. og Umferðarráð og einnig flytjast til stofnunarinnar nokkur verkefni frá dómsmálaráðuneytinu.

Umferðarráð verður eftir sem áður samráðsvettvangur 22 aðila sem fjalla um umferðarmál og láta sig umferðaröryggi varða.

Þess er vænst að með þessu skrefi verði með öflugri hætti hægt að móta þennan málaflokk og nýta samlegð í starfsemi Skráningarstofunnar ehf. og Umferðarráðs til aukinnar skilvirkni og árangursríkari stjórnsýslu á sviði umferðarmála.

Umferðarstofa mun annast stjórnsýslu á sviði umferðarmála og sinna í meginatriðum þeim verkefnum sem Skráningarstofan ehf. og Umferðarráð hafa haft með höndum á undanförnum árum. Þar er um að ræða skráningu ökutækja, tæknileg atriði sem tengjast ökutækjum, umferðarreglur og reglur um hvíldartíma ökumanna, forskriftir um skoðun ökutækja og eftirlit með skoðunarstofum og skráningu á evrópskum heildargerðarviðurkenningum ökutækja á EES-svæðinu fyrir Norðurlöndin. Einnig mun Umferðarstofa annast innleiðingu EES reglugerða um búnað og notkun ökutækja, umsjón og eftirlit með ökunámi og ökuprófum, slysaskráningar og slysarannsóknir, fræðslu og miðlun upplýsinga um umferðaröryggismál og fleira.

Starf Umferðarstofu og Umferðarráðs á sviði umferðaröryggismála verður í samræmi við umferðaröryggisáætlun stjórnvalda til ársins 2012. Samkvæmt henni er stefnt að 40% fækkun banaslysa og annarra alvarlegra slysa í umferðinni á því tímabili. Að þessu verður unnið í nánu samstarfi við alla þá sem þessum málum tengjast. Lögð verður áhersla á að leita nýrra leiða til að ná þessum markmiðum, bæði með miðlun upplýsinga og fræðslu og einnig með eflingu allra rannsókna á umferðarslysum til þess að auka skilning á eðli þeirra og orsökum. Mikilvægt er að ná víðtækri samstöðu og þátttöku allra vegfarenda um varnir gegn þessari vá.
Allir starfsmenn Skráningarstofu og allir nema tveir starfsmenn Umferðarráðs verða starfsmenn Umferðarstofu. Karl Ragnars sem verið hefur forstjóri Skráningarstofunnar ehf. verður forstjóri Umferðarstofu og Óli H. Þórðarson framkvæmdastjóri Umferðarráðs verður jafnframt formaður Umferðarráðs."

Nánari upplýsingar er að finna á vef Umferðastofu www.us.is

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum