Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál nr. 35/2002. Úrskurður kærunefndar:

Úrskurður kærunefndar útboðsmála 13. janúar 2003


í máli nr. 35/2002:


Strengur hf.


gegn


Ríkiskaupum.


Með bréfi 4. desember 2002, sem barst kærunefnd útboðsmála 5. desember 2002, kærir Strengur hf. ákvörðun Ríkiskaupa um að hafna Streng hf. í forvali nr. 13088, auðkennt Lögreglukerfi", sem fram fór fyrir hönd dómsmálaráðuneytisins.


Kærandi krefst þess aðallega að felld verði úr gildi ákvörðun kærða um að velja kæranda ekki til þáttöku í ofanefndu forvali og að kæranda verði heimiluð þátttaka í útboðinu, gegn því að verða veittir sambærilegir tímafrestir og öðrum þátttakendum. Til vara krefst kærandi þess að forvalið og eftirfarandi útboð verði ógilt og kærða gert að hefja forvalið að nýju. Kærandi krefst þess jafnframt með vísan til 80. gr. laga nr. 94/2001 að útboðið og samningsgerð á grundvelli þess verði stöðvað þar til endanlega er skorið úr kærunni.


Kærði krefst þess að kröfum kæranda verði hafnað.


Með vísan til þess sem greinir í III hér á eftir taldi nefndin ekki efni til að fjalla um kröfu kæranda um stöðvun samningsgerðar um stundarsakir í sérstakri ákvörðun.I.


Kærði efndi til hins kærða forvals til að velja þáttakendur í fyrirhugað útboð á nýju upplýsingakerfi fyrir lögregluna. Þeir sem áhuga höfðu á að taka þátt í fyrirhuguðu útboði áttu að senda inn þátttökutilkynningu ásamt umbeðnum upplýsingum samkvæmt útboðsgögnum. Samkvæmt gr. 1.8 í forvalslýsingu átti að velja þrjá til fimm aðila til þátttöku í hinu væntanlega útboði. Forvalsgögn voru opnuð hjá kærða hinn 3. október 2002. Forvalstilkynningar bárust frá þrettán aðilum og með símbréfi, dags. 18. október 2002, var þátttakendum tilkynnt að Hugur hf., Skýrr hf., Tölvumiðlun hf. og Tölvumyndir hf. hefðu verið valin til þáttöku í útboðinu. Í kjölfarið óskaði kærandi eftir skýringum á því að hann var ekki valinn. Með tölvubréfi, dags. 8. nóvember 2002, tilkynnti kærði að ósk kæranda hefði verið vísað frá á eftirfarandi forsendum: Skv. gögnum sem fylgja tilkynningu Strengs um þáttöku í forvali nr. 13088 liggur megin styrkur fyrirtækisins í Navision kerfum, Informix þekkingu, ýmsum jaðarverkefnum tengdum þeim fyrrtöldu og hýsingu. Strengur hefur samkvæmt sömu gögnum takmarkaða reynslu af þróun stórra upplýsingakerfa í Microsoft SQL Server umhverfi, starfsmenn þar af leiðandi fáir á því sviði og reynsla af hliðstæðum verkefnum lítil. Því telur starfshópur verkkaupa Streng ekki hafa nægjanlega tæknilega getu til þess að sinna jafn flóknu verkefni og smíði Lögreglukerfisins er." Með tölvubréfi, dags. 11. nóvember 2002, óskaði kærandi eftir frekari rökstuðningi. Með bréfi, dags. 22. nóvember 2002, veitti kærði frekari rökstuðning.II.


Af hálfu kæranda er á því byggt að hann hafi nægjanlega tæknilega getu til að sinna verkefninu. Byggir kærandi m.a. á því að ekkert í verkefninu krefjist sérhæfðrar menntunar umfram almenna tölvunarfræði né sérhæfðrar reynslu umfram almenna reynslu í hönnun, gerð og uppsetningu gagnagrunnskerfa. Einnig að um lítið gagnagrunnskerfi sé að ræða, að fjöldi starfsmanna kæranda sé nægur og að kærði haldi rökum um takmarkaða reynslu af Microsoft SQL Server ranglega að kæranda, enda hafi kærandi ótvíræða reynslu af sambærilegum og stærri kerfum.


Af hálfu kærða er byggt á því að hafna beri kröfum kæranda þar sem ekki sé grundvöllur til að taka þær til greina með vísan til staðreynda málsins og gildandi reglna um opinber innkaup og að rétt hafi verið staðið að útboðinu. Er það mat kærða að kærandi uppfylli ekki kröfur forvalsgagna til þátttakenda. Kærði byggir jafnframt á því að kæran sé of seint fram komin og því beri samkvæmt 78. gr. laga nr. 94/2001 að vísa henni frá, enda hafi niðurstaða forvalsins verið tilkynnt 18. október 2002 en kæran sé dagsett 4. desember 2002 og árituð um móttöku hjá nefndinni 5. desember 2002.


Kærandi mótmælir frávísunarkröfu kærða og byggir á því að kærandi hafi ekki fengið vitneskju um niðurstöðu forvalsins fyrr en starfsmaður fyrirtækisins hafi leitað eftir henni í upphafi nóvembermánaðar 2002. Einnig vísar kærandi að þessu leyti til 3. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og telur að skoða verði sérákvæðið í 78. gr. laga nr. 94/2001 í ljósi hennar. Upphafsdagur kærufrestsins sé 25. nóvember, þ.e. þegar kærandi móttók rökstuðning kærða.III.


Samkvæmt 1. mgr. 78. gr. laga nr. 94/2001 um opinber innkaup skal kæra borin skriflega undir kærunefnd útboðsmála innan fjögurra vikna frá því kærandi vissi eða mátti vita um ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi sem hann telur brjóta gegn réttindum sínum. Í 3. gr. starfsreglna kærunefndar útboðsmála nr. 982/2001 kemur fram að umræddur frestur miðist við móttökudag hjá skrifstofu nefndarinnar eða póstlagningardag kæru.


Í máli þessu telst upplýst að kæranda var tilkynnt ákvörðun um val á þáttakendum í hinu lokaða útboði, þ.e. niðurstaða forvalsins, með símbréfi 18. október 2002, sbr. fyrirliggjandi skjal um sendingu símbréfsins. Samkvæmt ótvíræðu orðalagi 1. mgr. 78. gr. laga nr. 94/2001, sem 3. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 fær ekki haggað, bar kæranda að bera kæru undir nefndina innan fjögurra vikna frá þeim degi. Getur það ekki haggað þessari niðurstöðu að rökstuðningur kaupanda er almennt mikilvægur við mat á því hvort efni séu til að bera mál undir nefndina, en rökstuðningur kærða vegna framangreinds forvals barst ekki fyrr en 8. nóvember 2002. Eins og áður greinir er kæra dagsett 4. desember 2002. Samkvæmt því verður ekki hjá því komist að hafna kröfum kæranda án þess að tekin sé efnisleg afstaða til málsins.


Úrskurðarorð :


Kröfum kæranda, Strengs hf. vegna forvals Ríkiskaupa nr. 13088 auðkennt Lögreglukerfi" er hafnað.Reykjavík, 13. janúar 2003.


Páll Sigurðsson


Sigfús Jónsson


Stanley PálssonRétt endurrit staðfestir.


13.01.03Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn