Hoppa yfir valmynd
4. september 2003 Matvælaráðuneytið

Nr. 6/2003 - Nefnd um vanda sauðfjárbænda

Fréttatilkynning frá landbúnaðarráðuneytinu nr. 6/2003

Nefnd um vanda sauðfjárbænda


Ríkisstjórnin ræddi á fundi sínum 2. september sl. vanda sauðfjárbænda. Í framhaldi af þeim umræðum hefur landbúnaðarráðherra ákveðið að skipa nefnd er hafi það hlutverk að meta þann vanda er nú steðjar að sauðfjárbændum vegna verulegs tekjusamdráttar. Nefndinni er falið að gera tillögu til stjórnvalda hvernig við verði brugðist. Nefndin skal hraða störfum sínum svo sem kostur er.

Ljóst er að lækkun afurðaverðs á innanlandsmarkaði stafar af offramboði á kjöti, ekki hvað síst af svínakjöti og kjúklingakjöti. Offramboð og neyslubreyting innanlands hafa orðið til þess að flytja þarf á erlenda markaði hærra hlutfall af kindakjötsframleiðlu heldur en verið hefur til margra ára, en markaðsverð erlendis er verulega lægra en fæst fyrir dilkakjöt á innanlandsmarkaði. Staða sauðfjárbænda er ekki þannig að þeir þoli verulegan tekjusamdrátt nú. Því er mikilvægt að leitað verði leiða til að tryggja sauðfjárbændum viðunandi rekstrarumhverfi og afkomu.

Nefndina skipa:
Þórólfur Gíslason, kaupfélagsstjóri Kf. Skagfirðinga, formaður,
Ari Teitsson, formaður Bændasamtaka Íslands,
Drífa Hjartardóttir, formaður landbúnaðarnefndar Alþingis,
Jóhannes Sigfússon, formaður Landssambands sauðfjárbænda og
Ólafur Friðriksson, skrifstofustjóri í landbúnaðarráðuneytinu sem jafnframt verður ritari nefndarinnar.

Landbúnaðarráðuneytinu,
4. september 2003.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum